31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg er nú búinn að hlusta á 21 ræðu síðan jeg hjelt framsöguræðu mína. Hv. þm. hafa gert athugasemdir sínar og mælt með till. sínum. Það er von, að alt þetta taki tíma, enda skal jeg nú vera eins stuttorður og jeg get.

Jeg ætla að hafa þau vinnubrögð að víkja fyrst að aths. hv. þm. við tillögur nefndarinnar og síðan lýsa afstöðu nefndarinnar til brtt. einstakra þm. Jeg gleymdi að taka það fram áðan, að fjvn. lagði til, að Fiskifjelagi Íslands yrði veittur 5000 kr. styrkur, til þess að gefa út sjómannaalmanakið o. fl. Þetta átti að vera nokkurskonar hliðstæða við styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands.

Annars skal jeg taka hv. þm. í sömu röð og þeir hafa talað.

Jeg hefi lítið við ræðu hæstv. forsrh. (JM) að athuga. Hann var að vísu að afsaka styrkveitinguna til Jakobs Thorarensens. Jeg hafði ekki þung orð um þetta.

Þá taldi hann varhugavert að veita Magnúsi Konráðssyni styrk til lokanáms, utan þess, sem veittur er í fjárlögum til stúdenta. Þetta má deila um. Það hefir þó oft verið gert, og einkum ef um verkfræðinema var að ræða. Og samkvæmt þeim upplýsingum, sem lágu fyrir fjvn., var ekki annað sýnt en maðurinn væri fyllilega þessa styrks verður.

Þá mintist hæstv. forsrh. (JM) á daufdumbraskólann, og skal jeg a. m. k. ekki á þessu stigi málsins víkja að því frekar.

Þá talaði hv. 2. þm. Árn. (JörB) um Skeiðaáveituna. Ljet hann í ljós óánægju sína og hafði óskað meiri aðgerða af hálfu nefndarinnar. Jeg skal ekki tala margt um þetta; kem að því síðar í sambandi við ræðu hæstv. atvrh. (MG). Hv. þm. þótti of ríkt að orði kveðið, að þessir menn hefðu ekkert borgað; þeir hefðu fengið ný lán 1923 til þess að borga vexti og afborganir. Það má kalla það á pappírnum að borga, en þeir hafa ekki borgað öðruvísi en með nýjum lánum. Og það er ekki ástæða til að kvarta undan því, þótt fjvn. geri þá kröfu, að þessir menn sýni alvöru í því að vilja standa við skuldbindingar sínar. Nefndin vill hjálpa, en hún setur það skilyrði fyrir hjálp sinni, að þessir menn vilji líka hjálpa sjer sjálfir. Og hún fer ekki dult með, að hún vilji hjálpa, er þeir hafa sýnt lit. Og þess er að gæta, að þessir menn hafa notið alveg sjerstakra ráðstafana, bæði ríkisins og Búnaðarfjelags Íslands. Búnaðarfjelagið sendi mjög hæfan mann í sumar á þessar stöðvar, og það er óhætt að fullyrða, að starf hans þar var til mjög mikils gagns. Hann hefir vakið von og kjark og trú hjá þessum mönnum. Þá óskaði nefndin föstu skipulagi komið á fjárreiður þessa fyrirtækis. Það er öllum aðiljum fyrir bestu, að þeim sje komið í rjett horf. Landsbankinn neitaði í fyrra að verða við tilmælum Alþingis um eftirgjöf á vöxtum og afborgunum. Eftir atvikum verður að vísa aðgerðum í því máli til landsstjórnarinnar.

Þá ætla jeg að víkja fáum orðum að ræðu hv. 2. þm. Rang. (KIJ). Hann telur nefndina verið hafa fullríflega við skóla og þess háttar. Hefði eins vel mátt hækka styrk til Sögufjelagsins. Hann kunni ekki við, að styrkur til Sigfúsar frá Eyvindará sje í 18. gr. fjárlaganna. Jeg vil taka það fram, að um það hefir engin umkvörtun komið frá þeim, er sóttu um styrkinn.

Þá mintist hann á, að ekkjur, einkum presta, fái misjöfn eftirlaun. Það var góð bending, en úr þessu jafnar prestsekknasjóður nokkuð. Að öðru leyti á þetta fremur heima hjá landsstjórn en fjvn., sem naumast hefir tíma til að rannsaka svona atriði ítarlega.

