07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg vænti þess eftir aðstöðu, að hv. 1. landsk. þm. (SE), að hann, bankamaðurinn, segði eitthvað í þessu máli. En það, sem mjer fanst vera aðalhugsunin í ræðu hans, var að fresta málinu, og bygði hann það á þeirri von, að milliþinganefnd yrði skipuð í bankamálum. Þó nú svo verði, þá hefði sú nefnd samt nóg að starfa, þó þetta bættist ekki við. Sú nefnd, sem fengist hefir við þau mál á þinginu, gefur ástæðu til að ætla, að það eitt sje ærið verk. Það er því Lokaráð að láta ræktunarsjóðinn í hendur væntanlegrar milliþinganefndar í bankamálunum. Hún mundi láta hann sitja á hakanum.

Þá vildi hv. þm. (SE) fetta fingur út í ummæli okkar í nál. En annaðhvort verður nú um betri lánskjör að ræða en verið hefir, eða engin lán. Verri kjör en undanfarið er ekki hægt að fá. Víxlar, sjálfskuldarábyrgðir og veðdeildarlán hafa verið æðióhagstæð upp á síðkastið.

Þá sagði hann óvíst um markað fyrir brjefin. Jeg býst við því, að svo sje enn, og verði uns leitað er fyrir sjer. Þau verða að skapast fyrst brjefin, áður en markaðurinn opnast. Það hefir verið talað um það, að samkvæmt ákvæðum frv. kaupi Landsbankinn brjef fyrir þó nokkra upphæð. Auk þess koma ýmsir aðrir óefað til þess að kaupa meira eður minna af þessum brjefum. Eftir því, sem ákveðið er í frv., eiga vextirnir, sem brjefin gefa, að vera 1% hærri en sparisjóðsvextir. Og við þurfum ekki annað en líta á reikninga bankanna til þess að sjá, að einstaklingar eiga mikið fje inni þar, sem þeir gætu varið og mundu vilja verja til þess að kaupa fyrir þessi brjef. Auðvitað eru altaf nokkrar upphæðir, sem menn vilja ekki festa í vaxtabrjefum, en eigi að síður verður mikið eftir, sem ekki væri hikað við að binda gegn hærri vöxtum.

Þá talaði háttv. þm. um ábyrgð ríkissjóðs. En hvernig á að koma því fyrir að fá aukið fjármagn án ábyrgðar? Ef selja á miklu meira af brjefum en þeirri upphæð nemur, sem á bak við stendur, þá þarf ábyrgð. Mjer fanst hann líka vera harla lítilþægur fyrir hönd landbúnaðarins, þegar hann var að tala um að nota búnaðarlánadeildina í eitt ár enn. Hann ætti að vita, að það gengur tregt með lán þar. Mjer virtist hann vilja heldur, að 34. gr. stæði. Jeg er þar, eins og jeg hefi tekið fram, alveg á gagnstæðri skoðun. Jeg er ekki í vafa um, að það er landbúnaðinum til ógagns, ef sú hætta vofir yfir honum, að ræktunarsjóðurinn yrði sameinaður ríkisveðbankanum. Og af því leiðir þá líka, að ef heimildin til slíkrar sameiningar stendur, getur það orðið steinn í götu ríkisveðbankans. Þetta hefir hæstv. fjrh. (JÞ) tekið rjettilega fram. Það er hættulegt að láta greinina standa. Þó að við höfum ákvæðið ekki í þessum lögum, má taka það upp í ríkisveðbankalögin, ef svo sýnist. En við þurfum ekki að vera að binda nú þegar hendur okkar fyrirfram í þessu efni.

En þar sem hv. 1. landsk. þm. (SE) vill láta 34. gr. standa, þá fanst mjer hann komast í mótsögn við sjálfan sig um það að láta búnaðarþingið skipa gæslustjórana. En frá sjónarmiði þeirra, sem vilja láta 34. gr. standa, er beinlínis bráðnauðsynlegt að útiloka búnaðarþingið frá að hafa áhrif á skipun þeirra. Jeg ætla mjer auðvitað ekki að fara hjer út í neina bankaspeki. En hinu treysti jeg fullkomlega, að það verði ekki frv. að falli, þó 34. gr. sje kipt í burtu. Og setjum svo, að hv. Nd. setti hana aftur inn í frv., þá mundi jeg auðvitað kjósa fremur að una við þann ókost en að frv. næði ekki að ganga fram. En jeg tel skyldu okkar, úr því að frv. er hingað komið, að laga það eins og hægt er.

Hv. 2. landsk. (SJ) tók í sama strenginn. Hann tjáði sig vera að mestu samþykkan efni brtt. okkar, en fyrir honum vakir að gera ekki neitt, sem tafið getur fyrir málinu eða orðið því að falli. En jeg vona, að slíkt hendi ekki, þó að brtt. okkar verði samþyktar.