07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Einar Árnason:

Jeg er dálítið óánægður yfir því, að hv. landbn. skyldi fara að finna upp á því að flytja þessar brtt. Jeg tel sumar þeirra þarflausar og aðrar heldur til að spilla frv. Jeg tel þetta óheppilegt, mest vegna þess, að það er ilt að stofna til þess, að þetta mál þurfi að hrekjast á milli deilda eins og nú er komið störfum þingsins. Að sönnu er búist við, að það sje vilji meiri hl. þingsins, að þetta mál gangi fram, en jeg held það megi lengi deila um einstök atriði þess. Um tvær fyrstu brtt. get jeg ekki sagt, að þær sjeu til skemda, en þær eru svo þarflitlar, að jeg get ekki greitt þeim atkv., vegna þess að það er ástæðulaust að senda frv. aftur til hv. Nd. út af svo lítilfjörlegum breytingum. Þriðju brtt. tel jeg heldur til spillis frv. Þá er fjórða brtt., sem er sú eina, sem nokkurs er um vert; það er, að 34. gr. frv. falli burt. Aðalefni þeirrar greinar er það að sameina ræktunarsjóðinn ríkisveðbankanum, þegar hann kæmist á fót. Þó er líka tekið fram í greininni, að hann skuli altaf vera sjerstakur sjóður og hafa sín sjerstöku rjettindi. Hv. frsm. (EP) tók svo djúpt í árinni viðvíkjandi þessu atriði, að hann lýsti því yfir nú þegar, að hann mundi greiða atkvæði á móti því, að ríkisveðbankinn yrði stofnaður nú á næstu árum, að mjer skildist vegna þessarar heimildar í 34. gr. Jeg varð sannast að segja hissa á þessari yfirlýsingu, af því jeg get ekki betur sjeð en að þetta sje mjög meinlaust ákvæði. Mjer virtist hv. frsm. (EP) fá byr undir báða vængi með þessa skoðun sína af því, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði hjer í ræðu sinni, að þetta ákvæði kynni að spilla fyrir því, að samkomulag fengist á næstu árum um að stofna ríkisveðbankann. Að vísu færði hæstv. fjrh. engar sönnur fyrir þessu, og jeg get heldur ekki komið auga á þær. Yfir höfuð finst mjer, að þetta ákvæði geti alls ekki verið hættulegt; getur verið, að sumum sýnist það þarflaust að sameina þessar tvær stofnanir, en jeg get ekki betur sjeð en að það fari vel á því, að báðar sjeu undir sömu stjórn, þar sem þær eru mjög skyldar.

Jeg vildi aðeins taka þetta fram, til þess að gera grein fyrir því, að jeg get ekki verið með þessum till. Og jeg get hugsað mjer, að ef þessi síðasta brtt. verður samþykt hjer, og ef hv. deild heldur fast á því máli, þá muni það verða til þess, að þetta mál fari í sameinað þing. Hinsvegar skildist mjer á hv. frsm. (EP), að hann væri kannske fyrir sitt leyti ekki fráleitur því að ganga inn á frv., þó þetta ákvæði kæmi frá hv. Nd. En jeg tel miklu betra að ganga svo frá frv. nú, að það þurfi ekki að fara til hv. Nd., svo þessi deild þurfi ekki að ganga ofan í sjálfa sig aftur.