Viðvíkjandi ræðu hæstv. atvrh. (MG) þá gladdi það mig, að hann vill leggja það til, að gengið sje hart að Landsbankanum vegna Skeiðaáveitunnar. En eins og málið bar að fjvn., þá tók hún ekki afstöðu til þess á þeim grundvelli. Hún tók þá hliðina, sem sneri að Alþingi.

Mjer var það mikið gleðiefni, að hann tók svo í það mál og vildi stuðla til þess, að till. í átt við það, sem hann leggur til, komi til umr. í fjvn. fyrir 3. umr. Þá talaði hæstv. atvrh. (MG) um það, hvernig ganga ætti frá fjárreiðum þessa fyrirtækis. Þess verður að geta, að Búnaðarfjelagið hefir þegar tekið málið mjög myndarlega í sínar hendur. Stjórn þess hefir fullkominn vilja á því að koma þessu máli á hreinan grundvöll. Og jeg vænti til þess fulls stuðnings af hæstv. atvrh. (MG).

Þá mintist hæstv. atvrh. á till. fjvn. um styrk til bryggjugerða. Það er satt, að nefndin treystist ekki til að skera úr um það, hverjir ættu að ganga þar fyrir. Var það ætlun nefndarinnar, að hæstv. stjórn gerði út um það með aðstoð vitamálastjóra.

Hæstv. atvrh. fór hörðum orðum um annan mann í sambandi við lofsyrði sín um Þórð Flóventsson. Nefndin gaf enga ástæðu til þess, og er hana ekki um neitt að saka í þessu sambandi.

Fjvn. tók upp beiðni um styrk til starfs meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn. Jeg vjek ekkert að því í framsöguræðu minni; fanst nóg sagt í nál.

Hæstv. atvrh. virtist hjer vera aðallega um styrk til guðsþjónustuhalds að ræða. Um þetta hafði fjvn. mörg skjöl, og fyrir henni var það alls ekki eini tilgangurinn að styrkja guðsþjónustuhald þessa safnaðar, heldur þá styrktarstarfsemi, sem hann hefir með höndum.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) vjek að því viðvíkjandi umsókn Ríkarðs Jónssonar, að kastað væri hnútum að Stefáni heitnum Eiríkssyni í gröf sinni. Það var langt frá mjer að gera slíkt. Orðin í nál. eru tekin orðrjett úr brjefi Ríkarðs Jónssonar og lýstu því, hvað fyrir honum vakti, en í þeim fólst enginn dómur um Stefán Eiríksson.

Hv. 1. þm. N.-M. talaði um styrkinn til Hannesar Þorsteinssonar. Jeg skal aðeins minnast á það. Í rauninni er því svo varið, að hjer er um samning að ræða milli ríkisins og Hannesar Þorsteinssonar. Og jeg fyrir mitt leyti legg mjög mikla áherslu á þetta, sakir hins mikla og stórmerkilega safns Hannesar Þorsteinssonar. Sú er ætlun mín, að aldrei hafi sá maður hjer uppi verið, sem eins vel hefir verið að sjer á sínu sviði og Hannes Þorsteinsson er í sinni fræðigrein. Safn hans er miklu meira en nokkurs annars. Nú eru skilyrðin fyrir styrknum frá ríkisins hálfu þau, að ríkið eignist þetta stórmerkilega og mikla safn eftir daga Hannesar. Og ef ríkið kipti nú að sjer hendinni og vildi ekki veita styrkinn, þá væri það til ógagns eins, því að þá misti það eignarrjettinn til þessa mikla ritsafns.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vjek nokkrum orðum að nefndinni. Jeg ætla að geyma mjer að tala um þær almennu athugasemdir, sem flutu frá hans vörum, og aðeins víkja nú að því, sem hann sagði, er hann gerði einstakar till. nefndarinnar að umtalsefni. Fyrst mintist hann á ummæli mín um kennarana við vjelstjóraskólann og stýrimannaskólann. Jeg get látið nægja að segja, að síðan jeg talaði fyrst hafa borist erindi frá forstjórum þessara skóla, og verður því málið tekið til nánari athugunar til 3. umr.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vjek að tveim atriðum, þar sem honum fanst nefndin hefði borið fram till. við skakka gr. í fjárlögunum. Það eru till. um eftirgjafir á lánum. Það kom ekki til umr. í nefndinni að hafa aðra meðferð á þessu, og vitanlega hefir nefndinni ekki enn orðið unt að taka neina afstöðu til uppástungu hæstv. fjrh. (JÞ) um annað skipulag á þessu. En hingað til hefir sú aðferð tíðkast að safna slíku í eina gr., og þá oftast síðast í fjárlögunum, slíkum heimildum til þess að gefa eftir lán, svo að þetta er ekkert nýtt, sem hæstv. fjrh. (JÞ) er nú að finna að. Hæstv. fjrh. (JÞ) fanst það ljettúðlega gert að gefa eftir lánið til Hvítárbakkaskólans. Jeg skal ekki fara um það mörgum orðum. Jeg hefi áður sagt frá ástæðum nefndarinnar fyrir þessari till., og eins hefir hv. þm. Borgf. (FO) lýst þeim greinilega og sýnt fram á rjettmæti þessa. Jafnvel líka hv. 2. þm. Árn. (JörB). Það er rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að húsið var keypt á óheppilegum tíma og að menn þar upp frá hafa lagt á sig þungar byrðar. Hjer er ekki um meiri styrk að ræða en til annara slíkra skóla, og fylsta sanngirni virðist það vera, að ríkið rjetti nú hjeraði þessu hjálparhönd. Jeg er kunnugur á þessum slóðum og veit, að mikill áhugi er fyrir því að halda áfram skólanum, og virðist mjer þessi eftirgjöf rjettileg viðurkenning frá ríkisins hálfu.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vjek að styrknum til starfseminnar í Kaupmannahöfn og kvað hann eiga heima í 14. gr. Þetta er rjett, ef hjer væri um guðsþjónustustyrk að ræða, en nefndin lítur svo á, að hjer sje aðallega verið að styrkja líknarstarfsemi meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn, og hefir því flutt till. við 17. gr. Enda byggjast meðmæli Sveins Björnssonar aðallega á þessum lið starfseminnar.

