25.04.1925
Neðri deild: 64. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) kvartaði yfir því, að jeg hefði ekki rökstutt þau ummæli mín, að till. hans um, að Landsbankastjórnin hefði fyrst um sinn forstöðu ræktunarsjóðsins á hendi, væri skaðleg. Jeg þóttist hafa rökstutt þessa skoðun mína með því að sýna fram á, að svo mikið starf, sem ræktunarsjóði er ætlað, geti ekki aðrir leyst vel af hendi en þeir, sem vilja gera það að lífsstarfi sínu. Þess vegna er nauðsynlegt að skipa sjóðnum sjerstakan forstjóra þegar frá byrjun.

Menn vilja altaf blanda ríkisveðbankanum í þetta mál, en það er of snemt.

Um margra ára skeið hefir mönnum verið það aðaláhugamál að fá sjerstaka lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, og meðan því verður ekki komið í framkvæmd, er hætt við, að hann verði lengst af útundan. Þess vegna vil jeg ekki blanda þessari lánsstofnun landbúnaðarins saman við ríkisveðbankann að svo komnu máli, a. m. k. ekki fyr en einhverjar ráðstafanir verða gerðar til þess að hann taki til starfa, og sennilegt get jeg aldrei fylgt því.

Hv. þm. (SvÓ) hefir ekki trú á því, að þetta fyrirkomulag ræktunarsjóðsins standi lengi, heldur býst hann við, að því verði breytt á næsta eða næstu þingum.

Þó að þetta væri rjett tilgáta, þá er samt undir öllum kringumstæðum betra, að sjerstakur forstjóri verði skipaður sjóðnum þegar frá byrjun, og hefi jeg áður tekið fram ástæðurnar fyrir því.

Jeg veit ekki, hvort ástæða er til að deila við hv. þm. Str. (TrÞ) um 1. flokks vaxtabrjef ræktunarsjóðsins. Við viljum sennilega báðir greiða fyrir flokknum eftir bestu föngum. Hann vill greiða fyrir sölu vaxtabrjefanna með því að gera þau skattfrjáls, en jeg á þann hátt, að vextirnir verði færðir niður. (TrÞ: Jeg vil þetta hvorttveggja). Það verður þá á kostnað síðari flokkanna, og þar skilur á milli okkar. Öllum má það ljóst vera, að vaxtabrjef síðari flokkanna hljóta að verða sett skör neðar en 1. flokks, ef hvorttveggja verður, að kostnaðurinn, sem á þau legst, verður 1/2% meiri, og svo hitt, að kaupendur þeirra fá ekki að njóta sama skattfrelsis sem eigendur 1. flokks brjefanna.

En við þurfum að hugsa eitthvað um framtíðina, og jeg held að betra sje að hafa. vextina á 1. flokks brjefunum heldur hærri, en búast fremur við afföllum. Reynsla veðdeildarbrjefanna hefir sýnt, að þessi aðferð er heppilegri.

Út af ummælum hv. þm. (TrÞ) um skipun gæslustjóranna skal jeg geta þess, sem jeg hefi reyndar áður sagt, að jeg skildi samkomulagið við búnaðarþingið svo, að stjórnin skyldi leita álits og tillagna þess eða Búnaðarfjelags Íslands um skipun gæslustjóranna, en hann álítur, að stjórnin hafi skuldbundið sig til að veita embættin samkvæmt till. búnaðarþingsins skilyrðislaust.

Jeg verð að halda fast við minn skilning, en skal jafnframt lýsa yfir því, að aldrei hefir mín meining verið sú, að ekki verði tekið fult tillit til tillagna búnaðarþingsins eða Búnaðarfjelagsins. Hinsvegar getur það komið fyrir, að búnaðarþinginu hætti við að líta of einhliða á hagsmuni landbúnaðarins, en gæslustjórarnir þurfa ekki síður að gæta hagsmuna sjóðsins sjálfs. Ef gert er ráð fyrir því, sem ekki er ólíklegt, að forstjóri sjóðsins verði sjerstaklega kunnugur öllum háttum landbúnaðarins og beri hagsmuni hans einkum fyrir brjósti, þá þarf hann að hafa við hlið sjer menn, sem hafa meiri sjerþekkingu á öðrum sviðum. Þess vegna getur svo farið, að fulla nauðsyn beri til, allra hluta vegna, að annar gæslustjórinn verði t. d. banka- eða lögfróður maður. Þess vegna er nauðsynlegt, að hendur stjórnarinnar sjeu ekki alt of mjög bundnar í þessu efni.

Þó að jeg á engan hátt vilji gera lítið úr till. búnaðarþingsins, þá er þess að gæta, að hjer á Alþingi eiga líka sæti fulltrúar bænda, sem engu síður eiga heimtingu á tillögurjetti um þetta mál, og þegar því er lýst yfir, að tillagna búnaðarþingsins eða Búnaðarfjelagsins skuli leitað um skipun gæslustjóranna, þá sje jeg enga ástæðu til þess að vera tortrygginn. Vænti jeg því, að hv. þm. Str. (TrÞ) greiði till. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) ekki atkvæði vegna tortrygni í garð stjórnarinnar, því að jeg er sannfærður um, að sú till. miðar til ills eins fyrir sjóðinn, en einskis gagns.

Jeg legg afarmikla áherslu á, að forstaða sjóðsins verði fengin manni, sem ætlar að gera það starf að æfistarfi sínu. Og jeg er viss um, að forstjórinn mun hafa nægilegt að gera þegar frá byrjun, ef ekki við lánveitingar, þá við allskonar undirbúning og að svara fyrirspurnum, sem mikið hlýtur að berast af til að byrja með.

Í búnaðarlánadeildinni í Landsbankanum gengur öll afgreiðsla nú afarerfiðlega að sögn, enda munu sárafáir enn hafa fengið lán hjá þeirri stofnun. Þess vegna vil jeg óska, að tortrygni ráði því ekki, hvernig hv. þm. (TrÞ) greiðir atkv. um velferðarmál ræktunarsjóðsins og bænda.

Að lokum skal jeg geta þess, að mjer datt í hug að flytja brtt. við nafn stofnunar þessarar og kalla hana ræktunarbanka, vegna þess, að sjóðurinn verður þegar í upphafi svo öflugur samkvæmt frv., að banki er meira rjettnefni. En jeg hvarf þó frá þessari hugsun, m. a. vegna þess, að frv. hefði orðið að breyta mjög víða í samræmi við nafnbreytinguna.