07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Eggert Pálsson):

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess, að jeg hefði látið mjer þau orð um munn fara, að ef ríkisábyrgð væri ekki á bak við, þá mundi mega telja, að brjefin væru einskis virði. Jeg man ekki vel, hvaða orð jeg notaði, en það, sem fyrir mjer vakti, var það, að ef þessi ábyrgð væri ekki tekin upp, þá myndi það spilla svo mikið áliti þessara brjefa, að það mundi hafa verið erfitt að fá þau seld. Og þá ber að sama brunni og hjá hæstv. ráðherra (JÞ), þar sem hann í upphafi áleit, að það yrði að hafa einhverja ríkisábyrgð.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) get jeg svarað sameiginlega, því mjer fanst koma fram hjá þeim svo að segja algerlega sömu orðin. Hv. 1. þm. Eyf. tók það fram um brtt., sem fyrir liggja, að þær væru sumar þarflausar og aðrar til spillis. Þarflausar vildi hann telja 1. og 2. brtt.; jeg fyrir mitt leyti hefi ekki lagt sterka áherslu á 1. brtt., en jeg álít það viðkunnanlegra, að það sjáist, hvað mikla upphæð um er að ræða. Um 2. brtt. vildi hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) viðurkenna, að hún sje heldur til bóta, þar sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) taldi hana þarflausa. Aftur á móti að því er snertir 3. brtt., tók hv. 1. þm. Eyf. það fram, að hún væri beinlínis til spillis, en mjer virtist hann ekki rökstyðja það á neinn hátt. Jeg gat ekki fundið það út úr orðum hans, að hann teldi það heppilegra fyrir ræktunarsjóðinn og aðra hlutaðeigendur, að búnaðarþingið skipaði þessa gæslustjóra. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú bent á eina hlið á þessu máli, sem sje, að það er óneitanlega óviðkunnanlegt, að búnaðarþingið, sem skoða má sem fulltrúa fyrir landbúnaðinn, fái að ráða öllu um gæslustjórana, en að hinir, sem leggja fjeð fram, fái engu að ráða. Mjer finst þessi ástæða hæstv. ráðherra (JÞ) talsvert veigamikil. Hinsvegar benti hv. 1. landsk. á það, að komið gæti til mála, að Alþingi skipaði gæslustjórana. Það var gert, þegar gæslustjórar voru við Landsbankann. Þá væri alt öðru máli að gegna, og mætti líta svo á, að þingið væri fulltrúi beggja aðilja jafnt. En það liggur ekki fyrir.

Um 4. brtt. viðurkendi hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að hún væri nokkurs verð. En samt sem áður vildi hann ekki hætta málinu með því að samþykkja hana, og skildist mjer honum helst leika hugur á að hleypa málinu sem allra fyrst í gegn, án þess að gera tilraunir til þess að fá frv. breytt, þó hann teldi jafnvel breytingarnar til bóta. Hann hneykslaðist á því, hv. þm., að jeg ljet uppi þá skoðun mína, að ef ákvæði 34. gr. kæmu til að standa í ræktunarsjóðslögunum, þá gæti það orðið þess valdandi, að jeg á sínum tíma greiddi atkv. á móti stofnun ríkisveðbankans. Mjer er sama, þótt hv. þm. hneykslist, en mjer finst það ætíð best að segja hreint og beint skoðun sína í hverju máli sem er.

Hvorugur hv. þm. hafa bent á það, sem þó er vikið að í nál., að nú til að byrja með verður að skipa formann fyrir ræktunarsjóðinn, en ef þessi grein stendur áfram í lögunum, getur hún orðið þess valdandi, að enginn maður vildi taka við þeirri stöðu, eigandi það á hættu að missa stöðuna eftir 1–2 ár. Slíkt held jeg að hver maður ætti að geta skilið. Það liggur í hlutarins eðli, að þessi maður kemur til með að hafa mikið starf með höndum, því það er enginn vafi á því, að margir sækja um lán, ekki síst til að byrja með, og mundi það verða til spillis, ef hann stundaði önnur störf um leið.

Þá hneykslaðist hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) á, að jeg gaf í skyn, að skeð gæti, ef þessar breytingar á frv. fengju ekki að standa í Nd., þá gæti fremur komið til mála, að jeg greiddi frv. atkv. óbreyttu. Finst mjer engin ástæða til að láta það hneyksla sig. Jeg játa, að það liggja miklar umbætur fólgnar í frv., en hinsvegar eigum við að gera á þessum lögum þær umbætur, sem við höfum vit á, og láta ekki ófreistað að gera þær bætur á þessu frv., sem við teljum rjettar vera, þar sem tíminn er heldur ekki svo naumur, að óttast þurfi, að málið strandi í hv. Nd.

Háttv. 1. landsk. (SE) fanst ábyrgðin vera svo ægileg; en þar sem hæstv. fjrh. var búinn að tala um það atriði, þá get jeg gengið framhjá því. En mjer skilst, að ábyrgðin hafi svo mikið að segja í þessu efni, og ef hún væri ekki, þá býst jeg við, að brjefin gengju ekki vel út, en með ábyrgðinni heilli og óskiftri geri jeg ráð fyrir, að þau muni reynast seljanleg. Að þessi ábyrgð verði í augum annara út í frá til svo mikils álitshnekkis fyrir ríkið, get jeg ekki skilið, því fyrst er að grípa til peninganna, sem sjóðurinn getur lagt til, áður en til ábyrgðarinnar getur komið. Þess vegna get jeg ekki hugsað mjer, að ábyrgðin geti orðið hættuleg, en víst er um það, að ábyrgðin gefur brjefunum það gildi, er verður að teljast nauðsynlegt, og mun, eins og jeg sagði áður, að öllum líkindum nægja.