Þá vjek hæstv. fjrh. (JÞ) að styrknum til Þórbergs Þórðarsonar. Jeg nenni ekki að rökræða mikið um þann póst. Jeg lýsti því yfir þegar í minni fyrri ræðu, að það væri eingöngu meiri hl. nefndarinnar, eða 4:3, sem að þessari till. stæði, og mjer finst ekkert undarlegt, þótt skiftar skoðanir kunni um þetta að vera, jafnt utan nefndarinnar sem innan. Frá hinu sjerstaka sjónarmiði hæstv. fjrh. (JÞ) á þessu er skiljanlegt, að hann sje á móti till. Hann sagði, að það væri skaðlegt fyrir íslenska tungu, að þessu starfi væri haldið áfram. Og frá þessum bæjardyrum sjeð er sjálfsagt að vera á móti því. En við í meiri hl. lítum svo á frá okkar bæjardyrum, að þetta starf sje einkar gagnlegt fyrir íslenska tungu, og því erum við með styrknum. Jeg er manninum persónulega kunnugur, og flestir munu hafa lesið hina nýútkomnu bók hans. Hvað sem kenningunum við kemur — og jeg er fyllilega samdóma hv. 2. þm. Skagf. (JS) um, að dómurinn um bændastjettina er alrangur —, þá þori jeg að fullyrða, að hvað málið og stílinn snertir, þá er bókin að mörgu leyti snildarverk. Maðurinn er mjög málhagur og mikill íslenskumaður, og ætla jeg, að hann hafi unnið íslenskri tungu gagn með þessari orðasöfnun sinni, því að jeg veit, að hann með því móti hefir bjargað fjölda ágætra orða frá gleymsku. Hefir hann og unnið að þessu með mikilli kostgæfni; meðal annars gefið út leiðarvísi um, hvernig safna eigi orðum, og eins hefir hann aflað sjer samverkamanna úti um alt land. Hefir hann þannig komið á heilu kerfi til þess að bjarga orðum, sem eru að týnast úr málinu og verða úrelt. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði síðast, að hann væri svo mikill íhaldsmaður á íslenska tungu, að hann vildi ekki láta Þórberg Þórðarson spilla henni. Er því sjálfsagt af honum að vera á móti styrknum. En jeg get sagt aftur á móti, að jeg er svo mikill framsóknarmaður á íslenska tungu, að jeg vil láta Þórberg Þórðarson starfa áfram eins og hann hefir gert.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) gerði nokkrar athugasemdir út af till. nefndarinnar. Kom mjer það ekki á óvart, því að hann hafði jafnvel haft við orð að skrifa undir nál. með fyrirvara, þótt ekki yrði úr. En það er alveg rjett, að í þessum atriðum, sem hann nefndi, og jafnvel fleirum, var hann ekki sammála meiri hl. Annars get jeg getið þess, að auðvitað er ekki um neinn fastan meiri hl. að ræða, 4–5–6 menn, sem allir standi að baki till., heldur er nál. og till. útkoman af samstarfi nefndarinnar, og jeg hefi t. d. talað hjer af nefndarinnar hálfu með till., sem jeg greiddi atkv. á móti í nefndinni.

