31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg verð að gera aths. út af því, að jeg get ekki lofað að vera fáorður. Það, sem jeg sagði í gær, var af þeirri ástæðu, að mjer var ekki svo í skapi, að jeg treysti mjer til að halda langa ræðu.

Jeg vil geta þess, að mjer þykir óviðkunnanlegt, þegar verið er að reikna það, utan þings og innan, hvað það kosti, að þm. láti skoðun sína í ljós hjer á þingi. Það gæti leitt til undarlegra hluta, svo sem að málleysingjar yrðu sendir á þing, eða annars þaðan af verra.

Þá ætla jeg að beina máli mínu til hv. frsm. meiri hl. (TrÞ). Það eru ekki beint deiluatriði, heldur ýmislegt, sem hann hefir misskilið, sem jeg ætla að tala um. Hann sagði, að jeg hefði sagt, að styrknum til Ingibjargar Guðbrandsdóttur hefði verið lofað. Það sagði jeg ekki, heldur hitt, að hann hefði verið veittur ár eftir ár.

Þá mintist hann á, að hv. fjvn. vildi ekki verða sammála um að veita þær tvennar 6000 kr., sem jeg fer fram á. Það er aðeins að nokkru leyti rjett, að rannsóknarför Pálma Hannessonar sje gerð í minningu Eggerts Ólafssonar, þó að minst væri á það í umsókninni, að hún bæri upp á sama ár og 200 ára afmæli Eggerts. En mjer þykir óþarfi að geyma unga og áhugasama vísindamenn, þótt ekki sje nema eitt ár. Það á að lofa þeim að taka til starfa strax, því að hvert árið, sem tapast af mannsæfinni, er miklu meira virði en slík smáupphæð. Mannsæfin er takmörkuð hjá vísindamönnum, engu síður en öðrum. Það getur munað því, að ef þeir fá ekki að byrja þetta árið, endist þeim ekki aldur til að fullgera starf siti. Jeg þekki mörg dæmi þess, og það veit jeg, að hv. þm. þekkja líka, og vona, að þeir sýni við atkvgr.

Hvað viðvíkur hinum liðnum, þakka jeg hv. 2. þm. Rang. (KIJ) fyrir að hafa mælt með minningarriti um Eggert Ólafsson. Sá styrkur er svo sjálfsagður, að það mundi spyrjast víða, ef Alþingi neitaði.

Hv. frsm. meiri hl. (TrÞ) mintist á, að Birni Halldórssyni væri ekki meiri virðing sýnd en að rita ritgerð í tímarit til minningar uni hann. En þetta er þannig fyrirhugað, að hver riti sína ritgerð um þá fræðigrein, sem hann var frömuður að hjer á landi. Og styrkurinn er reiknaður eftir arkafjölda, einungis til að greiða útgáfukostnaðinn. Ritlaunin gefa þeir, sem rita. Jeg vænti þess, að mönnum sje kunnugt, að sú er venja um heim allan, að heiðra mikla vísindamenn á þann hátt, að margir höfundar taka sig saman og rita um þá fræðigrein, sem vísindamennirnir hafa lagt stund á. Þetta vildi jeg taka fram, til þess að það ylli engum misskilningi. Jeg man, að jeg tók það ekki nógu ljóslega fram í fyrri umr. Hv. frsm. gat þess, að Íslendingar væru ávalt fúsir til að heiðra sín mikilmenni. Það væri gott, ef svo væri. En þar sem hv. frsm. meiri hl. er sögumaður mikill, ætti hann ekki að segja þetta, því að engin þjóð mun tregari til að heiðra mikilmenni sín, að minsta kosti ekki í lifanda lífi, en einmitt við Íslendingar. Það kann þá að vera 100–200 árum eftir dauða þeirra, og því væri undarlegt, ef hv. þm. vildu ekki nú sinna þessu. Hjer ætti ekki að komast að nein hræðsla um, að einum væri hossað meir en holt væri fyrir hina, en þess kennir mjög hjer á landi, og algengara er að halda öðrum niðri en að skara fram úr. Jeg er ekki meiri maður en það, að jeg er ætíð feginn, ef jeg fæ ástæðu til að virða eitthvað, sem aðrir hafa gert vel. Jeg trúi ekki, að menn hafi staðið mig að því að vera ófús á það, enda hefi jeg jafnt mælt með vinum sem óvinum, ef jeg hefi álitið, að þeir væru styrks maklegir eða þurfandi fyrir hann. Jeg hirði ekki um að nefna dæmi, þar sem jeg býst ekki við, að neinn vjefengi orð mín.

