04.04.1925
Neðri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þegar jeg talaði um annan liðinn í 2. brtt. nefndarinnar og sagði, að hann væri eins og löggjafarvaldið væri að gefa sjálfu sjer ofanígjöf, þá var það ekki svo mjög vegna efnisins í tillögunni, heldur vegna þess, að það, sem leggja á fram, er reiknað út eins og það væri skuld. Þess vegna er eins og verið sje að gefa löggjafarvaldinu 1905 ofanígjöf, eins og það hefði ekki átt með að ákveða, að þessir vextir af ræktunarsjóði skyldu renna í ríkissjóð.

Jeg veit ekki alveg, hvað jeg á að leggja upp úr ummælum hv. 2. þm. N.-M. (AJ) viðvíkjandi vaxtabrjefakaupum og skyldu Landsbankans til þess að kaupa. Samkv. 6. brtt. nefndarinnar á stjórn bankans að kaupa brjef fyrir þá upphæð, sem lögin um búnaðarlánadeild mæla fyrir, að Landsbankinn skuli leggja þeirri deild. En sú upphæð er ekki fastákveðin í þeim lögum, heldur er einungis sett hámark fyrir henni, samtals er það „alt að“ 11/4 milj. kr. Innan þess hámarks ræður bankastjórnin, hve mikið hún leggur deildinni. Þannig skil jeg skyldu bankans samkv. lögunum um búnaðarlánadeildina, og eigi þessi ákvæði í till. nefndarinnar að skiljast þannig, hefi jeg ekkert við þau að athuga. En ef eitthvað annað á að koma til, ef stjórn bankans segist ekki hafa fje til þessara lána, þá er hjer um nýmæli að ræða, og verður þá að orða till. öðruvísi. En jeg vona, að svo sje ekki, heldur meini hv. nefnd aðeins það, sem jeg hefi lýst.

Það hafa orðið hjer nokkrar umræður um það, sem jeg sagði um afstöðu Landsbankans til ríkisins og löggjafarvaldsins. Hv. þm. Str. (TrÞ) benti á, að nú væri verið að löggefa um þessa stofnun, meðal annars með frv. um fiskifulltrúann á Spáni. Það er alveg rjett, að það heyrir undir löggjafarvaldið að löggefa um starfsemi Landsbankans, og það má vel líta svo á, að með frv. um fiskifulltrúann á Spáni sje verið að löggefa um starfsemi bankans, því að ætlast er til, að bankarnir njóti hagsmuna af þeirri tilhögun, móts við framlagið, sem af þeim er krafist. Þetta hafa líka bankastjórarnir sýnt með því að eiga frumkvæðið að því, að ráðið sje fram úr þeim málum á þann hátt, sem það frv. fer fram á. En það, sem jeg taldi óheimilt, var það, að leggja sjerstakar fjárkvaðir á Landsbankann til þess, sem starfsemi hans er óviðkomandi. Og það er ekki af því, að hann er voldugasta stofnun ríkisins, eins og hv. frsm. (ÁJ) sagði. Nei, heldur er það af hinu, að svo er litið á löggjafarvald heildarinnar gagnvart einstaklingunum, að ekki sje hægt að neyða neinn einstakling nje stofnun til þess að láta eignir sínar af hendi án endurgjalds. Stjórnarskráin verndar þennan eignarrjett einstaklinganna. Ef menn því játa, að Landsbankinn sjásjálfseignarstofnun, þá á hann að njóta þessara rjettinda. Hjer er ekki að ræða um veldi, heldur um það eitt að skoða hann að þessu leyti hliðstæðan borgurunum og öðrum stofnunum í þjóðfjelaginu. Aftur á móti yrði hann að sjálfsögðu sem banki að beygja sig undir allar þær almennu ákvarðanir, sem löggjafarvaldið setti bönkum. Jeg meina, að svo framarlega sem ríkið ekki tekur á sig fullkomna ábyrgð á skuldbindingum bankans, þá eigi innstæðueigendur, þeir sem leggja fje sitt í bankann, fullan rjett og kröfu á því, að bankinn njóti sömu rjettinda og aðrar stofnanir og borgarar ríkisins, þannig að eignirnar sjeu ekki teknar án endurgjalds með lagaákvæðum. Þetta er rjett afleiðing af afstöðu bankans eins og jeg hygg að hún sje. Jeg skal benda á aðra stofnun, sem enginn ágreiningur er um, að þetta er þannig vaxið. Það er veðdeild Landsbankans. Það er enginn ágreiningur um það, að löggjafarvaldið getur ekki með einu eða neinu lagaboði lagt fjárkvaðir á veðdeild Landsbankans, og ef það gerði það, gæti hver veðbrjefaeigandi sem vildi snúið sjer með kæru til dómstólanna og rekið rjettar síns. En ef verið væri að lögbjóða um veðdeildir alment, þá yrði veðdeild Landsbankans auðvitað að beygja sig undir slík almenn ákvæði.