Jeg skal ekki fara mikið út í ræðu hv. 2. þm. Skagf. (JS). Hann vjek að Skútustöðum, sundlauginni í Þingeyjarsýslu, Þórbergi Þórðarsyni og veðurathugunarstöðinni. Vil jeg vísa til þess, sem jeg hefi í fyrri ræðu minni sagt um þessi atriði. Mjer fanst á hv. þm. (JS) — og kann mjer þó að hafa misheyrst — sem hann taka það svo, sem jeg hefði sagt eða slegið föstu, að Jón Eyþórsson ætti að koma heim. Hafi jeg sagt þetta, hefir það verið óviljandi gert. Jeg vildi þess eins geta, að forstöðumaður veðurathugunarstofunnar hefði nefnt, að þetta gæti komið til mála, en vitanlega tekur nefndin enga afstöðu til þess. En út af veðurathugunarstöðinni vil jeg segja það sjerstaklega, að jeg man ekki betur en að hæstv. atvrh. (MG), sem bar fram till. um 30 þús. kr. styrk til hennar, hafi tjáð sig sammála þessari hækkunartill. nefndarinnar. Annars er þessi till. nefndarinnar algerlega í samræmi við þá stefnu nefndarinnar yfirleitt, að láta greiðslurnar ekki fara fram úr því, sem áætlað er í fjárlögunum. Eftir þeim upplýsingum, sem nefndin fjekk, fanst henni, að ekki myndi unt að komast hjá því, að þessi upphæð gengi til stofnunarinnar, og hefir því borið þessa till. fram til þess að ekki þurfi umframgreiðslu.

Jeg þarf svo ekki að tala meira um það, sem einstakir hv. þm. hafa sagt um till. nefndarinnar, og get snúið mjer að hinu, hvert álit og hvaða afstöðu nefndin hafi til þeirra till., sem háttv. þm. hafa fram borið.

Þá eru fyrstar till. hv. minni hl. (BJ).

Um þær get jeg verið stuttorður, því að eins og að líkindum ræður, hafa þær hjer um bil allar verið til umr. í nefndinni, og að hv. minni hl. nefndarinnar (BJ) sýnir glögglega, að meiri hl. er á móti þeim.

Um fyrstu till., styrkinn til stúdentagarðsins, þarf ekki að tala, því að hv. þm. (BJ) hefir ákveðið að taka hana aftur til 3. umr.

Næsta till. er um styrk til Ingibjargar Guðbrandsdóttur. Þessi styrkur var samkvæmt till. nefndarinnar feldur niður í fyrra, og nefndin hefir sömu skoðun nú á málinu. Og hún er alls ekki sammála hv. þm. Dala. (BJ) um, að hjer sje um nokkurt loforð að ræða.

Til næstu till., um aðstoðarmann við Landsbókasafnið, hefir nefndin ekki tekið afstöðu í heild, heldur hafa nefndarmenn óbundin atkvæði um hana.

Næst er styrkur til að gefa út Lög Íslands. Einn úr nefndinni annar en flm. (BJ) hefir lýst því yfir, að hann yrði með annari till. um þetta, þeirri, að fjárhæðin yrði helmingi minni, eða 1500 kr. í stað 3000 kr., og mjer skildist, að brtt. í þá átt væri á leiðinni. En nefndin greiddi atkv. um að veita 1500 kr. í þessu skyni, og var meiri hl. á móti því. Jeg get bætt því við, að öllum er kunnugt um, að töluverð óreiða hefir verið á þessari útgáfu. Og þó að útgáfan sje nauðsynleg, þá lítur nefndin svo á, að þótt styrkur til hennar verði veittur þeirri bókaverslun, sem haft hefir þetta með höndum, þá fáist ekki nægileg trygging fyrir, að nægilegur myndarskapur verði á, þótt hún haldi útgáfunni eitthvað áfram. Svo eru þrír listamenn og rithöfundar, þeir Björn Björnsson, Tryggvi Magnússon og Halldór Guðjónsson. Þessar umsóknir lágu fyrir nefndinni, og hv. flm. (BJ) hefir nú talað mjög fyrir þeim öllum, en jeg hef það að segja fyrir nefndarinnar hönd, að meiri hl. var á móti þessum liðum, en þó eru óbundin atkvæði um þá alla, og ekki eru allir aðrir í nefndinni en háttv. þm. Dala. (BJ) á móti þessum styrkjum. En sem sagt, meiri hl. er á móti þeim. Sjálfur hefi jeg tilhneiging til að segja nokkuð um þetta frá eigin brjósti, en af því að jeg er frsm. vil jeg ekki gera það.

