24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Magnús Jónsson:

Þó jeg hafi fylgt þessu frv. og muni fylgja, get jeg varla tekið þátt í þeim háfleygu vonum, sem margir gera sjer um ávöxt þess og stofnun þessa sjóðs. Það væri áreiðanlega hollara að setja þær skör lægra. Nú hafa menn talað svo, sem sæju þeir miklar og fagrar sýnir, blómlegar bygðir og höfuðból rísa úr rústum. Slíkar vonir hafa áður verið bundnar við lánsstofnanir og ekki ræst að fullu. Svona sýnir hafa menn eflaust sjeð í anda, þegar útibú Landsbankans var reist á Selfossi til eflingar búnaði þar um sveitir. En menn vara sig ekki á því, að þeir þyrftu helst að sjá skuldirnar í anda, hve erfitt er fyrir bændur að aka fram þungri byrði þeirra. Það er gamla spakmælið, sem gott er að hafa í huga: Búðu þig undir það vonda, því það góða skaðar þig ekki.

Reynslan hefir orðin sú hjer og í öðrum löndum, að það er skamt milli krafnanna um aukið lánsfje og ópanna um, að alt væri sokkið í skuldir. Og þó þetta frv. geri mikið til þess að koma í veg fyrir, að svo fari, þá er þó þetta steinn, sem hægt er að steyta sig á.

En þess verður að gæta, að þessi lán verða dýr. Þegar verðbrjef 1. flokks eiga að gefa 6% arð, þá er það sýnt, að lánin verða dýr. Það er svo langt frá því, að bændur fái hagkvæm lán, að ef vit væri viðhaft, þá væri þess að vænta, að þau gengju lítið út. En jeg er hræddur við, að svo verði ekki. Reynslan er sú um okkur Íslendinga, að við tökum lán hvar og hvernig sem hægt er að fá þau og með hvaða kjörum sem er. Um lánveitingar úr sjóðnum verður því að gæta ýtrustu varúðar og fyrirhyggju, og takmarkanir þær, sem frv. setur um það, til hvers megi lána, eru það heilbrigðasta í frv. Hitt tel jeg öllu meiri óþarfa, hve afarrík áhersla hefir verið lögð á að raka nú þegar í byrjun stórfje að sjóðnum, án þess að vita, hve útgengilegt það fje verðu. Betra að leggja áhersluna á að byggja traust heldur en afarhátt í byrjun.

Aðalatriðið er að gera sjóðinn sem tryggastan; að því hníga brtt. þær 3, sem jeg flyt.

Hin 1. og 2. ganga í þá átt, að aðallega skuli farið eftir fasteignamati, er lánað er út á eign. Þetta er svo sjálfsagt, að það á að binda með lögum. Um virðingar til lántöku er alkunna, hve háar og vitlausar þær eru, t. d. alt að fimmfalt við fasteignamat. Þetta á ekki að þurfa að orka nokkurs tvímælis, og síst það, að einmitt þessi stofnun sje bundin við fasteignamat.

2. brtt. mín, við 11. gr„ er afleiðing hinna. Mjer þótti rjett að halda ummælum 11. gr.

Þá er ein brtt., sem gengur í líka átt og brtt. hæstv. fjrh. (JÞ), en er talsvert ítarlegri. Það er svo, að í frv. er tvennu blandað saman, því, að stjórninni sje heimilt að semja um sölu vaxtabrjefa fyrirfram og selja þan fyrirfram. Það er alveg hættulaust að semja fyrirfram. Sá, sem samið er við, fær brjefin jafnóðum og lánin ganga út. En að selja er að taka lán fyrirfram. Þetta er athugavert. Þegar brjefin gefa háa vexti, keppast menn við að kaupa, og það getur farið svo, að sjóðurinn geti ekki komið því fje út og verði að sitja með það fyrir lægri vexti. Jeg teldi rjett að orða þetta svo, að semja mætti ávalt, ef aðeins verðið væri viðunandi; en um sölu skyldi ákveða, hve hátt mætti fara. Jeg setti hikandi þú milj.

Þá er það 3. brtt. mín. Hv. frsm. (ÁJ) mintist ekki á hana. Hún er um það, að síðari málsgrein 14. gr. falli niður. Jeg skal játa, að þessar takmarkanir í 8., 9. og 13. gr. eiga ekki allar sammerkt; sjerstaklega 9. gr., sem mætti síst missast. Hinar takmarkanirnar álít jeg ekki eins knýjandi og vel mega missast. En jeg tel þó heppilegra að miða einnig takmörk 8. gr. við nafnverð, en ekki söluverð, ef það er undir nafnverði. Því að það, sem lánað er til jarðabóta, verður líka að miðast við það, sem sá, er lánið fær, er fær um að bera og borga aftur fullu verði, hvaða gengi sem er á brjefunum. Jeg held því, að þessi ákvæði sjeu að sumu leyti vanhugsuð, og því tryggara að hafa ekki málsgreinina, sjerstaklega þó að því er snertir takmörkin í 9. gr.

Jeg vildi gjarnan minnast á aðrar brtt., sem fram eru komnar, en vegna þess að hinn venjulegi fundartími er liðinn, ætla jeg að sleppa því og aðeins fela þessar brtt. mínar til athugunar hv. þdm. Vona jeg, að þeir geti fúslega fallist á þær, því að þær miða allar einungis að því að gera sjóðinn tryggari.