Út af því, sem jeg mintist á um það, að hægt væri í ræktunarsjóðsfrv. sjálfu að tryggja ræktunarsjóðnum framlag úr ríkissjóði án tollafrv., gat hv. frsm. (ÁJ) þess, sem auðvitað er rjett, að stjórnin mundi ekki vilja taka lán í þessu augna miði. Mjer dettur ekki í hug, að hnúturinn verði leystur á þann hátt, jafnvel þótt heimild um slíka lántöku yrði sett inn í ræktunarsjóðsfrv., til þess að stjórnin gæti á engan hátt skotið sjer undan að uppfylla þá skyldu, sem frv. leggur henni á herðar.

Þá lýsti hv. frsm. (ÁJ) því, að þörfin fyrir lán úr þessari stofnun yrði afarmikil þegar í byrjun. Jeg neita því ekki, að þörfin er mikil, en vil aðeins minna á það, að þessi lánsþörf, sem hjer um ræðir, hlýtur að vera sama lögmáli undirgefin og allar þarfir landsmanna nú: Að meðan menn eiga það vofandi yfir höfði sjer, að gildi peninga hækki um 50% á næstu árum, þá verða þeir varkárari í að taka lán, eins og allir eiga og verða að vera meðan svo stendur á sem nú. Nú er ekki tími til að taka önnur lán en þau, sem fyrirsjáanlegt er, að gefa mikinn og fljóttekinn arð, því að menn geta átt á hættu, að önnur lán verði þeim of þung byrði. Á þessu byggi jeg það, að eftirspurnin eftir lánum úr þessari stofnun verði lítil einmitt fyrst í stað. Jeg veit, hvað þýðir fyrir lántakendur að hafa hækkun peninganna vofandi yfir höfði sjer, og skilningur á því efni er nú óðum að breiðast út, svo að menn eru varkárir á lántökum nú, eins og þeir líka eiga að vera.

Hv. þm. Str. (TrÞ) bar fram þá fyrstu ástæðu, sem jeg hefi enn heyrt fyrir því að auka sjóðinn nú þegar, þó að það sje vitanlega aðeins rjettmæt ástæða fyrir þá, sem eru sömu trúar og hann. En hún var sú, að hann taldi enga tryggingu fyrir því, að seinni þing yrðu þannig skipuð, að þau yrðu fús til að leggja fram fjármagn til aukningar þessari stofnun. Jeg játa það hiklaust, að ef jeg hefði þá trú, að seinni þing yrðu ekki fús til þessa, þá hefði jeg sjálfur átt frumkvæði að því, að aukning sjóðsins yrði gerð nú þegar, en mjer dettur bara alls ekki í hug, að seinni þing muni vanta viljann til þessa. En eins og jeg hefi áður sagt, jeg er ekkert á móti því, að þetta verði gert nú þegar, ef menn vilja leggja á sig þær byrðar, sem það kostar.

Mjer skildist, að hv. þm. Skr. (TrÞ) ætli að taka aftur 3. lið brtt. sinnar nú, og get jeg því alveg slept að tala um hann.

Hv. þm. (TrÞ) er, að því er mjer virðist, of hræddur við vaxtabrjefasöluna og þá háu vexti, sem hún mundi hafa í för með sjer. Hann gerði ráð fyrir, að Landsbankinn keypti nú þegar brjef fyrir 1 milj. kr. með 6% vöxtum. Þetta nær vitanlega engri átt. Að vísu er ekki annað tekið fram í frv. um þetta en að heimilt sje að selja brjef fyrirfram, en vitanlega verður þessi heimild ekki notuð þannig, heldur selja menn ekki meiri upphæð í brjefum fyrirfram en víst er um, að gangi út í lánum á næstunni. Það kom jafnvel til mála að setja einhverjar takmarkanir fyrir fyrirframsölu, en jeg fyrir mitt leyti var á móti því, þar sem jeg taldi víst, að sjóðstjórnin myndi ekki selja meira af brjefum með háum vöxtum en það, sem hún væri viss um að koma út áður en vextirnir lækkuðu. En ef menn væru hræddir um þetta, mætti setja varnagla við því í sjálft frv. En það er að minni hyggju aldeilis óþarft. Ekki get jeg heldur fallist á, að það sje rjett hjá hv. þm. (TrÞ) að gera ráð fyrir 7–8% útlánsvöxtum af lánum sjóðsins, jafnvel þótt vextir vaxtabrjefanna verði 6%, sem er líklegt. En viðvíkjandi till. hv. þm. (TrÞ) um skyldu Landsbankans til að kaupa vaxta- eða skuldabrjef af ræktunarsjóðnum, þá skal jeg bæta því við það, sem hann sagði, að það er náttúrlega innan handar að orða till. þannig, að ræktunarsjóðurinn njóti sömu vaxtakjara við kaup af Landsbankanum og búnaðarlánadeildin átti að njóta. Eins er það, að með því að setja rjett verð á vaxtabrjefin, þá má fá út hvaða vaxtafót sem menn vilja, án tillits til þess, hver var vaxtafótur brjefanna upphaflega. Jeg veit, að það er ljettara fyrir Landsbankann að taka vaxtabrjef heldur en skuldabrjef, og vil því skjóta því til hv. þm. Str. (TrÞ), hvort hann vill ekki athuga þetta nánar og taka aftur till. sína til 3. umr. En jeg verð að álíta, að ekki sje rjett að setja ákvæði uni vexti 1. flokks í lögin sjálf.

