31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Sigurðsson:

Jeg hefi ekki þreytt menn með löngum ræðum um fjárlagafrv. að þessu sinni, enda er jeg einn þeirra fáu gæfusömu þdm., er eiga enga brtt. við frv. Þess vegna tók jeg ekki til máls við umr. um fyrri kaflann, og ætlaði ekki heldur að kveðja mjer hljóðs nú, en afstaða mín í fjvn. knýr mig til að segja nokkur orð um fáeina liði frv.

Hv. þdm. hafa sjálfsagt tekið eftir því, að hv. frsm. síðari hl. frv. (TrÞ) gat þess í framsögu sinni, að nefndin hafi ekki verið sammála um nokkur atriði. Og það er einmitt um þau atriði, sem jeg vildi skýra ofurlítið afstöðu mína, og þá um leið þeirra hv. nefndarmanna, sem mjer eru sammála um þessi atriði.

Þá er fyrst að drepa lítið eitt á styrk til húsagerðar á prestssetrinu Skútustöðum, sem hv. meiri hl. fjvn. vill veita. sbr. 30. brtt. á þskj. 195.

Sóknarbörn Skútustaðaprestakalls hafa boðist til að leggja fram 5000 kr. til byggingar prestssetursins á Skútustöðum, gegn jafnháu framlagi úr ríkissjóði.

Þetta er óneitanlega höfðinglega boðið, og vafasamur hagnaður að neita slíku boði. En annað tilboð sama eðlis lá einnig fyrir nefndinni, þar sem Kjalnesingar hafa boðist til að leggja fram helming kostnaðar við vegagerð um Kjalarnes.

Nefndin tók það mál fyrst til íhugunar og sá ekki fært að verða við þeim tilmælum Kjalnesinganna.

Aftur á móti hefir ekki orðið samkomulag um prestssetrið á Skútustöðum.

En þó að jeg sje ókunnugur öllum staðháttum á báðum stöðunum, þá verð jeg samt að líta svo á, að jafnmikil sanngimi mæli með hvorritveggja fjárbeiðninni. Jeg get ekki gert upp á milli þeirra, og jeg tel enga ástæðu til að hrinda hendi annars en rjetta hinum hendina. þegar báðir eru sömu meðferðar maklegir.

Hv. deild hefir nú felt dóm sinn um Kjalarnesveginn. Jeg held, að rjettast sje að láta eitt yfir báðar fjárbeiðnirnar ganga.

Þá er annað atriði, sem jeg þarf að minnast á, en það er 35. brtt. á sama þskj., um fjárveitingu til að gera sundlaug við alþýðuskóla Þingeyinga. 5000 kr.

Á þinginu 1923 var veittur mjög ríflegur styrkur. 35 þús. kr., til byggingar þess alþýðuskóla. Var þá áætlað, að þetta yrðu 2/5 kostnaðar. Nú hefir bygging skólahússins reynst allmiklu dýrari en áætlað var, og hefir þess vegna verið farið fram á viðbótarstyrk til sjálfrar byggingarinnar.

Fleiri beiðnir um slíka viðbótarstyrki hafa borist þinginu, þar á meðal frá 3 eða 4 sjúkraskýlum. Fjvn. hefir tekið þá ákvörðun, að sinna engum slíkum beiðnum yfirleitt, og heldur ekki þessari.

En í sama mund hefir skólinn sent beiðni um styrk til að byggja yfirbygða sundlaug, en sá styrkur yrði í eðli sínu ekkert annað en viðbótarstyrkur til skólabyggingarinnar sjálfrar. Hjer er aðeins breytt um form, til þess að fremur verði hægt að smeygja sjer undan að verða við samskonar kröfum, sem þegar eru komnar og hljóta að koma frá öðrum byggingum, sem ríkið hefir styrkt, ef þessi upphæð væri tekin upp sem hreinn viðbótarstyrkur.

Þess vegna hefir hv. meiri hl. orðað till. á þennan hátt. Hjer við er enn að athuga, að áætlað er, að sundlaugin muni kosta 5000 kr., eða þá upphæð, sem hv. meiri hl. leggur til, að veitt verði; m. ö. o. er hjer til þess ætlast, að ríkið leggi fram allan kostnað við byggingu sundlaugarinnar.