Næst er styrkur til próf. Sigurðar Nordals. Hv. flm. (BJ) telur hjer um loforð að ræða. Um það eru menn ekki sammála. Jeg og meiri hl. yfirleitt lítur svo á, að eitt þing geti ekki skuldbundið annað í þessum efnum. Hins vegar er meiri hl. sammála hv. minni hl. um þessa till., og hafa nefndarmenn óbundin atkv. um hana.

Þá eru tvær till. hv. minni hl. (BJ), sem báðar standa í sambandi við minning Eggerts Ólafssonar. Fyrst það, að veita Pálma Hannessyni styrk til þess að rannsaka óbygðir vestan Vatnajökuls; í öðru lagi að veita styrk til þess að gefa út minningarrit um Eggert Ólafsson, og eru báðir liðirnir upp á 6 þús. kr. Vitanlega er öll fjvn. á þeirri skoðun, að ánægjulegt og æskilegt væri að geta gert hvorttveggja. Það er öllum Íslendingum kært að halda uppi minning góðra og nytsamra manna. En þetta eru einar af þeim mörgu fjárveitingum, sem nefndin treysti sjer ekki til þess að fylgja nú, þótt hún vildi óska, að fjárhagurinn leyfði sjer að gera það. Jeg get minst á það, að ekki er nema stutt síðan það var 200 ára minning Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal. Þá var látið nægja, að rituð var um hann ágæt og merkileg ritgerð í Skírni. Nú er tveggja alda minning Eggert Ólafssonar; eftir 50 ár er 250 ára minning hans. Kannske er hægt að gera það þá, sem nú verður því miður að fresta. Líku máli gegnir um næstu till., styrk til Gísla Jónassonar kennara til þess að læra að setja upp dýr. Það væri gagnlegt og ánægjulegt að geta orðið við þessu. Jeg þekki manninn persónulega, veit að hann er samviskusamur og styrksins vel maklegur, en nefndin telur samt, að þetta sje eitt af því, sem nú verði að fresta að veita. Sama er að segja um næstu till., þá, að kaupa myndina „Móðurást“ eftir Jónínu Sæmundsdóttur. Hv. flm. (BJ) segir, að hún muni kosta 10 sinnum meira eftir nokkur ár. Það má vel vera, og er þá að vísu hagsýnt af landinu að kaupa hana nú, en þá er líka óhagsýnt af listakonunni að selja hana. En sem sagt, nefndin telur, að þessu megi fresta að sinni.

Næst er till. um að hækka styrkinn til búnaðarfjelaganna upp í 25 þús. kr. Jeg hefði haft mikla tilhneiging til að vera með þessari hækkun. En það var samkomulag í nefndinni að leggja á móti þessari hækkun, eins og hv. 2. þm. Skagf. (JS) vjek að, Jeg á að vísu afarerfitt með að mæla á móti þessu, en jeg verð þó að gera það og telja, að enn betra sje að styrkja Búnaðarfjelag Íslands myndarlega, eins og nefndin leggur til. Eins að hækka styrkinn vegna jarðræktarlaga, og ekki síst að greiða fyrir útflutningi bænda á kjötinu, með því að styrkja þá myndarlega til þess að koma upp íshúsum, og eins að afla þeim kæliskips, svo að þeir geti flutt kjötið út kælt og fryst. Nefndin vill láta þetta sitja fyrir þeim parti starfseminnar, sem hjer ræðir um.

Svo eru tvær sambundnar till. Brtt. frá hv. minni hl. (BJ) um launabót fiskiyfirmatsmanna og brtt. við hana frá hv. sjútvn. Jeg bjóst við, að hv. flm. (BJ) myndi taka þessa till. sína aftur til 3. umr., því að fjvn. hefir óskað eftir að athuga hana nánar, því að hún barst svo seint, að nefndin hafði ekki færi til að taka fulla afstöðu til hennar. Að vísu get jeg ekki lofað háttv. flm. (BJ), að nefndin muni taka till. upp, en hún vill gjarnan athuga hana nánar, og ætti hv. flm. (BJ) því að taka hana aftur til 3. umr.

Næsti liður er um styrk til Þórdísar Ólafsdóttur á Fellsenda. Nefndin hefir óbundin atkvæði um hana, og þarf jeg ekki fleira um það að segja.

