04.04.1925
Neðri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg skal vera stuttorður. Óska, að atkvgr. geti farið fram sem fyrst.

Jeg ætla fyrst að svara háttv. þm. Str. (TrÞ) nokkrum orðum, sem jeg gleymdi síðast. Hann talaði um að sameina ræktunarsjóðinn við fyrirhugaðan ríkisveðbanka og mælti með því, að sú sameining kæmist á. Jeg vil benda honum á, að í greinargerð þess frv., sem hann sjálfur flytur um ræktunarsjóð hinn nýja, standa þessi orð:

„. . . . Að öllu þessu athuguðu ræður nefndin eindregið til, að komið verði upp sjerstakri lánsstofnun, er hafi það hlutverk einungis að stuðla að því að rækta og byggja landið.“ —

Hjer kemur skoðun Búnaðarfjelagsins skýrt fram, og þarf ekki að fara um það fleiri orðum.

Þá vík jeg að hæstv. fjrh. (JÞ) út af skyldu Landsbankans til að kaupa verðbrjef sjóðsins. Hann vildi fá að vita, hvenær bankinn ætti að kaupa. Nefndin ætlast til, að því sje lokið fyrir árslok 1926, ef ræktunarsjóðurinn krefst þess, eins og ákveðið var um búnaðarlánadeildina.

Um brtt. er það að segja, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafði fyrir nefndarinnar hönd talað við stjórn Landsbankans um þessi vaxtabrjefakaup, en svar bankastjórnarinnar var ekki komið, þegar við gerðum nál. En við nefndarmenn getum sætt okkur við, að stjórnin semji. Hvað því viðvíkur, að Alþingi megi ekki hlutast þannig til um starfsemi bankans, nægir að vísa til álits síðasta Alþingis í sambandi við stofnun búnaðarlánadeildarinnar. Þá var bankanum skipað fyrir um ráðstöfun ákveðinnar upphæðar, þó að við vildum ekki hafa orðalagið ákveðnara en alt að þessari upphæð. Þess vegna get jeg ekki gengið frá því, að Alþingi hefir lýst yfir með yfirgnæfandi meiri hluta, að það hefði vald til að gera ákvarðanir um fjármál bankans í stórum dráttum. Auðvitað er, að það muni ekki skifta sjer af smærri viðskiftum.

Þá er það viðvíkjandi þessari 1 miljón til aukningar sjóðnum, sem hæstv. fjrh. hjelt fram, að ekki væri þörf á. Um það er erfitt að segja. Það má hugsa sjer, að sjóðurinn krefðist þess ekki næstu ár, en svo kynni að verða skift um stjórn, og þá kæmi til valda stjórn, sem ekki vildi viðurkenna þá varfærni, er núverandi stjórn hefir sýnt. Gæti þá vel farið svo, að tekið yrði lán og ríkinu bundinn skuldabaggi, ef ekki verður gengið frá þessu nú.

Þá var það hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem mælti mjög hóflega á móti frv. Hann hjelt því fram, að frv. hefði orðið fyrir allmiklum breytingum hjá landbn., að þar sem áður hefði eingöngu verið gert ráð fyrir lánum til ræktunar, væri nú ennfremur ákveðið að lána til húsabygginga. Þetta sýnir, að hv. þm. (JakM) hefir ekki lesið frv. við 1. umr., því að í 8. gr. stendur berum orðum:

„Lán til húsagerðar má veita til íbúðarhúsa, peningshúsa og geymsluhúsa úr varanlegu efni, er samsvara jörðinni sem bændabýli að stærð og verði, en venjulega skal þess krafist, að jarðabætur sjeu áður gerðar á býlinu, eftir því sem stjórn ræktunarsjóðs telur hæfilegt.“

Hv. þm. sagði, að breytt væri um tilgang, þar sem nú væri einnig gert ráð fyrir lánum til húsabóta. Það er rjett, að gert er ráð fyrir húsbyggingalánum, en það var áður gert, eins og jeg hefi sýnt. Slík lán eru engu síður nauðsynleg, því að mikill tími og fje fer til þess að dytta að ljelegum kofum. Hv. þm. talaði um, að verið væri að skilja á milli kaupstaða og sveita og að tilgangur nefndarinnar gæti ekki verið annar en sá, að útiloka kaupstaðina frá þessum lánum. En þetta er ekki rjett. Það er alls ekki verið að útiloka kaupstaðina frá ræktun. Það er verið að efla hana. Hann hjelt því fram, að enginn kali væri milli sveita og kaupstaða. En af hverju er þetta frv. fram komið? Það er af því, að ekki hefir verið nægur skilningur, ekki nóg samúð nje vilji til þess að verða sveitunum að liði.

Hvað viðvíkur ríkisveðbankanum, sem talað hefir verið um í þessu sambandi, þá hefir hæstv. fjrh. (JÞ) svarað því. Jeg held jeg fari rjett með það, að hann hafi haft eftir sjerfræðingi, að ríkissjóður legði fram fje til viðreisnar landbúnaðinum af því að hann hefði orðið fyrir órjetti. Jeg er ekki í neinum vafa um, að eins mundi fara með ríkisveðbanka. Kaupstaðirnir myndu njóta hans, en ekki sveitirnar. Jeg get bent á, að aðallánsstofnunin á Austurlandi hefir sett fasta miklu hærri upphæð til kaupstaða, og þó eru þar miklu ótryggari viðskifti en í sveitunum. Að lánstíminn sje of stuttur fyrir sveitirnar viðurkenni jeg að er rjett, og mun því verða breytt við 3. umr. Hefir háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) orðið hjer landbúnaðinum óviljandi til gagns.