04.04.1925
Neðri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir gert grein fyrir brtt. sínum, og skal jeg þá leyfa mjer að lýsa áliti mínu á þeim.

Um 1. brtt., um orðin í 1. gr., segi jeg það eitt, að jeg tel orð nefndarinnar bæði lögulegri og ákveðnari. Og jeg held það sje nokkur áhersla leggjandi á það, að það komi fram þegar í 1. gr., að lán til húsabygginga úr ræktunarsjóði eigi eingöngu að falla til sveitanna. Hvað sem menn svo annars vildu gera viðvíkjandi lánum til jarðræktar, þá held jeg, að ekki sje rjett að gera verksvið þessa sjóðs svo víðtækt, að lána til húsabygginga þeim mönnum við kaupstaðina, sem kynnu að rækta sjer þar bletti. Jeg hefi talsvert hugsað um þetta atriði, því mjer er það ljóst, að það er dálítið erfitt að gera upp á milli og ákveða takmörkin. Því í sjálfu sjer er það alveg rjettmætt, að nýbýli við kauptún og sjóþorp, eða í þeim, njóti lána í þessu skyni. En niðurstaða mín er sú, að það sje ekki rjett að draga það verkefni inn undir þessa lánsstofnun landbúnaðarins; því jeg álít, að það geti komið fram dálítil óánægja út af því, hvernig fje sjóðsins sje notað, annaðhvort frá sveitamönnum eða sjóþorpamönnum, ef þeir halda, að þeir verði afskiftir. Jeg hygg rjettara að sneiða hjá þessu skeri um leið og sjóðurinn er stofnaður, með því að takmarka starfssvið hans við sveitirnar aðeins. Það gera till. landbn. skýrlega, en ekki till. hv. þm. Str.

Um 2. brtt. get jeg ekki annað sagt en að mjer stendur öldungis á sama, hvort hún verður samþykt eða till. landbn. En jeg tek það fram, að þar sem sett eru tímatakmörk um það, að greiðslu skuli lokið eigi síðar en 1. júní 1930, þá er löggjafarvaldið þarna að leggja bönd á sjálft sig, að það veiti fjeð innan þessa tíma.

Um 3. brtt. hefi jeg í raun og veru þegar rætt og lýst því yfir, að jeg get ekki fallist á, að þessir tollar eða gjaldaákvæði sjeu tekin upp í sjálft frv. um ræktunarsjóðinn. Um afstöðu mína til þessara ákvæða að öðru leyti, sjerstaklega að því er snertir samband þeirra við framlag til landhelgisgæslu, læt jeg alveg bíða að tala þangað til það mál kemur fram.

Þá er 4. brtt., að ákvæðið um, að vextir af vaxtabrjefum 1. flokks sjeu 6%, falli burt. Jeg get fallist á þetta ákvæði. Hefir það verið álitið vafamál, eins og getið er í aths. fyrir stjfrv., hvort rjett væri að einskorða þetta. En það er ekki af þeim ástæðum, sem háttv. þm. Str. bar fram, sem sje, að ekki eigi að byrja strax að selja vaxtabrjefin; það nær ekki nokkurri átt. Það er af hinu, að breyting getur orðið á peningavöxtum frá þessum tíma og til hausts; þó það geti verið ástæða til að setja vextina 6% eins og nú er ástatt, þá er naumast rjettmætt að lögbinda slíkt undir þeim kringumstæðum, sem nú eru. Ef þessi brtt. kynni að verða samþykt, þá vil jeg þó strax hafa það fororð, að ef það kemur til mín að ákveða þessa vexti, og ástand peningamarkaðsins helst óbreytt frá því, sem nú er, þá mundi jeg einmitt ákveða þá 6%.

Jeg sagði áðan: Það nær ekki nokkurri átt að byrja ekki strax að selja vaxtabrjefin. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði. Það er nefnilega svo um þessa stofnun, að hún kemur að því leyti á hentugum tíma, að maður veit ekki vonir til þess, að það verði nein ný vaxtabrjef á markaðinum á sama tíma, til þess að keppa við hana, svo nokkru nemi. En það er um að gera fyrir svona stofnun, sem ætlar að sækja kraft sinn með viðskiftum við sparendur með vaxtabrjefasölu, um að gera strax og stofnunin sest á laggirnar að beina starfseminni inn á þá braut, sem starfsemin síðar á að liggja á; með öðrum orðum, ná í þau viðskifti við innstæðumenn, sem stofnunin í framtíðinni ætlar að lifa af. En að vilja ekki byrja þegar á vaxtabrjefasölu, það er rjett eins og kaupmaður, sem væri að setja upp verslun, hugsaði sem svo: Jeg get alt að einu haft einhverja aðra atvinnu nú fyrstu mánuðina og látið búðina standa lokaða; ekkert liggur á að fara að versla. Hann er búinn að sleppa tækifærinu úr höndum sjer, og þegar hann loks opnar búðina. er ekki ólíklegt, að keppinautarnir sjeu komnir á undan honum.

