04.04.1925
Neðri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg skal vera stuttorður að þessu sinni, bæði af því að jeg vil ekki lengja umr. að óþörfu, og svo vegna þess, að þeir, sem enn hafa talað, hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. þm. Str. (TrÞ), hafa ekki gefið tilefni til langra andmæla.

Þeirra álit er ekki í neinum aðalatriðum frábrugðið áliti nefndarinnar. Þeir eru báðir þeirrar skoðunar, að styrkja beri landbúnaðinn öfluglega, og þó að skiftar skoðanir kunni að vera um einstaka atriði, þá eru þau ekki þannig vaxin, að jeg þurfi að halda langa ræðu þeirra vegna.

Hæstv. fjrh. talaði m. a. um brtt. nefndarinnar við 8. gr., þar sem hún leggur til, að húsabætur sjeu gerðar jafnrjettháar jarðabótum, eða m. ö. o. að liðurinn, sem tekur jarðabætur fram yfir húsabætur, falli niður. Hæstv. ráðh. (JÞ) var ekki mótfallinn þessari brtt. og vitnaði rjettilega í, að seinna í greininni er ráð fyrir því gert, að stjórn sjóðsins geti, ef henni sýnist svo, krafist þess, að jarðabætur sjeu gerðar áður en fje er veitt til húsabóta úr sjóðnum.

Með tilliti til þessa ákvæðis og ætlunarverks sjóðsins yfirleitt bar nefndin fram umrædda brtt.

Þá sagði hæstv. fjrh., að sennilega væri engin þörf á því, að sjóðnum væri sjeð fyrir meiri tekjum en gert er ráð fyrir í stjfrv.

Það er ómögulegt að segja neitt um þetta atriði fyrirfram. Þörf sjóðsins á auknum tekjum verður undir því komin fyrst og fremst, hversu bændur færa sjer þessa nýju lánsstofnun í nyt.

Hæstv. fjrh. gat þess við 1. umr., að hann hefði þá trú, að lán úr sjóðnum yrðu lítil til að byrja með, en myndu aukast með tímanum, eftir því sem skilningur manna á nauðsyn jarðabóta glöggvaðist. Þetta er og í samræmi við álit Búnaðarfjelagsnefndarinnar, sem hefir upphaflega samið þetta frv., en hún lagði þó aðaláhersluna á, að þegar í byrjun væri trygging fyrir því, að sjóðurinn gæti starfað af fullum krafti, að grundvöllurinn væri lagður svo traustur, að byggja mætti töluvert stóra byggingu á honum. Þessi skoðun byggist á þeirri von og trú, að landbúnaðurinn íslenski eigi mikla og glæsilega framtíð fyrir höndum, ef honum eru veitt þau skilyrði, sem hann þarfnast.

Hæstv. fjrh. hjelt því fram, að ekki muni vera hægt að greiða atkv. um 2. brtt. nefndarinnar 1. lið, um tekjur af þjóðjörðum, sjerstaklega. Þetta má vel vera, en þá er hægurinn hjá að koma með aðra brtt. til 3. umr.

Annars er það um þessar tekjur að segja, að þó að þær sjeu nokkrar nú, þá er athugandi, að menn mega vinna afgjöldin af sjer, og það hlýtur að fara í vöxt, eftir því sem áhugi manna fyrir jarða- og húsabótum eflist, m. a. við það, að frv. þetta verður að lögum. En við það minka tekjur ríkissjóðs hvort eð er, svo að hann missir í rauninni ekki mikils, þó að þessar tekjur af þjóðjörðum verði látnar ganga til ræktunarsjóðsins.

Í sambandi við þessa brtt. sagði hæstv. ráðh. (JÞ), að með samþykt hennar væri löggjafarvaldið að gefa sjálfu sjer ofanígjöf, þar sem hún færi í bága við þau ákvæði, sem voru samþykt árið 1905. Hið sama má í rauninni segja um allar breytingar, sem gerðar eru á löggjöfinni, og þá ekki síður um þá breytingu, sem lögin frá 1905 gerðu á eldri löggjöf um þetta efni, en aðrar.