Næst er styrkur til rannsóknar á því, hvern veg best verði tengd við sjávarafla fyrirtæki bygð á íðefnafræði. Þetta erindi, sem er frá verkfræðingafjelaginu, lá fyrir nefndinni. Dylst nefndinni ekki, að hjer er um mikilsvert mál að ræða, en hún telur, að það sje eitt af því, sem geti beðið betri tíma.

Næst er að veita 18 þús. kr., eða fyrsta þriðjung styrks til lendingarbóta og varnargarða í Grindavík. Þetta erindi, sem hv. minni hl. (BJ) vitnaði í, lá líka fyrir fjvn., en ekki aðeins það, heldur og annað af svipuðu tægi. Því að skemdir urðu ekki aðeins í Grindavík í ofviðrinu mikla, heldur og á Eyrarbakka. Eftir að nefndin hafði rannsakað báðar umsóknirnar frá Grindavík og Eyrarbakka, þá — þó leiðinlegt sje frá að segja — treysti hún sjer ekki til að vera með þeim á þessum grundvelli og eftir þeim gögnum, sem fyrir henni lágu, þó að vitanlega væri æskilegt að geta hjálpað þessum mönnum. Háttv. flm. (BJ) gleymdi að geta þess, að miklu hærri er sú fjárhæð en hjer er nefnd, sem Grindvíkingarnir fara fram á. Er talið, að þeir komist ekki af með minna en 105 þús. kr.

Næsta till. er gamall kunningi hjer á þingi, það er um Reinhold Andersson klæðskera. Hv. flm. (BJ) talaði langt og fagurt mál um það, að menn ættu að búa að sínu og efla innlendan iðnað. Allir erum við sammála um það, og ríkið hefir og styrkt að nokkru þá viðleitni, en eins og sakir standa nú, getur fjvn. ekki verið með þessari till.

Næstu till. hv. minni hluta hefir hann frestað til 3. umr.

Seinasta til hv. minni hl. er ekki um nýja fjárveiting, heldur um, að sjeu fjárveitingar eigi fyrirskipaðar í lögum o. s. frv. Það verður að skiljast svo, að hv. flm. (BJ) eigi með þessu við það, að Alþingi hafi þann sið að efna ekki loforð sín. Ef hv. flm. (BJ) á nú við loforð eins og þau, þegar Alþingi hjet að kaupa grasasafn Stefáns skólameistara og borga með 3–4 ára afborgunum, eða það að kaupa handritasafn Jóns Aðils o. s. frv., þá hefir Alþingi aldrei svikið slík heit, og því ekki ástæða til þess að setja slíka grein inn í fjárlögin. En eins og jeg gat um áður, lítur nefndin ekki svo á, að þó að einstakir styrkir komist inn í fjárlögin, þá sje þar um áframhaldandi bindandi loforð að ræða. Því er meiri hl. á móti því, að þessi brtt. verði samþykt.

Þá eru brtt. annara hv. þm., og skal jeg fara þar svo fljótt yfir sem unt er.

Fyrsta er sú, að báðir hv. þm. N.-M. fara fram á styrk til húsabóta á Skeggjastöðum. Hafa báðir mælt mjög með þessari till. Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði, að þetta væri alveg sambærilegt við það, sem gert hefði verið t. d. gagnvart Mosfelli í Grímsnesi. Það er að einu leyti sambærilegt, því að búið er að reisa húsið á báðum stöðunum. En mismunurinn er sá, að með þeim þrem umsóknum til húsabóta á prestssetrum, sem nefndin hefir tekið upp, hefir biskup eindregið mælt, en með þessari umsókn hefir hann ekki treyst sjer til að mæla, því að hann skorti fullnægjandi upplýsingar. Biskup skýrði og frá því í áliti sínu, að hann ætlaði nú í sumar að vísitera þarna, og myndi eftir það geta gefið fullkomnar upplýsingar um málið. Leggur því nefndin til, að þessu sje frestað þangað til þær eru fengnar.

Þá eru tvær till. frá hv. þm. Barð. (HK) og hv. 2. þm. Eyf. (BSt) um styrk til barnaskóla. Þm. mæltu báðir vel fyrir þessum till., og einnig lágu fyrir nefndinni ummæli fræðslumálastjóra. Nefndin neitar ekki, að þörf sje þessa styrks og æskilegt að geta veitt hann, en meiri hluti hennar leggur þó til, að því sje frestað í þetta sinn, eins og mörgu öðru, sem hún sjer ekki fært að sinna.

