25.04.1925
Neðri deild: 64. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Sveinn Ólafsson:

Það er þunnskipað hjer á bekkjunum og þýðir líklega lítið að tala; þess vegna skal jeg binda mig eingöngu við mína till. og ekki fara út fyrir hana, enda þótt ástœða gæti verið til þess.

Tveir hv. þdm. hafa lagst á móti till. á þskj. 375, þeir hæstv. atvrh. (MG) og hv. frsm. landbn. (ÁJ). Hæstv. ráðherra ljet svo um mælt, að tillagan væri stórskaðleg. Hann benti hinsvegar ekki á, hver sá skaði mundi verða, sem af henni gæti leitt, ef hún yrði samþykt. Þetta þótti mjer á vanta, því ef svo mikið er í húfi, að ástæða sje til að viðhafa þetta stóryrði, þá átti það vissulega við að benda á, á hvern hátt skaði gæti orðið. Jeg legg þess vegna lítið upp úr dómi hans.

Jeg verð að segja, að tillöguna hefi jeg borið fram með það fyrir augum, að ekki yrði að óþörfu eytt fje til stjórnar þessa fyrirtækis í bili, meðan verkahringur sjóðsins er ekki víður; og einnig með það fyrir augum, að ef að því ræki bráðlega, að veðbanki Íslands yrði stofnaður, þá yrði gripið tækifærið í sambandi við stofnun hans til þess að athuga, hvort ekki mætti sama stjórn gilda fyrir hvoratveggja stofnunina, eins og reyndar er ætlast til í veðbankalögunum 1921. Hinsvegar er eftir tillögunni opin leið að því að taka ákvörðun um þetta þegar vill, að skipa sjerstaka stjórn, jafnvel á næsta þingi. En fram til þess tíma virðist mjer ekki sýnt, að þörf verði á að skipa þessa sjerstöku stjórn.

Annars var það einkanlega hv. frsm., sem lagðist á móti till. og dró fram líkur fyrir því, að frv. mundi betur borgið eins og það nú er orðað heldur en með till. Hann bar fram spurningar nokkrar fyrir mig, og spurði meðal annars, hvort jeg byggist við, að veðbankinn tæki til starfa svo fljótlega, að þessi ráðstöfun um sjerstaka stjórn yrði óþörf. Þeirri spurningu get jeg ekki svarað ákveðið, en mjer finnast þó talsverðar líkur fyrir því, að veðbankinn taki fljótlega til starfa, þegar svo er komið, að búið er að byggja upp þessa ræktunarlánadeild, sem eftir hugmynd þeirra, sem upphaflega báru fram veðbankafrv., átti að vera aðalþátturinn í þeirri stofnun. Háttv. frsm. fanst það ekki rjett að orði kveðið hjá mjer áðan, að ríkisveðbankinn væri þegar að nokkru leyti stofnaður með þeim lögum, sem hjer er stefnt að. Jú, hann er að nokkru leyti kominn, ef frv. verður samþykt. Eins og jeg sagði áðan, þá er þetta meginþáttur hans. Það vantar aðeins herslumuninn til þess, að hann geti fullgerður tekið til starfa.

Háttv. frsm. kvað mikla nauðsyn á því, að þessi stofnun, ræktunarsjóðurinn, væri út af fyrir sig og óháð veðbankanum. Um það má deila, og hefir líka mikið verið deilt. En það hefir verið af skynbærum mönnum í þessu efni litið svo á, að í okkar litla þjóðfjelagi myndi það ekki eiga við að setja upp tvær samkeppandi stofnanir í þessu skyni, aðra fyrir ræktunarlán í sveitum, til að efla landbúnaðinn, og hina sjerstaklega fyrir húsabyggingar í kauptúnum. Því hefir verið haldið fram af forustumönnum í þessu efni, að það myndi verða óþægileg og jafnvel skaðvænleg samkepni milli þessara stofnana, ef aðgreindar væru. Hinsvegar er svo um búið með þessu frv., að ef veðbankinn tekur bráðlega til starfa, og ef hinsvegar þessi ræktunarsjóður sameinast honum, — sem bersýnilega er hugmyndin, — þá verður ræktunarsjóðurinn út af fyrir sig, sjerstök starfandi deild í bankanum og að miklu leyti óháð hinni deildinni, þó undir sömu stjórn kunni að verða.

Hv. frsm. (ÁJ) spurði, hvort samið hefði verið við stjórn Landsbankans um að taka að sjer þetta stjórnarstarf fyrir ræktunarsjóð. Þessu get jeg svarað með því að minna á það, að í fyrra, þegar lögin um búnaðarlánadeildina voru samþykt, þá var ekki samið sjerstaklega við stjórn Landsbankans um að taka að sjer framkvæmdir í því efni, en hún tók við því starfi engu að síður. Þetta yrði því framhald af því starfi, sem bankastjórnin hefir haft fyrir veðdeildirnar. Ef stjórnin fyrir annríkis sakir getur ekki leyst þetta verk af hendi, þá er opin leið til að ráðstafa þessu á annan hátt eftir 34. gr. frv. og eins og brtt. gerir ráð fyrir. En jeg hygg, að ekki komi til þess, að minsta kosti ekki á þessu ári, fram til næsta þings. Og jeg held, að það sje rjett, sem jeg hefi áður tekið fram í þessu sambandi, að með þeim vaxtakjörum, sem hjer er búið við, svo erfiðleg sem þau eru nú, þá þurfi ekki að gera ráð fyrir, að ræktunarsjóðslán verði mjög tíð eða stórfeld. Einnig vegna þess, að áhætta af lánunum, meðan krónan er að stíga, er talsvert meiri en svo, að hyggilegt sje að leggja í stór jarðabótalán úr ræktunarsjóði.

Fleira skal ekki um þetta sagt í bili. enda eru svo fáir hjer nærstaddir, að það er tilgangslaust að fjölyrða frekar.