31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, fjárlög 1926

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg ætla fyrirhönd sjútvn. að minnast fáum orðum á brtt. á þskj. 204, þá 19. í röðinni, frá hv. minni hl. fjvn. (BJ). Hún er um launabót til yfirfiskimatsmanna.

Jeg geri ráð fyrir, að sumum muni finnast þetta mikil hækkun, en þess ber þá að gæta, að störf þessara manna hafa stórum aukist síðan 1922, en þá var starf þeirra tvöfaldað eða jafnvel þrefaldað. Og með lögunum 1923 var enn bætt á störf þeirra, er þeim var gert að skyldu að safna skýrslum hagstofunni til handa Þetta er líka ábyrgðarmikið starf, er þeir gegna, og heimtar allmikla sjerþekkingu, sjálfstæði og siðferðisþrek að standa við úrskurði sína, þótt þeir komi í bága við hag útflytjenda. Enda eru dómar yfirfiskimatsmannanna sá grundvöllur, er fiskverkun okkar byggist á.

Allir viðurkenna, að þessir menn hafi staðið ágætlega í stöðu sinni, og engar kvartanir hafa komið erlendis frá um þann fisk, er þeir hafa metið. Það er ekki auðvelt að reikna, hve landið hefir grætt á fiskmatinu, en talið er, að það nemi 15% á verðinu, sem meira fæst fyrir metinn fisk en ómetinn.

Svo er fyrirskipað í lögum og reglum um starf þetta, að yfirfiskimatsmennirnir megi engin aukastörf hafa og engin aukalaun þiggja. En hitt er líka alkunnugt, að þeim standa opin störf hjá fiskkaupmönnum og mjög eftir þeim sótt vegna dugnaðar þeirra og sjerþekkingar á þessu sviði, og eins er líka trúlegt, að þeir sæti þeim boðum og fari úr þjónustu ríkisins, ef þeir fá ekki þessa launauppbót. Þeir hafa líka gert sjer vonir um, að ríkið viðurkendi hin auknu störf, sem á þá hafa hlaðist síðustu árin, með því að hækka launin, enda virðist það fullkomlega á rökum bygt.

Þá vil jeg að lokum minna á brtt. sjútvn. um að athugasemdin falli niður. Nefndin telur það ekki rjettan grundvöll að skifta uppbótinni eftir því, sem í aths. segir. Hitt finst henni rjettara, að miðað sje við árafjölda þann, er hver maður hefir gegnt starfinu. En þyki það of flókið og verði þetta samþykt, þá mun sjútvn. rita stjórninni þar um og leita samþykkis hv. fjvn. um að breyta þessu á þann hátt, er hún telur rjettara.