Þar sem skoða verður slíka sundlaug alveg hliðstæða leikfimishúsi, þá verður varla hjá því komist að verða við kröfum, sem alþýðuskólar kunna að gera um að fá reist leikfimishús, sem kosta ef til vill 10–20 þús. kr., að öllu leyti á kostnað ríkissjóðs.

Sama sanngirni mælir með öllum slíkum væntanlegum kröfum sem þessari, og vitanlega verður sama regla að gilda um svipaðar kröfur, og ef hjer verður skapað fordæmi, þá verður að fylgja því framvegis.

Jeg held því, að hv. meiri hl. vilji hjer leggja út á aðra braut en upphaflega var til ætlast, og sú braut er að mínu viti allviðsjárverð.

Þá er enn einn liður, sem nefndin hefir ekki orðið sammála um, en það er að taka upp styrk handa Þórbergi Þórðarsyni til orðasöfnunar. Jeg ætlaði ekki að gera þennan lið að umtalsefni nú. en þar sem skilja mátti hv. frsm. (TrÞ) svo, að minni hl. nefndarinnar væri andvígur þessari styrkveitingu vegna síðustu ritsmíðar Þórbergs, þá vil jeg ekki láta því ómótmælt. Þó skal jeg játa, að vegur hans hefir ekki vaxið í mínum augum við að lesa níð hans um íslenska bændur og menningu þeirra. En hins vegar hefir þetta engan veginn ráðið atkv. minni hl. í nefndinni.

Í mínum augum er þessi orðasöfnun ein hinna tilbúnu ástæðna fyrir styrkveitingum, sem hægt er að sjá til og frá í fjárlögunum.

Yfirvarpsástæðum er tildrað upp, til þess að vissir menn geti hangið á ríkissjóði árum og áratugum saman.

Slíkt má ef til vill afsaka, þegar gamlir og merkir menn eiga í hlut, sem að öðru leyti eiga erfiða aðstöðu í lífinu. Það er afsakanlegra að rjetta slíkum mönnum hjálparhönd. En hjer er ekki um það að ræða. Hjer á í hlut maður, sem enn er á ljettasta skeiði æfinnar og ætla má, að allir vegir sjeu færir.

Annars hefi jeg heldur enga trú á því, að þessi orðasöfnun, sem tildrað er upp sem ástæðu fyrir styrkveitingunni, komi að nokkru verulegu liði, þegar farið verður að semja íslensku orðabókina fyrir alvöru.

Enn er að minnast á hina verulegu hækkun hv. meiri hl. til veðurathugunarstofnnnar. Á síðasta þingi var þessi liður lækkaður niður í 25 þús. kr., en nú hefir hv. meiri hl. lagt til að hækka hann aftur upp í 40 þús. kr. Þetta er óneitanlega allstórt stökk, og til þess að hægt sje að forsvara slíkar hækkanir, verða ríkar ástæður að vera fyrir hendi. Því er nú borið við, að þar sem veðurathugunarstofan hafi komist í samband við Grænland, þá sje full ástæða til að hækka tillagið til hennar svo mjög.

Sambandið við Grænland mun fengið nú þegar, og eftir því sem mjer hefir skilist á forstjóra veðurathugunarstofnunar, hefir alt gengið nokkurn veginn með því tillagi, sem hún fær nú.

En á bak við þessa hækkunartill. mun einkum liggja að auka allverulega mannahald stofnunarinnar.

Meiningin mun vera sú, að bæta við einni stúlku til allskonar skrifta, og svo jafnvel að fá hingað lærðan veðurfræðing frá Noregi. Er það Íslendingur, Jón Eyþórsson að nafni, og hefir hann notið styrks hjá Alþingi til náms síns. Hann mun nú hafa 12000 kr. árslaun í Noregi, og ef hugsað er til að fá hann hingað, þá býst jeg við, að þessi hækkun hv. meiri hl. hrökkvi ekki til, jafnvel þó að hann fengi lægra kaup en hann hefir nú hjá Norðmönnum.

Því er ennfremur borið við, að núverandi aðstoðarmaður muni vera á förum, og þess vegna þurfi að tryggja mann í hans stað.

Það er víðar svo, að ekki er að vita nema menn hverfi þá og þegar frá starfi sínu, og er engin ástæða til að hafa tvöfaldan vinnukraft hjer fremur en annarsstaðar þess vegna.

