12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

20. mál, verðtollur

Ásgeir Ásgeirsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú lýst því fyrir oss þm., að umræddur verðtollur sje ekki hærri en svo, að samsvari því, er þjóðin græddi á verðhækkun ísl. krónunnar. Þetta er engin sönnun þess, að tollurinn hvíli ljett á þjóðinni, heldur þvert á móti. Hann er þungbær, ef hann drekkur í sig allan hagnað, sem þjóðin hefði að öðrum kosti haft af hækkun krónunnar. Hæstv. ráðh. játaði, að tollurinn kunni að vera þungur á sumum nauðsynjavörum, en því er nú svo farið um þennan toll, að hann var afgreiddur í flaustri sem neyðarúrræði, þegar allar sómasamlegar tekjulindir virtust þurausnar eða hættar að renna. Hann var aldrei ætlaður til þess að greiða með honum lausaskuldir ríkissjóðs, heldur var hann ætlaður til að jafna með honum væntanlegan tekjuhalla og bjarga ríkinu úr öngþveiti. Nægir mjer þessu til sönnunar að vitna í ræður hæstvirtra atvinnu- og fjármálaráðherra á þingi í fyrra, er lögin voru í smíðum. Þá var þessi tollur settur í náið samband við aðflutningshöftin og kom þá yfirlýsing á fætur yfirlýsingar frá stjórninni um, að undanþágur frá innflutningshöftunum yrðu veittar þannig, að verðtollurinn aflaði þeirra tekna, sem þyrfti til að standast útgjöldin á því ári. Því skyldu menn ætla, að stjórnin mundi vilja leggja hann niður nú, þegar tekjuhallahættan er hjá liðin. Hafa og borist víðsvegar að háværar raddir þess efnis og frá mörgum flokkum manna. En nú er ekki útlit fyrir, að þær raddir fái áheyrn, og hefir það vakið undrun margra, að stjórnin tók það ráð að bera þetta frv. fram. Að vísu er ekki beðið um meira en 3 mánaða framlenging til þess að lögin fjellu ekki úr gildi áður en annar sanngjarnari tollur komi í staðinn. Jeg sje ekki annað en að ofurauðvelt sje að girða fyrir þessa hættu með því að afgreiða málið nú á þann veg að breyta verðtollinum í verðtoll á óhófs- og munaðarvörum, en hann mætti vera snögt um hærri en verðtollurinn er nú. Þessara breytinga hefir þjóðin og margir hv. þm. æskt. Og jeg vænti þess fastlega, að frv. um slíkar breytingar yrði lagt fyrir þetta þing, og það af þrem ástæðum. Fyrst er það, að verðtollslögin voru flaustursverk, og þyrftu því nákvæmrar endurskoðunar við, ef þau ættu að gilda áfram. Í annan stað hvílir tollurinn nú bæði á óþörfum og líka allþungt á ýmsum þörfum varningi. En aðallega treysti jeg þessu vegna þess, að tímarnir hafa breyst svo mjög frá því á síðasta þingi, að ef ástandið hefði þá verið svipað og nú, þá hefði engum dottið í hug að lögbjóða verðtollinn í því formi, sem gert var. Og þegar allar aðstæður eru svo breyttar, þá er ekki að furða, þó að þess verði krafist, að þjóðinni verði sniðinn stakkur eftir hinum breyttu ástæðum í tolllöggjöf þessari.

Jeg býst við því, að á þessu þingi verði þess krafist, að aðflutningshöftin verði afnumin vegna breyttra ástæðna þjóðarinnar fjárhagslega, og jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að svo beri að gera. En þó að innflutningshöftin sjeu neyðarráðstöfun, þá er verðtollurinn enn meiri neyðarráðstöfun, og því enn meiri ástæða að taka kröfur um afnám þessa háa tolls á ýmsum nauðsynjum til greina. Hjer var frv. á dagskrá í dag, sem stefnir að því að leysa hæstu tekjur síðastliðins árs undan skatti að meira eða minna leyti. Þeim, sem finst nauðsyn bera til að ljetta skattabyrðinni af þeim, sem mest græddu á næstliðnu ári, ætti að finnast enn meiri nauðsyn að leysa alla alþýðu manna, sem ekki hefir notið þessa veltiárs á annan hátt en þann, að fá greitt sitt venjulega kaup, undan svo þungum álögum, sem verðtollurinn er á fjöldamörgum nauðsynjum alls almennings í landinu. Af þessum ástæðum vænti jeg þess, að nefnd sú, sem fær frv. þetta til meðferðar, geri á því og núgildandi verðtollslögum þær breytingar að undanþiggja allar nauðsynjavörur tolli þessum; láta hann hjer eftir hvíla á þeim vörutegundum einum, sem telja má óþarfar eða miður þarfar öllum landslýð. Mætti þá gjarnan hækka tollinn á þessum varningi, og það að mun.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess, að samkv. fjárlagafrv. því, sem nú hefir verið lagt fyrir þingið, þyrfti verðtollsins með, til þess að þau yrðu afgreidd tekjuhallalaus. En segjum nú svo, að hætt verði við að leysa hátekjur ársins 1924 undan tekjuskatti á þessu ári, þá áskotnast ríkissjóði þar ekki alllítil fúlga, sem ekki er gert ráð fyrir í núgildandi fjárlögum. Og jeg þykist vita, að hvernig sem því frv. reiðir af, þá verði þó aldrei samþykt að láta það koma til framkvæmda við álagning tekjuskatts fyrir síðastl. ár. Ennfremur má benda á það, að togaraflotinn hefir aukist talsvert á síðustu mánuðum, og hefir sú aukning óhjákvæmilega talsverðan tekjuauka í för með sjer ríkissjóði til handa, jafnvel þó aflabrögð í ár verði ekki nema í meðallagi. Þannig má benda á ýmsar leiðir, jafnvel leiðir, sem hæstv. stjórn hefir af óskiljanlegum ástæðum látið undir höfuð leggjast að fara. Á jeg þar t. d. við frv., sem lá fyrir þinginu í fyrra og flestir virtust fylgja þá, en þó var drepið á síðustu stundu fyrir undravert glapræði. Jeg gerði ráð fyrir því, að hæstv. stjórn mundi nú bera það frv. fram aftur, en þó að sú von mín ætli ekki að rætast, þá er jeg þess fullviss, að málið verður vakið upp á þessu þingi.

Annars var það ekki ætlun mín að reikna út, hvernig best megi afgreiða tekjuhallalaus fjárlög. Jeg læt mjer að sinni nægja að fullyrða, að það er hægt með ýmsu móti, þó að þessi rangláti verðtollur verði afnuminn af nauðsynjavörum.