Þá flytja 3 hv. þingmenn úr Múlasýslum tillögu um styrk til viðbótarbyggingar við skólann á Eiðum. Jeg neita því ekki, að rjett sje það, sem sagt hefir verið, að Austfirðingafjórðungur eigi lagalegan og siðferðilegan rjett á, að þetta sje gert, en hann getur ekki heimtað, að það sje gert núna. Þinginu er heimilt að fresta þessu, og meiri hluti nefndarinnar leggur til, að því sje frestað nú, vegna fjárhagsörðugleika ríkisins. Auðvitað væri æskilegt að geta sint þessu strax, og það er rjett, sem tekið hefir verið fram, að þetta er eina mentastofnunin austanlands, en í því sambandi má minna á, að Sunnlendingafjórðungur á enga slíka mentastofnun. Jeg get tekið fram, að nefndin var ekki öll á móti þessari fjárveitingu, og er jeg einn af þeim, sem hafa óbundið atkv.

Þá er till. frá hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um styrk til kvöldskólahalds. Engin plögg lágu fyrir nefndinni um þetta mál, en nú er komin fram skýrsla og gögn, sem nefndin hefir ekki haft tækifæri til að athuga, og veit jeg því ekki, hvaða áhrif þessar upplýsingar hafa.

Næst er till. frá hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um hækkun á styrk til húsmæðrafræðslu á Ísafirði úr 2000 kr. upp í 3000 kr. Nefndin viðurkennir rjettlátt að styrkja þessa starfsemi, en treystir sjer ekki til að mæla með hærri upphæð en 2000 kr.

Þá er tillaga hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Jeg tók svo eftir, að hann vildi láta hana bíða til 3. umr. Nefndin fjekk skjölin svo seint, að ekki var tækifæri til að athuga málið.

Þá er næst till. frá nokkrum þingm. um aukastyrk til amtsbókasafnsins á Akureyri, sem meðfram á að vera til þess að hlynna að einu af okkar ungu og góðu skáldum. Nefndin getur sjálfsagt öll tekið undir með hv. þm. Ak. (BL), að gott væri að geta styrkt hvorttveggja, bókasafnið og skáldið, en meiri hluti hennar hefir þó lagt til, að þessu yrði frestað af sömu ástæðum og svo mörgu öðru.

Þá er till. frá hv. 2. þm. Rang. (KIJ) um styrk til Sögufjelagsins. Meiri hluti nefndarinnar leggur á móti þessu, en atkv. eru óbundin. Mjer skildist á hv. flm. till. (KIJ), að hann hefði eitthvað að athuga við orðabreytingu nefndarinnar, en hún var gerð samkv. ósk forseta Sögufjelagsins.

Þá er till. frá hæstv. forseta þessarar deildar um styrk til Fræðafjelagsins. Jeg mun sjálfur hafa talað á síðasta þingi fyrir þessari fjárveitingu og ný gögn hæstv. forseta (BSv) hafa styrkt mig í þeirri skoðun. Frá nefndarinnar hálfu eru atkv. óbundin.

Sama er að segja um næstu till., styrk til Stefáns frá Hvítadal. Meiri hluti nefndarinnar er á móti, en atkv. óbundin.

Þá er till. um 1500 kr. styrk til Alþýðufræðslu stúdentafjelagsins, og fellst nefndin á hana. Út af till. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um að nokkur hluti styrksins gangi til Austurlands má geta þess, að á Akureyri er stúdentafjelag, sem getur látið nota styrkinn þar, en enginn slíkur aðili er fyrir austan. Þó hefir styrkur verið látinn austur, og mun stúdentafjelagið hjer fúst á. að svo verði áfram. ef um það kemur beiðni.

Sami hv. þm. (SvÓ) á till. um styrk til Þórarins Jónssonar. Jeg efa ekki, að hv. þm. hefir skýrt rjett frá um þennan mann, en meiri hluti nefndarinnar leggur þó á móti till.

Næst er till. hv. 2. þm. Rang. (KIJ) um styrk til landmælinga. Gögn lágu ekki fyrir nefndinni, en hv. flm. hefir lýst málinu. Allir eru víst sammála um það, að ánægjulegt væri að geta haldið mælingunum áfram, en meiri hl. nefndarinnar leggur þó til, að þessu sje frestað vegna fjárhagsörðugleikanna.

Till. um brimbrjót í Bolungarvík hefir flm. ákveðið að fresta til 3. umr.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) flytur till. um styrk til U.M.F.Í. Nefndin leggur til, að varatillagan, 1800 kr., sje samþykt.