Þá gat hv. frsm. meiri hl. um „Móðurást“ Jónínu Sæmundsdóttur og sagði, að ef það væri hagsýni fyrir þjóðina að kaupa hana strax, væri engu minni hagsýni fyrir eigandann að selja hana ekki, fyr en hún hefði stigið í verði. En nú er það kunnugt, að magi manna þolir ekki að vera matarlaus í 365 daga, og jeg get hugsað mjer, að nokkrir 365 dagar líði, þangað til hún hefir stigið í verði. En á meðan er listamaðurinn svangur og klæðlítill. Það er sagt, að sá, sem hjálpi fljótt, hjálpi vel, og væri því óskandi að mynd þessi yrði keypt strax. Hins vegar er jeg ekki að mæla á móti því, að Alþingi greiði listamanninum meira en farið er fram á. Jeg er ekki að aftra því, og ef hv. þm. þykir hag hennar illa borgið, má hækka upphæðina.

Þá fór hv. frsm. meiri hl. nokkrum orðum um búnaðarfjelögin og lagði á móti styrk til þeirra. (TrÞ: Það er ekki rjett). Þá hefir hv. frsm. talað í nafni nefndarinnar. Hann hafði oft þau orðtæki, að þetta væri nú gott og þarft, ef maður gæti það. Jeg veit ekki, hvað hv. frsm. talar frá eigin brjósti og hvað í nafni meiri hl. nefndarinnar. Það má vera, að hann sje mjer sammála meir en ráða má af orðum hans.

Jeg get ekki játað, að þessar smátillögur sjeu yfirleitt ofvaxnar ríkissjóði nú. Hitt þykir mjer líklegra, að þó að allar tillögurnar verði samþyktar og þó að lausaskuldirnar verði borgaðar á 3 árum, sje nóg fje til þessa alls. Þess vegna finst mjer kraftlaus ástæðan, að ekki sje hægt að veita 25000 kr. til búnaðarfjelaganna, en hinsvegar mun vera erfitt að skifta 10000 kr. í svo marga staði. Það er hætt við, að hver skerfur yrði svo óhöfðinglegur, að menn hættu að líta upp til þeirra, sem veittu hann.

Hv. frsm. mintist því næst á fiskimatsmenn og kaup þeirra. Hann sagði, að nefndin hefði ekki viljað taka þetta upp, og hefði ekki haft tíma til að komast að neinni niðurstöðu. En þar sem jeg er heimskastur manna í nefnd, og hefi þó haft nægan tíma, er ekki óeðlilegt, að mjer finnist sú ástæða ekki sannfærandi. Jeg gæti tekið aftur till., ef jeg fengi fyrirheit frá nefndinni um að taka málið upp, annars ekki. Jeg vil þá heldur, að gengið sje til atkvæða um það.

Þá sagði hv. frsm., að jeg hefði borið fram tillögu um, að veitt yrði fje til lendingarbóta og varnargarða í Grindavík, en ekki tekið tillit til umsóknar frá Eyrarbakka. Tvent bar til þess, í fyrsta lagi, að í Grindavík urðu meiri skemdir en á hinum staðnum, og í öðru lagi vildi jeg ekki taka tækifærið frá háttv. þm. þess kjördæmis til að bera fram till. Jeg hjelt þeir mundu gera það sjálfir, og ætlaði jeg þá að greiða atkvæði með því, því að jeg tel, að landinu sje skylt að hlaupa undir bagga og hjálpa, þegar svo stendur á. Sjávarþorp, sem liggur fyrir opnu hafi og á erfitt útræði, þarf að hafa góða lendingu. Þess vegna er það stór hnekkir, ef lending er ótæk og varnargarðar skolast burtu, og sjórinn er ekki svo brjóstgóður, að hann kippi að sjer hendinni, sem hann hefir reitt til höggs. Alþingi hefir sýnt það með sjóvarnargarði á Siglufirði og í Bolungarvík og ýmsu öðru, að það telur sjer skylt að hjálpa, er svo stendur á. Því vænti jeg þess, að tillaga mín verði samþykt.

