12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg get verið mjög stuttorður. Málið er svo margrætt, að ekki þýðir neitt að tala hjer um það alment. Jeg vil því aðeins skýra frá því, sem gerst hefir í málinu síðan það fór hjeðan, og afstöðu nefndarinnar til þeirra breytinga, sem hv. Ed. hefir gert á frv. Hv. Ed. hefir samþykt 4 brtt. við frv. Fyrsta breytingin er á þá leið, að í stað þess að 2. liður 2. gr. orðist á þá leið, að ríkissjóður greiði ræktunarsjóði það, er samsvarar þeirri upphæð með 4% vöxtum og vaxtavöxtum, er ræktunarsjóður hefir greitt honum samkvæmt lögum 20. okt. 1905, komi: 250 þús. kr. Þessari brtt. hefir nefndin ekkert á móti, því eins og kunnugt er, er gert ráð fyrir, að umgetin upphæð verði einmitt um 250 þús. kr.

Önnur breytingin er við 19. gr., en þar var ákveðið í þessari háttv. þingdeild, áð lán, sem veitt eru meðan ekki er lokið útgáfu 1. flokks vaxtabrjefa, skuli undanþegin 1/2% gjaldinu upp í kostnað við sjóðinn og til varasjóðs. Þessu hefir hv. Ed. breytt á þá leið, að öll lán úr sjóðnum verði undanþegin þessu gjaldi, ef vextir þess flokks, sem þau eru veitt úr, eru 6%. eða hærri; og ef vextirnir eru milli 51/2% og 6%, færist gjaldið niður hlutfallslega, svo að vextirnir að viðbættu gjaldinu fari ekki fram úr 6%. Um þessar tvær breytingar er nefndin sammála, að þær sjeu ekki til skemda á frv., og leggur eindregið með, að þær verði samþyktar.

Þá eru tvær brtt. hv. Ed., sem fara í þá átt að fella burtu tvær till., sem samþyktar voru hjer við 3. umr. Önnur er sú, að hv. Ed. vill fella burt, að gæslustjórar ræktunarsjóðs sjeu skipaðir eftir till. búnaðarþingsins. Fjórða breyting hv. Ed. er sú, að feld er niður 34. gr. frv., þ. e. ákvæðin um, að ræktunarsjóðurinn skuli sameinaður ríkisveðbankanum, er hann verður stofnaður, og verða sjerstök deild í honum. Þessar till. hafa verið svo mikið ræddar hjer, að jeg sje ekki ástæðu til að tala nú um þær. Aðeins vil jeg geta þess, að meiri hl. nefndarinnar, eða 4 nefndarmenn, hafa komið sjer saman um að leggja til, að frumv. verði nú samþykt óbreytt eins og það kemur frá hv. Ed., svo að málinu sje ekki stofnað í neina tvísýnu með því að flækja því á milli deilda. En einn nefndarmaður, hv. 1. þm. Árn. (MT), hefir áskilið sjer óbundið atkvæði um málið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta nema sjerstakt tilefni gefist.