Þá er b.-liður 4. till., sem ákveður, að vaxtabrjef ræktunarsjóðs skuli vera skattfrjáls, og „þau og vaxtamiðar þeirra eru undanþegin kyrsetningu og löghaldi“ o. s. frv. Þetta ákvæði vildi jeg ekki taka upp í stjfrv. og vil ákaflega eindregið vara við að innleiða í okkar löggjöf. Ekki af því, að fyrirmyndir vanti; síður en svo. Bæði í Þýskalandi og Sviss á þetta sjer stað, en sjerstaklega er það algengt í Frakklandi. Þessi tilhögun er gömul þar í landi, og það ríki gekk líka á undan öllum ríkjum álfunnar í að koma upp því ríkisskuldasúpufyrirkomulagi, sem okkar öld á við að búa. Frakkneska ríkið sökk því snemma í stórskuldir og varð að leita margra bragða til að koma út ríkisskuldabrjefum sínum. Var þá m. a. gripið til þess úrræðis að gera skuldabrjefin (vaxtabrjefin) skattfrjáls, til þess að þau yrðu útgengilegri. En af þessu leiddi mikil þjóðfjelagsvandræði. Ríkisskuldabrjefin söfnuðust auðvitað á hendur stóreignamanna, en þeir urðu skattfrjálsir, þurftu hvorki að borga tekjuskatt nje eignarskatt af þessum eignum sínum. Ef þetta skal nú innleitt hjer, til þess að hægra verði að selja vaxtabrjefin, þótt tímarnir sjeu erfiðir, þá mun svo fara, að fleiri koma á eftir, er verða að fá sömu fríðindin. T. d. mun ríkisveðbankinn krefjast sömu forrjettinda, og þá yrði líklegast ekki hjá því komist að veita það líka, að hann fengi samaháttar hlunnindi fyrir sín vaxtabrjef, og þó að þingið veitti ekki fleirum, þá er enginn efi á að ríkið mundi nota sjer þetta fyrir sín eigin vaxtabrjef og mundi gera þau hliðstæð öðrum, sem hefðu fengið slíkar ívilnanir. Þetta mundi leiða til þess, að menn færu að safna auði í vaxtabrjefum og losna þannig við alla skatta og skyldur þjóðfjelagsins. Jeg hygg, að hv. þm. Str. hafi ekki gert sjer þetta fullljóst, er hann lagði til að gera brjefin skattfrjáls, og jeg vara ákveðið við því, að farið verði inn á þessa leið. En jeg er sannfærður um, að það er til önnur leið, sem jeg og hefi lagt til að yrði farin til þess að bæta fyrir og tryggja sölu brjefanna, og hún er sú, að ríkissjóður taki fulla ábyrgð á greiðslu brjefanna. Hefi jeg því rólega samvisku í því efni, að ekki verður hægt með sanni að segja, að jeg hafi borið fyrir borð hagsmuni ræktunarsjóðsins, en jeg vara við hinni leiðinni, sem er leið, er liggur til óheppilegrar aðstöðu innan þjóðfjelagsins.

5. brtt. sín segir hv. þm. Str. (TrÞ), að sje til þess að samræma 8. og 13. gr. frv., en þess er ekki þörf. 8. gr. frv. tiltekur alt það, sem fellur inn undir jarðræktarlögin og ráð er fyrir gert, að lán verði veitt til, og verður það einnig að sjálfsögðu talið upp í reglugerð sjóðsins; jeg hefi ekkert við það að athuga að taka hjer upp þá vegi, er um ræðir í brtt., en jeg hefi ákveðið á móti því að fara að binda lögin við skýrslur Búnaðarfjelagsins eða annara slíkra fjelaga. Þessar skýrslur geta breyst ár frá ári; þær eru gerðar af hagfræðilegum ástæðum, og getur verið misjafnt, hvað upp í þær er tekið á hverjum tíma, enda er ekki annað viðeigandi en að talið sje upp í reglugerð lánsstofnunarinnar sjálfrar, til hvaða jarðabóta lán skuli veitt, en eigi menn að fara að óskum háttv. þm. Str. (TrÞ) og taka ýmislegt upp úr skýrslum búnaðarfjelaganna, yrði það til þess, að það yrði að breyta reglugerð ræktunarsjóðsins í hvert sinn sem breyting yrði á skýrsluformum búnaðarfjelaganna. Yfir höfuð held jeg, að í þessu atriði sje ekki um neinn efniságreining að ræða milli mín og hv. þm. Str., en jeg álit ákvæði stjfrv. betur orðað en till. hans. Það er til bóta aðeins, að ákvæði um lán til vegagerða skuli tekin upp, en þó er hjer að sjálfsögðu aðeins átt við þá vegi, sem gerðir eru sjerstaklega vegna afnota af jörðunum sjálfum, en ekki við algengar samgöngubætur. (TrÞ: Auðvitað dettur engum annað í hug).

