31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Kjartansson:

Jeg bjóst ekki við að þurfa að taka hjer til máls í þetta sinn, en það voru ummæli hv. þm. Str. (TrÞ), sem gáfu mjer tilefni til að standa upp. Háttv. þm., sem er frsm. meiri hl. fjvn. þessa kafla fjárlagafrv., sagði, að það hefði verið ákveðin stefna hv. fjvn. að veita engar uppbætur til sjúkraskýla eða skóla, því að ef fara ætti inn á þá braut, þá mundi hliðið opnað og erfitt að stöðva rás þess fjölda af slíkum og þvílíkum brtt., sem á eftir mundu fara; en þær mundu áreiðanlega margar verða.

Við þessu hefi jeg því að svara, að hjer er ekki farið fram á að opna neitt hlið eða veita neina innrás. Það, sem háttv. frsm. fyrri kafla fjárlagafrv. (ÞórJ) sagði um þetta, er jeg bar fram brtt. mína um viðbótarstyrk handa þessu læknishjeraði, mátti e. t. v. segja, að verið væri að skapa fordæmi, og get jeg að vísu ekki neitað, að hann hafi þar haft nokkuð til síns máls, þótt jeg hins vegar hafi lýst því þá, að það stendur alveg sjerstaklega á með Síðuhjerað. Eins gæti jeg viðurkent, að hjer gæti verið að ræða um að skapa fordæmi, ef þegar á næsta þingi eftir að hafa fengið viðlagasjóðslán væri farið fram á eftirgjöf á því láni. En sú leið virðist nú vera að tíðkast hjer á Alþingi, fyrst að fara fram á viðlagasjóðslán og síðan að fá lánið gefið eftir. Slík aðferð er ekkert annað en grímuklæddur styrkur. En þetta er alls ekki tilgangurinn hjer. Við biðjum aðeins um hagkvæmara lán, til þess að hægt verði að losna við hvumleið víxillán, sem bændur þar eystra standa fyrir og ábyrgjast. Þessi brtt. mín er að sumu leyti skyld till., er hv. þm. Dala. (BJ) bar fram við umr. um fyrri kafla fjárlagafrv., um styrk til Breiðafjarðarbátsins Svans, þar sem farið var fram á styrk úr ríkissjóði til þess að losa einstaklinga undan þungri ábyrgð, sem þeir urðu að taka á sig vegna Breiðafjarðarbátsins. Þó er hjer á sá munur á minni till. og till. hv. þm. Dala., að hv. þm. Dala. bað þingið að hlaupa undir bagga með og styrkja með beinu fjárframlagi, en jeg fer aðeins fram á lánveitingu úr viðlagasjóði. Brtt. hv. þm. Dala. fjekk góðar undirtektir, þótt ekki yrði hún samþykt þá, heldur látin bíða til 3. umr., en þá má telja víst, að einhver miðlunartillaga verði samþykt.

Háttv. þm. Str. (TrÞ) sagði það ekki vera tilgang meiri hl. fjvn. að láta Vestur-Skaftfellinga verða hart úti, og er jeg honum þakklátur fyrir það; en ef hann nú leggur til að neita um samþykt þessarar brtt. minnar, en vill samþykkja ýmsar aðrar ekki ósvipaðar brtt., er þá varla hægt að verjast því að álíta þá verða hart úti, er fyrir neituninni verða.

Jeg vænti svo, að hv. þm. sjái, að hjer er um sanngirnismál að ræða, að losa menn af óhagstæðum víxlum, er þeir hafa orðið að ábyrgjast fyrir hjeraðið, en láta þá fá hagfeldari lán í staðinn. Þetta er engin styrkbeiðni, og eftirgjöf á láninu verður aldrei farið fram á. Lánið mun verða greitt, alveg eins og þessir menn verða að greiða víxlana nú, ef þeir verða ekki leystir af þeim með viðlagasjóðsláni.