Þá mintist hv. frsm. á lánið til Reinhold Anderssons klæðskera, og sagði, að jeg hefði farið mörgum fögrum orðum um, að gott væri að búa að sínu. Jeg hafði þau orð, að hv. þm. vissu þetta betur en jeg, en vildi þó láta þá heyra þá skraddaraþanka, sem lágu á bak við till. Mjer virðist það ekkert stórt spor fyrir ríkissjóð, þó að hann láni nokkur þúsund kr. til að styðja að því, að menn geti klæðst í góð, íslensk ullarföt.

Þá væri það ekki svo afarmikill sparnaður við það, en það, sem af því leiðir. er það, að bændur fengju tryggari markað fyrir vöru sína, og að borga vinnu dúkanna og saum allan innlendu fólki. Alt þetta væri svo mikils virði, að ríkið gæti lagt í þá miklu hættu að lána 20000 kr., gegn þeirri tryggingu, sem það tekur gilda, til þess að stíga gott spor í þessa átt. En jeg skal ekki þreyta þetta frekar; jeg bað menn í fyrri ræðu minni að koma með ástæður mjer til handa, svo að jeg gæti öðlast betri þekkingu, ef jeg færi með eitthvert skaðræðismál, en það hafa engir gerst til þess, svo að jeg viti, að bera fram rök á móti þessari skoðun.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. (TrÞ) um loforð þingsins og mín orð þar að lútandi, og síðast brtt. mínar, og þar er það helst, að okkur ber á milli, því að mjer skilst, að okkur hafi ekki borið svo mikið á milli, að minsta kosti ekki sem þingmönnum, heldur af því að hann sje fyrirsvarsmaður nefndarinnar og verði að halda öðru fram en jeg. Hv. þm. (TrÞ) sýndist ekki hafa tekið eftir því. hvað jeg tel fyrirheit þings og loforð, og nefndi nokkur dæmi þess, að þingið hefði ekki brigðað loforð sín. Hv. þm. (TrÞ) nefndi t. d. það, að þingið hefði ekki skorast undan að greiða andvirði hluta, sem það hefði keypt fyrir umsamið verð. Mikið rjett. Það gerir þau loforð og fyrirheit, sem það er skylt til að efna. En það eru líka önnur loforð, sem eru engu ómerkari, en sem þingið hefir brigðað. Jeg skal til dæmis minna á það, að eitt árið tók þingið það til bragðs að semja við smið einn hjer í bæ, sem heitir Einar Erlendsson, um að hann skyldi vera ráðinn aðstoðarmaður hjá húsameistara ríkisins fyrir ákveðið kaup, 7000 kr. á ári. Það var veitt í fjárlögum til þessa starfa og maðurinn tók hann að sjer, en þurfti að afsala sjer öðru starfi launuðu. Nú munu allir hafa álitið, að þingið vildi halda þessum manni í stöðunni, enda mun hann sjálfur hafa gert sjer vonir um það, því að enginn segir af sjer launaðri stöðu, til þess að fá ekkert í staðinn. En næsta þing veitir ekkert til starfans, og þá er of seint fyrir manninn að ganga í sitt fyrra starf. því að þar er þá annar kominn. Það er sama að segja um dr. Alexander Jóhannesson, og sama um Jóhannes L. Jóhannsson, sem átti að fá uppbót á launum sínum, án þess að farið væri að rífast um það, hvort hann hefði þúsund krónunum meira eða minna. Þetta er að brigða loforð sín, og þetta myndi jeg ekki telja mjer samandi að gera. Þess vegna vildi jeg, að því væri bætt inn í þessa grein, að fyrirheit þingsins skuldbindi til frekari fjárveitinga, því að það er óviðeigandi og ósæmilegt um fjárveitingu sem þá, er jeg nefndi áðan, að hún gildi aðeins fyrir eitt ár, heldur á það að vera svo, að loforð konungs og fyrirheit Alþingis eiga að tryggja, að þetta komi aftur á næsta fjárhagstímabili. Jeg skil það ekki, að hv. þm. geti haft neitt á móti því að samþykkja þessa brtt., því að þinginu ætti ekki að þykja minna um vert sitt eigið loforð heldur en um konungsúrskurð, sem þó er ekki annað en stjórnarráðstöfun. Jeg geng því að því vísu, að hv. þm. muni samþykkja þetta, en ef einhverjum þykir þessi breyting ekki koma rjett við fyrri hluta gr., þá er hægast að taka brtt. aftur til 3. umr. og breyta um orðalagið, en jeg held, að hún muni gefa jafnglögga meiningu sem greinin í sjálfu frv.

