28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

20. mál, verðtollur

Sigurjón Jónsson:

Það var ræða hv. 1. þm. N.-M. (HStef), sem kom mjer til að taka hjer til máls, því jeg vil ekki láta henni ómótmælt. Háttv. þm. mælti þar fram með brtt. á þskj. 305, sem hann o. fl. eru flm. að, um að lagður skuli 10% verðtollur á niðursoðna mjólk. En jeg vil benda þessum og öðrum háttv. þm. á, að sú vara, sem þeir þannig vilja tolla, er hin almesta nauðsynjavara bláfátækasta fólksins í kaupstöðunum og sjávarþorpunum, líklegast fátækasta fólksins á landinu, og það er aðalnauðsynjavara þessa fólks, sem háttv. þm. eru að mælast til að verði tolluð, því að efnaða fólkið þar sem annarsstaðar aflar sjer mjólkur, auk annara nauðsynja, án tillits til verðlags á þeim. En fátæka fólkið verður líka að kaupa þessa mjólk nærri því hvað sem hún kostar, og það þarf því meiri mjólk, sem fjölskyldan er stærri. Hjer er því algerlega farið inn á ranga braut í skattamálum, því það verður aðallega fátæka fólkið, og það fátækasta, sem verður að greiða þennan verðtoll. En ef það er, að svo hafi verið tilætlast af háttv. flm. brtt. á þskj. 305, hví báru þeir þá ekki heldur blátt áfram fram till. um að leggja nefskatt á fátækasta fólkið við sjávarsíðuna? Gátu þeir þá ákveðið upphæð nefskattsins þeim mun hærri, sem fjölskyldan var stærri og börnin þar fleiri. Þetta mundi alveg koma í sama stað niður og þessi 10% verðtollur á niðursoðinni mjólk, en aðferðin væri þó miklu hreinlegri og betri, sem einarðlegar væri að þessu gengið af háttv. flm. brtt. á þskj. 305.

Háttv. flm. brtt. á þskj. 305 setja þetta í samband við mjólkurniðursuðufyrirtæki í Borgarfirði, en til þess er engin ástæða. Það er að vísu satt, að við 3. umr. fjárlagafrv. í Nd. var feld, og það af klaufaskap, tillaga um að veita þessu fyrirtæki dálítinn styrk. Jeg segi af klaufaskap, því að margir þeirra, sem greiddu atkvæði á móti þeirri till., sem fór fram á toll á erlendri niðursoðinni mjólk, mundu hafa greitt atkvæði með hreinni styrkveitingu til fjelagsins, ef ekki hefði verið búið að rugla þessu saman við verndartoll á innlendri mjólk. Jeg er viss um, að þeir mundu verða með því að styrkja þetta innlenda iðnaðarfyrirtæki, ef það á engan hátt gæti orðið til þess að gera fátækasta fólkinu örðugra fyrir með að afla sjer þessarar vöru; en slík verndartollssamþykt mundi verða til þess, að það yrðu hreinustu blóðpeningar, sem á þann hátt næðust í ríkissjóð. Innlenda mjólkin verður að sætta sig við það að keppa við þá erlendu, og fer verðið þar að jafnaði hlutfallslega eftir gæðunum. Það er ekki ætíð ódýrasta mjólkin, sem selst best eða mest gengur út af. Fólk, sem kaupir daglega 1–2–3 dósir af mjólk, veitir gæðum mjólkurinnar fyllilega athygli og hagar kaupunum eftir því. Jeg skal að öðru leyti ekki blanda mjer í þessar umræður, er jeg á enga brtt. sjálfur, en full ástæða væri þó til að taka til athugunar getsakir hv. 1. þm. N.-M. (HStef) í garð Íhaldsflokksins um það, að hann hefði brugðist skyldu sinni við ríkissjóð eða líti sínum augum á framleiðslufyrirtækin eftir því, hvort þau væru rekin í kaupstað eða í sveit. En þó mun jeg leiða hjá mjer að eiga orðastað við þennan háttv. þm. að svo stöddu; enda mun þetta aðeins hálmstrá eitt vera, sem þingm. ætlar að hafa til að bjarga sjer á, er hann gengur frá sannfæring sinni í þessu máli, en notar þá tækifærið um leið til að gera Íhaldsmönnum upp þær getsakir, að þeir greiði ekki atkvæði eftir sannfæringu þeirra. Þingmanninum finst betra að hugsa sjer þetta, vegna þess, að hann sjálfur er að brjóta í bág við sína skoðun í málinu.