Viðvíkjandi fyrirhugaðri sameining ríkisveðbankans og ræktunarsjóðsins vil jeg benda á það, að verkefni þessa sjóðs er sannarlega nokkuð sjerstaks eðlis, og mjer finst, að hvorki í byrjun nje síðar muni veita af því, að sjerstakur maður hafi það starf með höndum að sinna þessum lánveitingum. Það er lögð áhersla á það, að gæslustjórarnir sjeu skipaðir eftir till. Búnaðarfjelags Íslands, en ef sjóðurinn verður sameinaður ríkisveðbankanum, get jeg ekki sjeð, að nein trygging sje fyrir því, að forstjóri þeirrar stofnunar verði sjerstaklega lipur við að sinna kröfum sveitabænda, nje að gæslustjórar verði valdir eftir till. Búnaðarfjelags Íslands. Jeg verð því að segja, að sú trygging, sem menn vilja gefa lántakendum fyrir því, að stjórn sjóðsins líti vel á þeirra mál, rýrnar ekki lítið, ef leggja á sjóðinn sem eina deild undir stærra fyrirtæki, sem hefir alt önnur viðfangsefni, sem nema kannske miklu meira að veltufje til en ræktunarsjóðurinn. Þess vegna tel jeg óþarfa að gera ráð fyrir þessari sameiningu; jeg þykist hins fullviss, að þeir, sem eiga að nota þessa stofnun, muni ekki vilja missa sjálfstæði hennar eftir að þeir einu sinni hafa fengið það.

Þá vil jeg að lokum minnast á skattfrelsið. Hv. þm. Str. (TrÞ) taldi litla hættu mundu af því stafa og benti á, að þeir útlendingar, sem brjefin kaupa, yrðu að borga skatt af þeim í sínu eigin landi. Þetta er að líkindum rjett; þó er jeg ekki viss um, að svo þurfi að vera, því dæmi eru til þess, að ríki hafa fengið því framgengt, að skattfrjáls brjef þeirra væru og skattfrjáls í öðrum löndum. Hv. þm. (TrÞ) benti og á, að aðallega myndu opinberir sjóðir kaupa þessi brjef, og þeir væru skattfrjálsir hvort sem væri. En þá er líka þess að gæta, að skattfrelsið er því engin hvöt fyrir þá til þess að gefa hærra verð fyrir brjefin. Því er nú ekki að leyna, að í byrjuninni má gera ráð fyrir, að kaup brjefanna gangi einkum í þessar tvær áttir, sem nefndar hafa verið, svo að engin líkindi eru til, að skattfrelsið hafi í fyrstu nokkur áhrif á gangverð brjefanna. En því minni ástæða er til þess að fara inn á þessa hálu braut. Við megum vera vissir um, að aðrir koma á eftir, og þá verður erfiðara að sporna á móti, þegar þetta fordæmi er gefið. Nú. virðist okkur viðfangsefnið vera þannig vaxið, að það leyfi okkur að gera þessa undanþágu, en við megum eiga von á að fást við önnur viðfangsefni eftir t. d. 2 ár, sem sýnast leyfa hið sama, ef nú er látið undan.

Síðast þetta. Mjer virðist ekki rjett að vísa til skýrslna búnaðarfjelaganna í lögunum. Það getur vel hugsast, að upp í þær skýrslur verði ýmislegt tekið, sem ekki er hægt að veita lán til, og það á ekki við að segja í lögum, að með reglugerðarákvæðum megi veita lán til þessa og hins, ef vitanlegt er, að heimildin verður aldrei notuð. Að binda takmörkin fyrir lánunum við svo breytileg skjöl sem skýrslur búnaðarfjelaganna er því algerlega ófært.