Þetta er engin ný bára, og enda þótt hæstv. fjrh. sje góður og gegn íhaldsmaður, þá hefir hann samt oftar en einu sinni stuðlað að því, að löggjafarvaldið veitti sjálfu sjer slíka ofanígjöf, með því að greiða breytingum á eldri lögum atkvæði.

Þá var hæstv. fjrh. mótfallinn því að leggja nýjar kvaðir á Landsbankann og taldi hann svo sjerstæða stofnun, að ekki væri rjett að leggja á hann nema sem allra minstar kvaðir.

Þessu er því að svara, að enda þótt Landsbankanum verði gert að skyldu að sjá ræktunarsjóði fyrir húsnæði, þá er þetta ákvæði sama eðlis og sú kvöð, sem hæstv. ráðh. (JÞ) leggur bankanum sjálfur á herðar í stjfrv., þar sem sagt er, að bankinn skuli fyrst um sinn hafa á hendi afgreiðslu og bókhald sjóðsins fyrir þá þóknun, sem um semst. Það þarf að gera ráð fyrir húsrúmi fyrir meira en bókhald sjóðsins eitt og skjöl, því að stjórn hans verður að koma saman við og við, og er þá ekkert eðlilegra en að Landsbankinn leggi henni til húsrúm, þar sem hann hefir dagleg afgreiðslustörf sjóðsins á hendi.

Um það, hvort Landsbankinn sje alveg sjerstæð stofnun í landinu og þess vegna megi ekki hreyfa við honum litlafingri, skal jeg ekki deila mikið við hæstv. ráðh. (JÞ). Þó hefir mjer skilist, að skoða mætti framlög ríkissjóðs til bankans á þann veg, að bankinn geymdi í rauninni þetta fje fyrir landið, og eftir að ríkissjóður hefir lagt stórfje í fyrirhugaðan hlutabanka, sem nú á að smíða upp úr Landsbankanum, þá er ekki hægt að segja, að bankinn sje ríkisvaldinu með öllu óviðkomandi.

Í þessu sambandi er rjett að geta þess, að ætlun nefndarinnar er ekki sú, að leggja alveg á vald landsbankastjórnarinnar, hvenær hún kaupir vaxtabrjef ræktunarsjóðsins, þau, sem bankanum skal skylt að kaupa. Nefndin vill láta ákveða í þessum lögum, hvenær þeim kaupum skuli lokið, ef krafist verður, til þess að bankastjórnin geti ekki skotið sjer undan að verða við þessari skyldu sinni, eins og hún á sínum tíma vildi skjóta sjer undan því að láta búnaðarlánadeildina taka til starfa, sællar minningar.

Hvað því viðvíkur, að það sje nokkur sneypa fyrir ræktunarsjóðinn að vera til húsa hjá Landsbankanum, og þannig upp á bankans náð kominn, vegna þess að ríkissjóður leggi ræktunarsjóði meira fje en hann hefir lagt bankanum, þá er því að svara, að þessi röksemdaleiðsla hæstv. ráðh. (JÞ) kemur ekki vel heim við skoðun hans að öðru leyti.

Mjer skildist á orðum hans, að hann áliti Landsbankann ekki aðeins voldugri en ræktunarsjóðinn, heldur jafnvel voldugustu stofnun landsins, þar sem þingið má ekki einu sinni skifta sjer af honum, hvað sem við liggur.

Hæstv. fjrh. lagðist ekki beinlínis á móti brtt. nefndarinnar við 2. gr., um nýjan tollauka, er gangi til ræktunarsjóðsins, en gat þess hins vegar, að eins mætti taka lán í þessu skyni. En jeg vil nú beina því til hæstv. stjórnar, hvort ekki muni betur í samræmi við stefnu hennar í fjármálum yfirleitt að auka tolltekjur ríkissjóðs í þessu skyni en taka ný lán. Mjer hefir altaf skilist, að hún vildi leggja meiri áherslu á að borga skuldir ríkissjóðs en bæta á þær.

Jeg hafði orð á þeim kala, sem víða gerir vart við sig í kaupstöðum til sveitabúskaparins. Að vísu vildi jeg ekki gera mikið úr þessum kala, þó ekki verði því neitað, að hann sje til. En ekki mun það draga úr andúðinni milli sveita- og kaupstaðabúa, ef nú ætti að skattleggja allar innfluttar vörur fyrir landbúnaðinn.