Annars vil jeg þakka hv. þm. (TrÞ) og nefndinni, sem vildi vel gera til mín og minna tillagna, með því að fallast á sumar en gera úrlausn á sumum. Jeg vil fara nokkrum orðum um eina þeirra; það er 21. liðurinn, til rannsóknar á því, hvern veg best verði tengd við sjávarafla fyrirtæki bygð á íðefnafræði. Það er með þetta alveg eins og aðrar framkvæmdir til atvinnubóta í landinu, að menn segja, að það megi bíða, það sje ekkert tjón að því; en þetta er alls ekki rjett, því að með því að bíða missist sá hagnaður, sem annars mundi unninn, ef breytt hefði verið, og því fyr sem breytt er, því fyr fá menn gróðann, og því er það ekki annað en blátt áfram gróðafyrirtæki að leggja í þetta.

Jeg vildi ekki nefna menn, sem líklegir væru til þessa starfa, en jeg skal nú minnast á, að það eru tveir menn í bænum, sem hvor um sig eru líklegir til að verða að gagni við þetta; annar þeirra er Trausti Ólafsson, sem nú er embættismaður í þjónustu ríkisins, og því líklega bundinn, en hinn er Ásgeir Þorsteinsson, efnafræðiverkfræðingur, ímynda jeg mjer, að þessu máli væri vel komið, hvor þeirra sem væri settur til þess að rannsaka þetta, Og efast jeg ekki um, að þeir mundu gera miklar umbætur á þessari framleiðslu, lýsisframleiðslunni, til stórgróða fyrir landið, og jafnvel fyrir ríkissjóð. Það er með þetta sem annað slíkt, hvort sem það er til landbúnaðar eða sjávarútvegs, að jeg tel mjer skylt að fylgja fram þeim málum, sem jeg sje að muni bera ávöxt þegar á næstu árum og eru þannig, að ekki þýðir neitt að fresta þeim. Ber jeg það traust til hv. þm., að þeir sjái, að slík fyrirtæki mega ekki liggja, ekki geyma þau frá ári til árs. Það er miklu meiri hagur að því að byrja á sjálfsögðu gróðafyrirtæki og vinna bót á atvinnuvegum landsins heldur en að horfa í það, þó að þurfi að borga nokkuð af vöxtum í nokkur ár. Það er ósköp algengt dæmi, að á meðan ærin kostaði 12 krónur, var hún leigð án endurnýjunarskyldu fyrir 2 kr., og menn tóku ærnar á leigu og það margborgaði sig, af því að þær gáfu ekki af sjer 15–16%, heldur jafnvel 30–50%. Eins er það með öll fyrirtæki, stofnuð til atvinnubóta, þau gefa margfaldan gróða við það, sem vextirnir af ánni verða við þá upphæð, sem varið er til hennar. Þetta er algengt reikningsdæmi, sem jeg veit, að hver einasti þingmaður kann að reikna betur en jeg, svo að jeg býst ekki við, að þeir þurfi mikið að læra af mjer í þessu efni, sem ekki er annað en ljelegur málfræðingur, en samt mundi nú þetta reynast rjett, ef hv. þm. vildu athuga það og hefðu ekki gert það áður.

Jeg skal svo hverfa frá atvinnuvegunum og minnast lítillega á eina till. fjvn., sem hv. frsm. (TrÞ) gat um, 20000 kr. til þess að reisa nýja hjeraðsskóla í sveitum. Þar hvarf öll nefndin að einu ráði, að setja þetta fje, ekki beinlínis til þess að menn gætu hafist handa eða reist marga skóla, heldur til þess að byrja á þessari fjárveitingu og til að setja fastar reglur um, hvernig verja skuli þessu fje. Þetta er sjálfsagt fyrsti liður í fjárlögum með þessum skilyrðum, því að liðurinn í fjárlögunum 1920 ætla jeg að hafi verið til þess að reisa hjeraðsskóla að 2/3 hlutum kostnaðar. En þetta er gert til þess að styrkja það, að menn geti fengið góða gagnfræðamentun þar í sveit, sem skólinn er.