Næsta till., frá hv. þm. Mýra. (PÞ), er tekin aftur til 3. umr.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) mælti rösklega með styrk til Halldórs Arnórssonar umbúðasmiðs. Nefndin lagði til árlegan styrk, en atkv. hennar um þetta eru óbundin.

Þá er till. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um styrk til bryggju á Ísafirði. Hefir nefndin þar óbundnar hendur. Er rjett, sem hv. flm. sagði, að hjer er um að ræða skyldu ríkissjóðs, sem ekki verður komist hjá að rækja, og eins og hv. flm. tók fram, þýðingarlaust að fresta því, og leiðin góð, að láta styrkinn ganga upp í lán, sem ríkissjóður hefir veitt kaupstaðnum.

Þá kemur næst till. frá háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) um styrk til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík. Hv. flm. gaf góða skýrslu um málið og plögg lágu fyrir nefndinni. Kom fram, að sjóðurinn hefir veitt töluvert fje til styrktar mönnum, sem orðið hafa fyrir slysum. Nú liggur fyrir þinginu frv. um slysatryggingar, sem ljettir mjög á þessum sjóði, ef það verður samþykt. Liggur því beint við að fresta þessu, þar til sjeð er fyrir endann á því frv.

Þá liggur næst fyrir að mæla af meiri hl. nefndarinnar hálfu móti till. um hækkun á styrk til Goodtemplarafjelagsins, sem jeg hefi sjálfur borið fram ásamt hv. þm. Borgf. (PO). Fengum við þá till. ekki samþykta í nefndinni og berum hana því fram í þessu formi. Atkv. nefndarinnar eru óbundin.

Þá er till. frá mörgum þm. um styrk til Theodóru Thoroddsen, og er nefndin einróma með henni.

Af líku tægi er næsta till. Þar hefir nefndin óbundin atkv.

Næst er till. frá hv. þm. V.-Sk. (JK) um 6000 kr. lán til Síðuhjeraðs, vegna byggingarkostnaðar, sem farið hefir fram úr áætlun. Það er ákveðin stefna nefndarinnar að veita engar uppbætur af þessu tægi. Meiri hluti nefndarinnar er því á móti þessu, þó flutt sje í þessari mynd. Nefndinni er ljóst, að ef hliðin eru opnuð inn á þessa braut, þá muni margt á eftir koma. Telur hún því rjett að láta jafnt yfir alla ganga.

Þá koma till. frá hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. þm. Mýra. (PÞ) um breytingu á vaxtakjörum sýslumanns Borgfirðinga. Um þessar till. hefir nefndin óbundin atkv.

Jeg skal svo ekki ræða meira um einstakar tillögur, en aðeins víkja nokkrum orðum til hæstv. fjrh. (JÞ), út af ummælum, sem hann ljet falla til nefndarinnar. Jeg skal þó taka fram, að það, sem jeg segi, er eingöngu talað frá mínum bæjardyrum, en engan veginn fyrir munn nefndarinnar.

Hæstv. fjrh. þykir nefndin hafa tekið of stórt fyrsta sporið og látið undan of mörgum fjárbeiðnum. Jeg skal ekki deila um það. Jeg sagði frá, hvað mikið hefði borist af fjárbeiðnum og ekki verið tekið undir nema 1/3. En það má altaf deila um það, hvar draga skal markalínuna, hvað fært er að gera og hvað ekki.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess í sambandi við ummæli, er fjellu hjá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að ógætilegt væri að segja, að búast mætti við tekjuafgangi og því óhætt að slaka á klónni. Jeg verð að segja frá minni hálfu, að mjer þótti hæstv. fjrh. tala ógætilega, þegar hann var að gefa ávísun á varasjóð landsverslunar. Það er eftir að berjast um þetta mál hjer á þingi. En jeg verð að segja, að mjer þykir þetta allóhyggilegt búskaparlag. Mætti líkja því við þá búhyggni bónda að slátra einni bestu kúnni úr fjósinu og jeta.

Jeg get skrifað undir margt af því, sem hæstv. fjrh. sagði um erfiðleika atvinnuveganna hjer, og það er ekki ólíklegt, eins og hann tók fram, að erfiðleikarnir geti orðið meiri. En jeg hygg, að stærsta atriðið sje ekki það, sem hæstv. fjrh. vjek að, hvort gjaldamegin er þúsundinu meira eða minna. Það, sem mest á ríður, er að taka skynsamlegri stefnu um að festa gengið og lækka vextina. Þannig mun best takast að firra atvinnuvegina kreppu.