Starfsvið sjóðsins er einnig ákaflega margvíslegt, því lánsþörfin er ekki eingöngu bundin við ræktun engja og túna, heldur og garðrækt, girðingar og húsabætur, ekki einungis að því er snertir íbúðarhús, heldur einnig gripahús, hlöður og áburðarhús. Það má að vísu um þetta þrátta. En það er trú mín, að með svona lagaðri hjálp mætti koma landbúnaðinum til viðreisnar.

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefi jeg litlu að svara. Hann gat þess, að þetta þing væri þannig skipað, að nú væri betri aðstaða en áður að koma fram slíkri löggjöf, og betri en búast mætti við. Það gleður mig, að hv. þm. hefir þessa trú, einkum af því að flokkur hans er hjer ekki í meiri hl. Vona jeg, að þessi ummæli hans verði að áhrínsorðum.

Þá kvað hv. þm. (TrÞ) það reiðilaust af sinni hálfu, þó frv. stjórnarinnar gengi fram. Það er eðlilegt; bæði kom það fyr og er betur úr garði gert. Við tókum fult tillit til frv. hans og vísum til þess, en töldum óþarft, að það kæmi fram, eftir að hitt hafði gengið í gegnum búnaðarfjelagsnefndina. Viðvíkjandi brtt. búnaðarfjelagsnefndarinnar skal þess getið, að í landbn. hefir ekki unnist tími til þess að taka afstöðu til þeirra allra. Þó eru 2 brtt., sem landbn. leggur til, að samþyktar verði, og mun það sýna sig, að hún verður þeim fylgjandi. En þær brtt., sem fara í bága við nál., getur hún að sjálfsögðu ekki samþykt.

Hv. þm. Str. talaði um 2. brtt. sína og lagði áherslu á, að það ætti ekki að vera samningsatriði milli ríkissjóðs og ræktunarsjóðsins, hvenær og á hvern hátt yrði endurgreidd sú upphæð, sem fengin væri úr ríkissjóði í þessu skyni. Tók hann dæmi af sögufróðleik sínum, að árið 1864 hefði verið svo ákveðið eftir þýsk-danska stríðið, að atkvgr. skyldi skera úr, hvoru landinu Norður-Sljesvík skyldi fylgja. En þar sem ekkert tímatakmark var sett, hefði afleiðingin orðið sú, að þessi landshluti sameinaðist ekki Danmörku fyr en eftir heimsstyrjöldina.

Þetta er sjálfsagt sögulegur sannleikur. En dæmið haltrar að því leyti, að þar eru aðeins tveir aðiljar, en ekki sá þriðji, sem sker úr. En þess er að gæta, að milli þessara tveggja aðilja, ríkissjóðs og ræktunarsjóðs, er þriðji aðili, Alþingi, sem ágreiningsmálum yrði skotið til.

Brtt. við 2. lið, þskj. 229, viðvíkjandi tolli á útfluttum afurðum, verður tekin aftur til 3. umr. Hv. þm. (TrÞ) kvað þennan toll vera „permanent“, og sagðist ekki vilja greiða atkv. „permanent“ tolli til styrktar ræktunarsjóðnum. Satt er það, að þessi tollur er það að vissu leyti, en ekki að því er snýr að ræktunarsjóðnum, heldur sjávarútveginum. En hitt er eðlilegt, þegar ríkissjóður verður fyrir miklum útgjöldum, að þá verði honum eitthvað að koma í staðinn. Og jeg vildi beina þeirri spurningu til hv. þm. (TrÞ),hvaðan hann vildi fá þennan kostnað upp borinn.

Viðvíkjandi skattfrelsi vaxtabrjefanna ætla jeg engu að svara. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir þegar gert það, og hefi jeg þar engu við að bæta.

Að því er snertir 5. brtt. nefndarinnar, að síðasti hluti 8. gr. falli niður, þá hefi jeg lýst áliti mínu svo rækilega, að jeg sje ekki ástæðu til þess að taka það aftur fram.

Það er ef til vill fleira, sem ástæða væri til að minnast á, en að öðru leyti eru skoðanir okkar hv. þm. Str. svo náskyldar, að jeg sje ekki þörf á því að þrátta um þetta.