28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

20. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Nefndin hefir lagt mikið starf í að athuga bráðabirgðaverðtollinn, og finst mjer það virðingarvert, enda þótt orkað geti tvímælis flokkun hennar á ýmsum vörutegundum í mismunandi tollstig. Jeg held, að niðurstaða nefndarinnar hafi ekki í för með sjer neina stórfelda breytingu á tekjum ríkissjóðs. Stjórnin hefir ekki farið fram á annað en að veitt væri nauðsynleg framlenging á tolllögum þessum, svo að endurskoðun gæti farið fram á næsta þingi. Eftir meðferðinni á fjárlagafrv. fyrir 1926 er ekki forsvaranlegt annað en að sjá ríkissjóði fyrir tekjum á móti. Jeg tel, að nefndinni hafi tekist það með tillögum sínum.

Um brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefi jeg það að segja, að ef fjárlagafrv. hefði verið samþykt eins og stjórnin bar það fram, hefðu mjer verið hans till. næst skapi. En lækkunin niður í 15% hefði ekki mátt ganga í gildi fyr en um næstu áramót. En vegna afgreiðslunnar á fjárlögunum 1926 og vegna þess, að breytingunni er ætlað að ganga í gildi 1. júlí þ. á. get jeg ekki greitt till. hans atkv. mitt.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) kvað hafa sagt, að ekki væri rjett að samþykkja framlengingu á tolli þessum, af því að stjórnin hefði kastað frá sjer tekjum, sem hún hefði getað haldið. Mun hjer átt við frv. um afnám tóbakseinkasölunnar. Hv. flm. þess frv. líta svo á, að sú breyting hafi enga tekjuskerðing í för með sjer. Um það er ágreiningurinn, fen andstæðingarnir hafa ekki rjett til að straffa ríkissjóð fyrir þann meiningamun.

Og þar sem hv. 1. þm. N.-M. hefir viðurkent nauðsyn tollsins með því að skrifa undir nál., þá vona jeg, að hann standi við það, hvað sem öllum ágreiningi í tóbakseinkasölumálinu líður.

Jeg mun ekki lengja umr. meira að sinni. Jeg hefi þegar lýst yfir því, að jeg fellst á till. nefndarinnar, en mun greiða atkvæði gegn brtt. háttv. 3. þm. Reykv. Hinar brtt. mun jeg láta hlutlausar.