28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

20. mál, verðtollur

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg ljet svo um mælt um þetta mál við 1. umr., er frv. var sent til nefndar, að jeg skyldi greiða því atkv., ef undanteknar yrðu allar nauðsynjavörur, en aðeins tollaður óþarfinn og munaðarvörurnar. Þó skal jeg játa, að óþarfinn er heldur ekki fylgislaus hjer á þingi; enda miðar margt af því, sem nefnt er óþarfi, til þess að gera lífið þægilegra og í ýmsu skemtilegra. En þessháttar vörur eru þó mestmegnis keyptar af þeim, sem góð efni hafa, og þess vegna er þó fremur hægt að leggja toll á óþarfavarning, enda þótt alls ekki verði hægt að greiða atkv. með tolli á vörum, sem nauðsynlegar eða þarfar verða taldar. Þess vegna álít jeg ekki vera sæmilegt, að ríkið afli sjer tekna með 20% tolli á allflestum vörum, sem almenningur þarfnast sjer til viðurhalds, og það hefir auk þess ýms ill áhrif á þegna þá, sem þessa tolla eiga að gjalda. Hvað verndartollana áhrærir, skapa þeir altaf, enda þótt það sje alt annar tilgangurinn með þá, óheilbrigt ástand. Þeir koma smátt og smátt því ástandi á, að gagn það, sem þeir áttu að vinna, verður að engu, en geta oft að lokum skaðað þær iðngreinir, er þeir áttu að hlynna að. Þó er sök sjer þegar verndartollur verndar innlendan iðnað, en þá færist skörin upp í bekkinn, þegar 20% verðtollurinn verður verndartollur fyrir erlendan iðnað. Við sjáum t. d., að 10% verðtollur er lagður á bókbandsefni, en hinsvegar ekkert á erlendar bækur bundnar. Þetta er því verndartollur fyrir erlent bókband.

Það voru mjer og fleirum vonbrigði, hvernig frv. kom frá fjhn. Meiri hl. hefir að vísu reynt að flokka vörur betur en áður, en mjög er sú flokkun af handahófi. Þannig er 30% verðtollur á úrum og klukkum. Ekki virðist þó stundvísin of mikil í landinu. Undir þessum tollflokki er og tin, nikkel og silfur, enda þótt hlutir úr þessum efnum sjeu jafnnauðsynlegir fyrir fátæka sem ríka, nema því aðeins, að nefndin ætlist til, að við sleppum hníf og gaffli og tökum upp þann gamla þjóðlega sið að borða með sjálfskeiðingi og fingrunum. Þá er og ýmislegt í 10% tollflokknum, sem hefði átt að vera undanþegið öllum tolli. Má þar nefna helgrímur, heymæla, hval, sem er ódýr og góð fæða, nálar og fleira. Þó má þakka meiri hl. það, að hann hefir undanþegið kensluáhöld, er hafa verið tollskyld undanfarið fyrir vangá.

Minni hl. vill fara aðra betri leið. Vill hann fella niður verðtollinn smátt og smátt, og þótt hann færi hann nú ekki nema niður í 15%, mun jeg þó greiða þeirri till. atkv. mitt. En ef sú till. verður feld, treystist jeg ekki til að vera með frv.

Annars ætti það að vera öllum ljóst, að enginn möguleiki væri að koma þessum verðtolli fram nú eins og hann er í frv., ef það væri nýtt, en ekki breyting á eldri lögum. Sjest það m. a. á andmælum háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ) gegn tolli á niðursoðinni mjólk. Hann sagði, eins og rjett er, að hjer væri verið að leggja nefskatt á fátækt fólk. Og svo er um fjöldamargt fleira í frv.

Ef hjer á að útvega tekjuauka, þá hefði átt að fara aðrar leiðir. Ekki er nú svo ilt í ári. Mætti þar minna á tóbakságóðann. Líka mætti geta frv., sem jeg ásamt hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) flutti í fyrra um hækkaðan skatt á áfengi. Þar var bent á ljettbæran og rjettlátan skatt Þetta frv. varð ekki útrætt á þinginu í fyrra, og hefi jeg ekki sjeð bóla á því síðan. Vil jeg því lýsa eftir því nú og spyr fjhn., hvað af því hafi orðið.

Þessi andstaða gegn verðtollinum nú sýnir, að hann er ekki rjettlátur lengur. Og það á ekki að vera hægara að halda við gömlum tolli ranglátum heldur en að stofna nýjan rjettlátan toll.