07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Guðmundur Ólafsson:

Aðeins örstutt aths. Háttv. 1. landsk. (SE) lagði mikla áherslu á það, að gott væri að fresta þessu máli nú og skipa milliþinganefnd. Það mundi borga sig að bíða í eitt ár og fá svo sterkan banka. Jeg segi fyrir mig, að mjer finst málið sæmilega undirbúið, og jeg hefi enga trú á því, að það tæki miklum breytingum til bóta, þótt það væri sett í milliþinganefnd.

Jeg skal ekki tala illa um brtt. nefndarinnar, en jeg álít ekki borga sig að stofna málinu í hættu þeirra vegna. Breytingarnar eru algerlega óþarfar, og jeg tel algerlega óforsvaranlegt að senda frumvarpið þeirra vegna til hv. Nd. aftur, og þar með stofna því í hættu, þar sem tíminn er naumur orðinn og alveg að þingslitum komið.