31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

1. mál, fjárlög 1926

Árni Jónsson:

Jeg ætla aðeins að segja fáein orð. Það verður ekki um fjárlögin alment, heldur aðeins fáar brtt.

Fyrst er till. um styrk til bættra húsakynna á Skútustöðum. Jeg vísa þar að miklu leyti til þess, sem hv. frsm. (TrÞ) hefir sagt. Það er alkunnugt, að presturinn varð fyrir sök þess, hve ljeleg eru húsakynni, að flýja staðinn. Þetta er einn hinn efnilegasti af yngri prestum og mjög ástsæll af sóknarmönnum.

En staðurinn er í þeirri niðurníðslu, að honum var ekki viðvært þar. En hann er fátækur og megnar ekki af eigin ramleik að byggja staðinn upp af nýju. En það er þó ekki þessi ástæða, sem jeg legg aðaláhersluna á, og er það þó vitanlegt, að Mývetningar verða prestslausir þangað til þetta er gert.

Um þessa sveit er hinn mesti ferðamannastraumur. Og allir menn, innlendir og útlendir, sem um fara, koma að Skútustöðum.

Þetta er því menningarmál, þar sem um er að ræða einn fegursta og fjölsóttasta stað landsins. Það er á engan hátt sæmandi, að bærinn sje í þessari niðurníðslu, og sveitarmenn vilja leggja mikið á sig, ef úr þessu yrði bætt. Um þennan stað, Skútustaði, orti Einar Benediktsson:

Þessi bær er bygðarprýði,

bygðin þessi fjórðungsprýði,

fjórðungurinn Fróns er prýði,

Frónið allrar jarðar prýði.

Ekki sæmir, að slíkur staður sje í megnustu niðurníðslu.

Þá kem jeg að 22. brtt. á þskj. 235. Það er styrkur til þess að endurbæta hús á Skeggjastöðum. Þetta mál lá fyrir á síðasta þingi. Nú liggur fyrir ítarlegt erindi um það frá syni prestsins, Helga Ingvarssyni lækni. Það er vitanlegt, að þetta er hin vandaðasta bygging og hefir kostað ærna fje. Það mælir því öll sanngirni með því, að eitthvað yrði ljett undir um þann kostnað.

Þá er það um Eiðaskólann að segja, að eins og kunnugt er, er til lánsheimild til þess að reisa viðbótarbyggingu þar, og sje jeg ekki, hvernig undan því verði komist.

Þá vildi jeg að lokum árjetta það, sem hv. þm. Ak. (BL) sagði um styrk til bókasafnsins á Akureyri, til þess að fá Davíð Stefánsson að safninu. Hann sýndi fram á, hvílíkur hagur það mætti verða safninu, ef það fengi mentaðan mann til forstöðu. Þetta er önnur hlið málsins. En jeg legg einnig áherslu á hina, þá, sem að manninum snýr sjálfum.

Jeg er ekki mikið fyrir það, að óvöldum listamönnum sjeu veittar viðurkenningar. En á hitt er að líta, að það er aðeins ein list, sem vjer stöndum svo framarlega í, að þar erum vjer jafnfætis þeim fremstu. Það er orðsins list. Í henni stöndum vjer engum að baki. Hún hefir þroskast með oss gegnum aldir og átt fleiri iðkendur en allar aðrar listir til samans.

Það er því fullvíst, að þeir, sem skarað hafa fram úr í henni, eru betri listamenn en aðrir listamenn vorir. En þessi maður er að allra dómi einna snjallastur hinna yngri skálda. Hann sýndi sig þegar í byrjun sem afarsnjallan rímara. Hann ljek sjer að ríminu og samfeldi það efninu miklu betur en venja er um byrjendur. Engum gat blandast hugur um, að „lyriker“ var á ferðinni. Hitt munu ýmsir hafa fundið að hinum fyrri kvæðum hans, að nokkuð skorti á þrótt og karlmensku. En Davíð hefir eflst. í síðustu bókunum eru karlmannleg kvæði, kröftugar lýsingar, snjallar ádeilur, og í seinustu bókinni töluvert af ljettri kýmni. Af yngri skáldum vorum er hann tvímælalaust fremstur.

Jeg vona því, að öllu athuguðu, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja þessa brtt.