07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

101. mál, sýsluvegasjóðir

Magnús Torfason:

Mjer sýnist á brtt. á þskj. 303, að gert sje ráð fyrir, að hreppsbúar kjósi heldur, að sýsluvegagjaldið sje hluti af sveitarútsvari en sjerstakt gjald. Jeg hygg, að óþarfi sje að ræða mikið um það, því að jeg býst við, að hreppsnefnd muni ekki detta í hug að breyta til, nema það sje almennur vilji hreppsbúa. En mjer finst það tæplega rjett að binda gjaldið við þá, sem eiga fasteignir, þar sem það kemur æðihart niður á búandi mönnum, en hinir sleppa. Eru t. d. í sumum sveitum embættismenn, sem greiða talsverðan hluta útsvaranna. Get jeg í því sambandi nefnt einn hrepp í Árnessýslu, þar sem embættismenn greiða 1/3 af þeirri upphæð, sem jafnað er niður. Út af þessu var það, eins og jeg drap á, þegar málið kom hjer fyrst fram í deildinni, að sýslunefnd Árnessýslu vildi ekki nota þessi lög fyr en úr þessu væri bætt. Út af fyrir sig álít jeg þessa brtt. vera meinlausa; en hina brtt., um að sýslumenn eigi að innheimta þennan skatt sjerstaklega, tel jeg vera beint brot á innheimtureglunum um sveitargjöld; það eru hreppsnefndirnar, sem láta innheimta þetta fje ásamt öðrum sveitargjöldum, t. d. útsvörum. Væri það miklu minna umstang heldur en að sýslumenn yrðu látnir innheimta þetta gjald sjerstaklega. Þess vegna held jeg, að þessi brtt. verði ekki til bóta, verði hún samþykt. En ekkert kappsmál er mjer, að hún verði feld.