Þá er enn eftir brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) um fjárframlag frá Landsbankanum til ræktunarsjóðsins. Jeg veit varla, hvort jeg hefi skilið hv. þm. Str. rjett, en jeg tók eftir því, að hann segði, að það væri meiningin með þessari brtt., að Landsbankinn legði fram reiðu peninga. Það væri ekki átt við vaxtabrjefakaup. Nú er það sjálfgefið, að þegar ræktunarsjóður selur vaxtabrjef sín, þá fær hann einmitt reiðu peninga fyrir þau. Jeg get því ekki skilið, hver hagur það er fyrir ræktunarsjóðinn að fá fjeð án þess að láta vaxtabrjef í staðinn, og á vaxtakjör lánanna hefir þetta engin áhrif; að minsta kosti gerir þetta engan mismun, ef gert er ráð fyrir, að ákvæði frv. um þau verði látin standa. Þar er gert ráð fyrir 6%, og ef svo er, þá get jeg ekki skilið, hvað ræktunarsjóðurinn gæti haft á móti því að láta bankann hafa vaxtabrjef fremur en öðruvísi skuldabrjef, en fyrir bankann er það betra að fá vaxtabrjefin, sem hann getur svo ráðið yfir og selt, ef vill, og notað sem hvert annað laust fje handbærf. Auk þess eru þessi vaxtabrjef trygð með ábyrgð ríkissjóðs, sem bankinn mundi fara á mis við, ef hann í stað vaxtabrjefanna fengi venjuleg skuldabrjef frá ræktunarsjóði. En eins og brtt. er orðuð, er ekki hægt að sjá annað en að Landsbankinn eigi að leggja fram þetta fje á sama hátt og ríkissjóður leggur fram sitt tillag til ræktunarsjóðsins, en jeg geri þó ráð fyrir, að þetta eigi að vera lán, og þá er það undarlega til orða tekið að kalla það framlag. (TrÞ: Það á að greiða vexti af þessu fje). Já, vitanlega verður að greiða vexti af því. En þó nú að ræktunarsjóðurinn láti vaxtabrjef á móti þessu, fær hann þó reiðupeninga í staðinn. En eigi að skoða þetta sem lán, eins og jeg geri ráð fyrir, þá er ekkert í orðalagi brtt. á móti því, að ræktunarsjóðurinn láti vaxtabrjef í staðinn. Það má alveg eins láta þau skuldabrjef eins og hver önnur, og vaxtabrjef eru aðeins sjerstök tegund skuldabrjefa, og ekki annað. (TrÞ: Já, en ræktunarsjóðurinn er ekki skyldur að láta vaxtabrjefin af hendi). Jeg geri ekki mikið úr því, hvort hann er skyldur til þess eða ekki; hann mundi ávalt gera það fremur en að gefa út algeng skuldabrjef. Að öðru leyti skil jeg þessa brtt. á sama hátt og ákvæðin um tillag Landsbankans til búnaðarlánadeildarinnar, þ. e. um alt að 1 milj. 250 þús. kr., með þeirri takmörkun þó, að ekki þurfi að leggja fram meira af þessari upphæð en stjórn Landsbankans telur sjer fært að láta af hendi.

8. brtt. háttv. þm. Str. (TrÞ) er í þá átt, að gæslustjórar ræktunarsjóðsins skuli skipaðir af búnaðarþingi Íslands. Að efninu til hefi jeg ekki svo mjög á móti þessu, en eins og þetta er fram borið verður ekki hægt að framkvæma þetta. Það er sem sje ekki gert ráð fyrir, að gæslustjórar sjeu skipaðir til ákveðins tíma, heldur sitji þeir í starfinu þangað til þeir af einhverjum öðrum orsökum verða að láta af því. En búnaðarþingið kemur saman annaðhvert ár; nú er því nýlega slitið, og gat það því ekki tekið ákvörðun um skipun þessara gæslustjóra, en samkvæmt frv. á ríkisstjórnin nú að skipa þessa menn upp á lífstíð, og þó það ætti að berast undir búnaðarþingið, gæti það vel hent, að annar eða báðir fjellu frá t. d. mánuði eftir að búnaðarþinginu væri slitið. Er það sýnilegt, að því verður ómögulegt að nota þennan tillögurjett sinn, því það má alls ekki gera ráð fyrir, að hægt verði að bíða eftir því, að þingið komi saman næst. Jeg tek þetta fram hv. nefnd til athugunar, ef hún vildi koma fram með brtt. til 3. umr. um það, að gæslustjórana skuli skipa til ákveðins tímabils aðeins, og ætti þá að miða það við setu búnaðarþingsins. Þetta er ekkert nýmæli hjá okkur í löggjöfinni; þar er algengt að skipa menn til ýmissa starfa til ákveðins tíma, en eins og tillagan er borin fram nú er ekki hægt að samþykkja hana.

Um síðustu till. hv. þm. Str. hefi jeg það að segja, að jeg hefi þann metnað fyrir þessa stofnun, að jeg vil ekki láta ræktunarsjóðinn renna saman við aðra stofnun, þó að hann ætti kost á að verða þar áfram sem sjerstök deild, og jafnvel þó að um jafnvirðulega stofnun sje að ræða og ríkisveðbanka Íslands.