Þá vil jeg minna á annað atriði, sem heyrir að nokkru leyti undir atvinnuvegi. Það er Skeiðaáveitan; jeg veit ekki betur en að slík atvinnufyrirtæki eigi að vera svo, að þau borgi sig, því að það er ekki hyggilegt að ausa út, hvorki landsins fje eða einstakra manna, í það sem ekki ber sig. En til þess að slíkt beri sig, þurfa mennirnir að geta aukið bú sitt jafnóðum og grasið vex, og það verður ætíð jafnhliða að hugsa fyrir því, að eitthvað sje til af ferfættum skepnum til þess að jeta það, en bændur eru ekki svo vel staddir nú, að þeir geti af eigin ramleik aukið bú sín, svo að nokkru nemi. En til þessa hafði Landsbankinn hugsað sjer að styrkja þá, með því að sjá þeim fyrir lánsfje með ekki háum vöxtum, til þess að auka með bústofninn. Þetta er eina færa leiðin, og þá hefði ekki þurft að bíða lengi eftir því, að þetta fyrirtæki bæri sig; en án þess að framleiðslan aukist og það, sem menn fá upp úr jörðinni, er það ekki hægt. Það er svo oft, að menn leita langt yfir skamt og eru með bollaleggingar um fyrirmyndarbú og annað þess háttar, en gá ekki að því, að það mun seint að bíða eftir þeim lærdómi, sem fæst með tilraunabúum, ef þau þá ekki fara á hausinn, þó að bændurnir standi sig vel.

Þá er orðabókarstyrkurinn. Þegar þessi styrkur varð fyrst til, þá var það grímuklæddur lífsuppeldisstyrkur til ákveðins manns, en þegar hans misti við, fór jeg fram á, að honum yrði varið til þess að semja vísindalega orðabók. Þetta fyv. tæki, sem er alveg nauðsynlegt, mun verða þeim mönnum, sem því hafa fram komið, til mikils sóma hjá öldnum og óbornum, og það mundi halda uppi nöfnum þeirra manna, hversu langsýnir þeir hafi verið, því að vísindaleg orðabók er sá lífsbrunnur, sem tungan á að ausa úr á ókomnum öldum. Gekk vel á meðan Björn frá Viðfirði og annar maður til unnu að þessu, en eftir að hans misti við, var einn maður látinn sitja að þessu starfi. En það vita allir, að slíka orðabók semja ekki færri en 4–5 menn á 25 árum í besta lagi, svo að þetta er ekkert nema kák, og svo, í stað þess að bæta við fjórum mönnum eða fimm, hefir Alþingi altaf verið að naga af þessum eina manni laun hans. En það er þó von um, að orðasöfnun komist nokkuð á leið, ef tveir menn vinna að henni, og þó að jeg telji Jóhannes Lynge vinna mjög mikið og vera starfsaman og manna best fallinn til þessa, getur þó ekki spilt til, að annar maður, sem orðinn er allvanur og veit hvernig á að gera þetta, fái líka styrk. Jeg heyri, að hæstv. fjrh. (JÞ) segir, að það sje til þess að tína spörð. Já, það mætti nú minna á gömlu vísuna:

Grammatíkus greitt um völl

gekk með tínukerin;

hirti spörðin, eg held öll,

en eftir skildi berin.

