07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Sigurður Eggerz:

Jeg býst við, að tillögur mínar í þessu máli fái lítið hljóð í hv. deild. Eins og kunnugt er, er komin fram þáltill. í hv. Nd. um það að skipa milliþinganefnd til þess að athuga fyrirkomulag seðlaútgáfunnar og bankamálin yfir höfuð. Jeg hefi ástæðu til þess að halda, að þessi till. fái byr í þinginu. Jeg álít rjett, að þetta mál fari til þeirrar nefndar. En hins er jeg fullviss, að margir vilja heldur koma þessu máli fram nú. Því er haldið fram, að þar með sje opnaður aðgangur að haganlegri lánum en áður. Er þetta nú víst ? Mjer sýnist aðalatriðið ennþá óleyst. Það er útvegun fjárins, tryggingin fyrir hagstæðri sölu brjefanna. Hún er að mínu áliti ekki ennþá fengin, og fyr er ekki hægt að segja, hver kjör landbúnaðurinn fær. Ef brjefin þarf að selja með miklum afföllum, þá leitar í sama farið eins og nú á sjer stað með veðdeildina. En þeir „effektivu“ vextir af veðdeildarlánum, eins og brjefin seljast nú, munu vera milli 7–8%.

Landsbankinn hefir að vísu þegar lofað að kaupa brjef fyrir á aðra miljón króna. En þetta er aðeins smáupphæð. Það, sem rannsaka þarf, er þetta, hvort ekki er hægt að búa brjefin svo út, að hægt sje að selja þau erlendis. Þá fyrst koma nýir fjárstraumar inn í landið. Það er og ljóst, að það veikir Landsbankann að verja fje til kaupa á brjefum, sem hann ekki getur selt aftur. Aðalspursmálið um ódýr lán fyrir landbúnaðinn er ennþá óleyst. Hvernig það yrði best leyst, ætti að fela áminstri nefnd að rannsaka. Jeg hygg, að besta lausnin yrði með því að koma ríkisveðbankanum með einhverjum breytingum á fót.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði hjer einu sinni í háttv. deild, að ekki mætti gera verkaskiftinguna of mikla. En með því að koma upp sjerstökum landbúnaðarbanka er einmitt verið að búa til óþarfa verkaskiftingu. Ríkisveðbankinn gæti sjeð bæði um landbúnaðarlán og lán til húsabygginga í kauptúnum. Jeg hygg, að ef sterkur banki stæði á bak við, væri hægara að fá markað fyrir brjefin. Í 7. gr. eru ákvæðin um ábyrgðina fyrir brjefin. Jeg veit ekki, hversu gott eða gætilegt það er fyrir ríkissjóð að ganga þannig í ótakmarkaðar ábyrgðir. Að minsta kosti þótti ekki annað fært en takmarka ábyrgðina, þegar rætt var um ríkisveðbankalögin. Víða í heiminum hafa orðið mikil bankahrun, og því hefir trúin á bankana þverrað. — Það veikir lánstraust ríkissjóðs, þegar það vitnast erlendis, að ríkissjóður taki á sig ótakmarkaðar ábyrgðir fyrir banka. — Jeg er mótfallinn brtt. um að fella burt 34. gr. Hún er bending um, að ríkisveðbankann eigi að stofna og ræktunarsjóðurinn eigi að vera deild í honum. Ef greinin yrði feld, mundi hv. Nd. halda fast á sínu máli, og þá mundi frv. hætta búin og er því óráðlegt að fella þá brtt. frá sjónarmiði þeirra, sem vilja koma frv. áfram. Önnur brtt. er um skipun gæslustjóranna. Ef ræktunarsjóðurinn á að halda áfram í þessari mynd, er þessi tilhögun ekki óeðlileg. Jeg geri ráð fyrir, að trúa megi fulltrúum búnaðarþingsins fyrir þessari kosningu. —

Jeg sje ekki ástæðu til að segja fleira að sinni, en vildi taka þetta fram á þessu stigi málsins. En í sannleika eru þessi mál svo flókin, að þeim veitir ekki af að fá hinn besta undirbúning, sem kostur er á. Og meira er vert um það að fá fullkominn banka, sem megi verða landbúnaðinum að verulegum notum, þó stofnun hans dragist 1 ár eða svo, heldur en í flaustri að koma á bankastofnun, sem láti alla aðalhnútana óleysta.