04.04.1925
Neðri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jakob Möller:

Jeg lýsti afstöðu minni til þessa frv. við fyrstu umr., og er óþarft að jeg geri það aftur nú. Aðeins vil jeg benda á, að þá var gengið út frá, að hjer væri aðeins að ræða um lánsstofnun til ræktunar, en nú er bert, að svo er ekki, heldur er hjer verið að koma á fót sjerstakri lánsstofnun fyrir landbúnaðinn bæði til ræktunar og húsabygginga. Hjer er verið að gera algeran aðskilnað á milli kaupstaða og sveita. Jeg vil minna á það í þessu sambandi, að er rætt var um ríkisveðbankann, þá var samkv. till. hæstv. fjrh. (JÞ) ekki meiningin sú, að ganga svo langt í aðskilnaðinum sem hjer er gert. Þessi skýring á frv. er í till. hv. nefndar undirstrikuð með því, að lagt er til að breyta ákvæðunum um, að ræktunarlán gangi fyrir byggingarlánum, eins og upphaflega stóð í frv. Jeg býst við, að með þeirri breytingu muni jafnvel svo fara, að þessi lánsstofnun muni aðallega verða til þess að styðja byggingar í sveitum, að megnið af því fje, sem hún fær til umráða, gangi til húsabóta þar. Og í sjálfu sjer er ekkert við þetta að athuga. Sveitirnar hafa vissulega þörf á byggingarlánum, og það er ekki nema eðlilegt, að þeim þörfum sje fullnægt. En hitt ber að athuga, að með þessu móti verður ástæðan til þess að skilja á milli kaupstaða og sveita í þessu máli enn minni en áður. Og jeg sje ekki heldur, að með þessu frv. sjeu þarfir sveitanna neitt betur bættar en með lögunum um ríkisveðbankann. Ef ríkisveðbankinn væri stofnaður, væri alveg eins hægt að sjá fyrir því, að lán til sveitanna gengju fyrir öðrum lánum. Tilgangurinn getur því ekki verið annar en sá, að útiloka kaupstaðina frá því að fá sínum þörfum fullnægt. Því með því að stofna þessa stofnun er vitanlega komið í veg fyrir, að nokkur veðlánsstofnun komist upp fyrir kaupstaðina í náinni. framtíð. Mjer virðist óþarft að tala um, hvort sameina megi þessa stofnun ríkisveðbankanum eða ekki, því að afleiðingin hygg jeg, að verði sú af þessum lögum, að ríkisveðbankinn komist ekki á fót í bráð. En komist hann á stofn, er enginn vafi á, að hann sem sjerstök stofnun yrði skæður keppinautur þessarar stofnunar í verðbrjefasölunni, og væri þá ver af stað farið en heima setið.

Hv. frsm. (ÁJ) talaði um kalann, sem andaði frá kaupstöðunum til sveitanna. Jeg held nú, að vindurinn standi úr öfugri átt. Mjer finst meðferð þessa máls, og sjerstaklega ummæli hv. frsm. (ÁJ) um lán til jarðræktar hjer í Reykjavík, heldur bera vott um miður hlýjan hug sveitanna til kaupstaðanna. En jeg get tekið undir með hæstv. fjrh. um það, að jeg veit ekki til, að kaupstaðirnir beri neinn kala til sveitanna. Jeg veit nú raunar, að það hefir ekki mikið að þýða að andmæla frv. eða stefnu þess. Forlög þess munu þegar ráðin. Jeg skal þó geta þess að jeg tel illa farið, að ekki hefir verið tekið til athugunar í sambandi við þetta, hvort ekki væri rjett að láta ríkisveðbankann hafa á hendi seðlaútgáfu fyrir landið. Jeg gæti trúað, að svo færi, að sú skipun, sem stjórnin hefir lagt til, að komið yrði á, strandaði einmitt á því, að menn vildu hafa seðlaútgáfuna sjerstaka stofnun, eða lausa við almennu viðskiftabankana. Jeg tel sennilegt, að færasta leiðin til samkomulags væri sú, að fela ríkisveðbankanum seðlaútgáfuna. Ef það væri gert, yrði ríkisveðbankinn vonandi svo voldug stofnun, að þessi lánsstofnun hefði heldur en hitt hagnað af sambandinu.

Um einstök atriði skal jeg ekki segja margt, enda hefi jeg ekki athugað frv. svo rækilega sem skyldi. Jeg vil þó taka það fram um vaxtabrjefasöluna, að jeg tel varhugavert að veita ótakmarkaða heimild til útgáfu og sölu vaxtabrjefa fyrirfram. Jeg hygg, að freistingin til að selja verðbrjef gæti orðið svo rík, að varúðin yrði að lúta í lægra haldi, og því rjettara að hafa einhverja takmörkun á því, hvað út mætti gefa.

Þá er annað atriði, sem jeg vildi víkja að. Það er lánstíminn, sem ákveðinn er fyrir lán til bygginga. Í aths. við frv. er gerð grein fyrir þessu ákvæði, og ekki talið fært, af því vextir sjeu nú háir, að binda eftirkomendunum bagga með því að hafa lánstímann lengri en 20 ár. En það er misskilningur, að mönnum sje bundinn baggi með lengri lánstíma, því samkv. öðrum ákvæðum frumvarpsins er heimilt að taka lán, ef þess er kostur, með betri vaxtakjörum og borga upp dýrara lánið. Jeg hygg, að með því að hafa lánstímann svona stuttan sje lántakanda bundinn alt of þungur baggi, þegar um er að ræða lán til óarðberandi framkvæmda eins og húsbygginga. Árleg afborgun yrði svo mikil, að mörgum kotbóndanum mundi veitast örðugt að standast þau gjöld, og gæti þá svo farið, að lánið reyndist sannkölluð hefndargjöf.

Annað hefi jeg ekki að athuga við einstök atriði að þessu sinni. Vildi aðeins vekja athygli á þessu.