En þetta er sagt til óvirðingar málfræðinni, en hitt er víst, að það er ekki ætíð hægt að sjá það í fyrstu, hvort það er ber eða sparð, sem fundið er; en þrátt fyrir það mundi það ekki kölluð samviskusamleg orðasöfnun, ef gengið væri framhjá því, sem kallað er spörð, eða slettum eða óorðum, því að það getur vel verið, að það sje rót af gömlu orði. Hvað sega menn t. d. um þetta: Það kvu vera gott veður í dag. Nú er vanalega skrifað: „Það kvað vera gott veður í dag“, en það er ekki rjett. Hjer er rótin kveður, en það dregst eftir rjettum reglum saman í kvu. Jeg er nú ekki að segja þetta af minni visku, heldur varð mjer þetta fyrst fyrir, af því að þetta var einmitt eitt af þeim dæmum, sem Jón Þorkelsson, skólastjóri, sagði okkur frá, sem þá vorum ungir. Jeg tek þetta sem dæmi um það, að það getur oft sýnst mönnum, sem ekki eru fróðir um þessi mál, að það sje alls ekki rjett að tína slík spörð. En það er rjett að hirða alt, því við nákvæmari athugun má láta það liggja eftir, þegar farið er að gefa út, en ekki rjett að missa af góðum orðmyndum, þó að þær kunni að sýnast spörð. Og ekki síst af því, að það þarf líka að safna til bókarinnar, ekki aðeins úr bókum, heldur líka um öll hjeruð lands, á að hafa minst tvo menn við bókina, en þingið þykist kannske ekki mega við því að hafa tvo menn fasta við orðabókina.

Það var víst hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), sem var að tala um listir, að Íslendingar væru einkennilega leiknir í orðsins list. Þetta er rjett. Íslendingum hefir best látið orðsins list að fornu, þó að nú sjeu þeir, sem betur vita, bæði skáld og aðrir, farnir að taka upp að raða orðum og setningum svo sem útlendingar eru vanir að gera, en ekki sem forfeður þeirra. Er þetta þó ekki til bóta fyrir þá, því að í harpljóðagerð mundu Íslendingar að mínu viti fult eins framarlega og aðrar þjóðir, og jeg þori vel að bera saman Jónas Hallgrímsson og sjálfan Goethe eða Schiller, sem annars eru taldir með heimsins bestu ljóðskáldum. Og um listgáfu þeirra á öðrum sviðum, bæði fyr og síðar, vil jeg benda á, að það er gefin út teiknibók af norskum fræðimanni; þar eru allskonar stafir, drættir og teikningar frá miðöldunum, listavel gert, en síðan þessi morgunroði myndlistarinnar á Íslandi rann upp með Einari Jónssyni, verður ekki annað sagt en að niðurstaðan sje í alla staði ágæt og langt fram yfir það, sem nokkur maður þá hefði getað vonast eftir, hversu bjartsýnn sem hann væri.

Nú skal jeg játa það, að Alþingi hefir farist heiðarlega við Einar Jónsson myndhöggvara, en það er ætíð gleymt þessari knýjandi nauðsyn, sem er ástæðan til þess, að Íslendingar verða að styrkja slíka menn meira en aðrar þjóðir; það er af því, að við erum svo fámennir, að enginn listamaður, hversu fullkominn sem hann er, getur haft atvinnu af sinni list, og eigi hann ekki að slökkva þann guðdómsloga, sem í honum brennur, verður að hlaupa undir bagga með honum; það eru mennirnir, sem sjálfir ákveða sig til fórnardauða fyrir sína þjóð, því að það er reglulegur fórnardauði að lifa með sultinn fyrir rekkjunaut og dauðann fyrir dyrum. Menn skulu því ekki láta sjer koma það neitt á óvart, þó að jeg hafi bætt nokkrum till. við það, sem nefndin kom með. Jeg hefi haldið því fram, að þessar upphæðir ætti að veita allar í einu lagi og það ætti helst að vera sjerstök nefnd, sem útbýtti þeim styrk, sem veittur er.

Nú hefir háttv. meiri hl. fjvn. tekið út úr sjerstaklega tvo menn, sem hann vill láta gera vel við fremur öðrum, og er því hægur eftirleikurinn fyrir mig að telja einnig upp nokkur nöfn, og jeg get frætt háttv. þingdeild á því, að þó að jeg hafi hjer komið fram með nokkur nöfn manna í þessu sama skyni, að þá hefi jeg ekki nándar nærri tekið upp alla þá menn, sem sjerstök ástæða væri til að nefna. Jeg hefi t. d. tekið Björn Björnsson. Jeg hefi áður lýst því, hvers vegna þessir menn ættu að eiga heimting á styrk til náms síns og annars. Björn Björnsson er ungur sem listamaður, en þó ekki óreyndur. Hann er marghliða og er efnilegur á mörgum sviðum listarinnar. Hann hafði hjer sýningu í haust, og verk þau, er hann sýndi þar eftir sjálfan sig„ sönnuðu þetta fullkomlega. Þar var svo að sjá, sem honum ljeti alt jafnljett: að sýna sorgina, gleðina, fyndni og gaman og háðið; alt ljet honum jafnvel.