Jeg býst við, að rjettmætt muni vera að hækka þennan lið eitthvað frá því, sem í stjfrv. segir, en svo mikla hækkun verð jeg að telja ástæðulausa, og því fremur varhugaverða, þar sem ganga má að því vísu, að hún muni haldast framvegis.

Enn er eitt og annað smávægilegt, sem nefndarmönnum ber á milli, en út í það skal jeg ekki fara nú, heldur mun jeg við atkvgr. sýna afstöðu mína til þeirra atriða.

Úr því að jeg er staðinn upp á annað borð, get jeg ekki stilt mig um að minnast lítið eitt á tvær brtt. hv. þm. Dala. (BJ). Fyrri till. er 11. brtt. á þskj. 204, um 3000 kr. fjárveitingu til þess að halda áfram útgáfunni af „Lögum Íslands“. Jeg hefði kosið, að þessi liður yrði ekki ákveðinn hærri en 1500 kr., vegna þess að jeg hefi átt tal við þann mann, sem hjer á hlut að máli, og hefir hann tjáð mjer, að hann myndi hafa einhverja útvegi með að fá fje til útgáfu þess bindis, sem út á að koma í ár, og sjer muni nægja 1500 kr., sem greiðist á næsta ári og varið verði til útgáfu þess bindis, sem þá kemur út. Og eins og hv. samnefndarmönnum mínum er kunnugt, studdi jeg að því í nefndinni, að 1500 kr. fjárveiting yrði upp tekin í þessu skyni, því að jeg er sannfærður um, að útgáfa lagasafnsins sje fullkomið nauðsynjaverk.

Þegar mál þetta var til umr. í fjvn. fyrir 2 eða 3 árum, var jeg því frekar mótfallinn að veita fje til þessarar útgáfu, vegna þess aðallega, að jeg óskaði fremur, að haldið yrði áfram útgáfu gamla lagasafnsins, þar sem henni var lengra á veg komið. En úr því sem komið er, eftir að eitt bindi hefir enn komið út af þessu safni, þá er mjer áhugamál, að útgáfunni verði haldið áfram.

Löggjöf okkar hefir tekið svo mörgum og mikilvægum breytingum á síðari árum, að alþýðu manna veitist erfitt að átta sig á því, hvað hjer eru gildandi lög og hvað ekki. Þess vegna ber fulla nauðsyn til að hreinsa dálítið til í þessu efni og gefa út í einu lagi þau lagaákvæði, sem nú eru í gildi. Mjer er persónulega kunnugt, að víðsvegar um landið bíða menn þess með óþreyju að fá slíka hentuga handbók í lögum.

En þar sem jeg er vonlítill um, að þessi brtt. nái samþykki háttvirtrar deildar, þá vildi jeg beina því til hv. þm. Dala. (BJ), hvort hann vilji ekki taka hana aftur í þetta sinn, en við verðum síðan samferða með aðra brtt. lægri til 3. umr.

Hin önnur brtt. hv. þm. (BJ), sem jeg vildi gera að umtalsefni, er 18. brtt. á sama þskj., um að hækka styrk til búnaðarfjelaga úr 10 þús. upp í 25 þús. kr.

Jeg þykist vita, að ýmsir álíti, að síst sæti á mjer að hafa á móti slíkri till. En jeg verð að segja, að hóf er best í hverjum hlut. Mjer dettur ekki í hug að neita því, að búnaðarfjelögin úti um sveitir landsins hafa unnið og eiga fyrir hendi að vinna mikil og góð störf.

En landbúnaðurinn er þegar styrktur allríflega af ríkisfje og á eftir að bera fram enn meiri kröfur um styrk, og mjer er þannig skapi farið, að jeg óska þess ekki að vera kröfuharðari fyrir hönd landbúnaðarins en jeg tel fullkomlega sanngjarnt.

Þó fulltrúar bænda kunni að hafa afl atkvæða til að fá allar kröfur landbúnaðarins samþyktar, þá óska jeg ekki, að þess afls sje neitt frekar en full sanngirni leyfir, og jeg tel okkur skaðlítið, þó að þessi styrkur verði ekki hækkaður, ef aðrar óskir okkar ná samþykki þingsins, sem jeg hefi góða von um.