Jeg þekki ekki þennan mann persónulega, og er það ekki af neinum ástæðum því líkum, er jeg nú legg það til, að þessum manni verði gert kleift að halda áfram háskólaveg listamanna, –að hann megi ná að ferðast suður til Rómar og sjá þar það, sem göfgast er fornrar listar, — listar, sem engir fyr nje síðar hafa komist jafnfætis, því síður fram úr.

Jeg hefi tekið upp nafn Halldórs Guðjónssonar, sem kallar sig Kiljan Laxness, og jeg ber þennan mann fram vegna þess, að jeg álít, að hann eigi að eiga kost á að gefa sig eingöngu við skáldskaparlistinni. Hann sýnist vera fæddur til listarinnar og vera einn af þeim mönnum, er sjerstæðir eru og verða að fá að njóta sín á sínu sviði, eða hvergi ella, og er því auðsætt, að Alþingi ber skylda til að hjálpa þessum manni til að ná fullum þroska.

Þá hafa nokkrir aðrir háttv. þm. komið fram með Stefán frá Hvítadal. Jeg er enginn spámaður eða svo fjölvís að bókviti, að jeg geti jafnað mjer við háttv. fjvn., og jeg skal heldur ekki telja úr, þótt hún hafi tekið þar út úr tvö skáld. Þann styrk, sem þau eiga samkv. því að fá, tel jeg ekki eftir, en jeg þykist þó bera eins mikið skyn á þessa hluti og hver óvalinn maður annar, og sje því og veit, hvað gott er af því, sem fram hefir komið á þessu sviði listarinnar, og án þess að vilja draga neitt úr lofi annara, held jeg því þó hiklaust fram, að Stefán frá Hvítadal ber stórum af öðrum skáldum, sem nú eru uppi á Íslandi. Hann er þróttmestur allra núlifandi skálda og fer manna best með efni þau, er hann yrkir um, og málfæri hans er víða afburða gott. Enda mun það sannast, að svo mun framtíðin dæma hann. Jeg greiði því með ánægju þessari brtt. atkvæði mitt.

Jeg læt svo nægja þessi fáu orð mín um þessi atriði og læt mjer ekki koma annað til hugar en að háttv. þingdeild samþykki þessar brtt. mínar allar. En á einu vil jeg þó að síðustu vekja athygli hv. þm., hversu þessi styrkur til skálda og listamanna hefir gengið úr sjer hin síðustu árin; hann var kominn upp í 12 þús. kr. fyrir stríð, og ætti ekki að hafa minkað eins og raun er á orðin, því að eftir kaupgildi peninganna ætti hann að minsta kosti að vera 24 þús. kr. á þessum tímum. En jeg get ekki sjeð, að hægt sje að lifa á tölum einum og núllum, og því er ekki rjett að kippa að sjer hendinni með styrkveitingar til þeirra hluta, sem dýrmætastir hafa reynst þessari þjóð. Hvaða dýrmæti ættum vjer nú, ef ekki hefðum vjer átt Snorra, Eddurnar o. s. frv. ? Af hverju hefðum vjer þá að stæra oss? Eða hverjir ætli vjer værum þá, nema einhverskonar Grænlendingar, sem engir vildu sjá eða heyra, nema ef til vill jeta, ef bitastætt væri? Fyrir hvað erum vjer nú sjálfstæð þjóð, ef vjer kunnum með að fara, nema fyrir snilli skáldanna okkar frá fornu og alt til vorra tíma? Og hví ættum vjer ekki að reyna að feta í fótspor þeirra, ef vjer viljum frjálsir vera áfram? En það gerum vjer með því að veita athygli og styrkja þá ungu menn, er jeg ræddi um áðan, og jeg vænti, að hv. þm. sýni þetta með atkvæði sínu í kvöld.