28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

20. mál, verðtollur

Pjetur Ottesen:

Jeg vildi segja nokk ur orð út af brtt. á þskj. 305. Eins og fyrri flm. þeirrar till., hv. 1. þm. N.-M. (HStef), tók fram, á sú till. rót sína að rekja til þess, að verksmiðjan „Mjöll“ í Borgarfirði sneri sjer til fjhn. um stuðning á þeim grundvelli að hækka toll á aðfluttri mjólk. Eins og hv. 1. þm. N.-M. sagði, er hjer ekki verið að fara inn á neinar nýjar brautir, því undir verðtollinn falla framleiðsluvörur vorar, svo sem smjörlíki, niðursoðið kjöt og fiskur og flestar iðnvörur, sem nokkur vísir er að í landinu. Þannig er verðtollur á öllum slíkum vörum nema mjólk. Og svo langt hefir jafnvel verið gengið, að bannaður hefið verið innflutningur á einni iðnvörutegund, sem sje á baðlyfjum. Þessi brtt. ætti því ekki að þurfa að fæla neinn. Hægt er að framleiða nægilega mjólk í landinu fyrir alla landsmenn, enda þótt erfiðlega veitist að koma henni á markaðinn, sakir örðugra samgangna. En sá vandi er nú leystur með stofnun þessarar mjólkurniðursuðuverksmiðju, og því er þessi tollhækkun algerlega hliðstæð þeim stuðningi, er veittur hefir verið þeim framleiðsluvörum, er jeg nefndi áðan.

Samkv. verslunarskýrslunum 1922 var vörumagn innfluttrar mjólkur 750 þúsund dósir. „Mjöll“ getur þegar framleitt fullkomlega helming af þessu og með tiltölulega litlum endurbótum fullnægt allri þörf landsmanna eins og hún var 1922. Innflutt mjólk nam bað ár 525 þús. kr., og er það allálitleg upphæð.

Annað atriði kemur hjer til greina, sem ekki er minna um vert, að með þessu er fengin trygging fyrir verulega hollri og góðri mjólk, sem annars mun vera misjöfn. Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) hjelt því fram, að þetta myndi hækka. verðið, og kæmi því sem skattur á fátæklingana. Vera mætti, að verð hækkaði lítið eitt í bili, en vörugæðin myndu þar vega fullkomlega á móti; og með þessu móti væri þessu fátæka fólki trygð holl og næringarrík mjólk handa börnum sínum. Hinsvegar er útlenda mjólkin alls ekki hæf handa ungbörnum án hættu fyrir þroska þeirra.

Jeg flutti ásamt hv. 2. þm. Skagf. (J-S) á þinginu 1923 frv. um breytingu á vörutollslögunum, sem meðal annars gekk út á að hækka toll á niðursoðinni mjólk. En það fjell þá. Var sjerstaklega á það bent, að ekki væri heppilegt að tolla niðursoðna mjólk meðan ekki væri soðin niður mjólk í landinu sjálfu. Vil jeg í þessu sambandi minna á ummæli hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) um þetta á þinginu þá. Hann segir svo m. a.:

„Tel jeg því rjett að sleppa niðursoðinni mjólk uns farið er að sjóða niður mjólk í landinu sjálfu.“

Og þáverandi frsm. fjhn., núverandi hæstv. atvrh. (MG), farast svo orð:

„En þegar svo er komið, að jafnan verður auðið að fá næga mjólk hvar sem er, telur nefndin sjálfsagt að vernda þá framleiðslu með tolli.“

Segir hann þetta sem álit fjhn., því hún var þá óklofin. Nú verð jeg að segja, að þessir agnúar, sem stóðu í vegi fyrir verndartolli 1923, sjeu að mestu horfnir, þar sem verksmiðja er komin á fót, sem nú þegar að miklu leyti getur fullnægt mjólkurþörf landsmanna.

Jeg þarf ekki að lýsa því, þar sem það er margtekið fram, hve þörfin er orðin mikil á slíkum iðnaði hjer. Hitt hefir líka verið tekið fram, að verksmiðja sú, sem hjer ræðir um, hefir orðið fyrir miklum byrjunarörðugleikum, eins og svo oft á sjer stað um fyrirtæki, sem að einhverju leyti brjóta nýjar brautir. Þó er nú svo komið, að verksmiðjunni hefir tekist að sigra mestu örðugleikana, svo hún getur nú unnið með fullum krafti, þó fjárhagsörðugleikarnir hljóti auðvitað altaf að segja til sín. Annar byrjunarörðugleikinn var sá, að strax er farið var að selja afurðir verksmiðjunnar, lækkaði verðið á erlendu mjólkinni hjer og hefir lækkað æ síðan, og er nú orðið svo lágt, að minsta kosti á lökustu tegundunum, sem kannske eru ekki mjólk nema að nafninu til, að erfitt er að keppa um það. Er auðvitað eðlilegt, að mjólkin hafi lækkað nokkuð sökum gengisbreytingar, en lækkunin er orðin mun meiri en henni nemur. Er engu líkara en svo mikil lækkun, sem orðin er, sje sett til höfuðs þessum nýja vísi til mjólkurniðursuðu hjer. Veldur þetta alt auðvitað talsverðum örðugleikum fyrir fjelagið, sjerstaklega þegar það fer saman, að það er að ryðja nýrri vöru braut, sem tekur altaf nokkurn tíma, ekki síst þegar sá andi ríkir, sem kannske á sjer víðar rætur en með vorri þjóð, að alt aðflutt sje betra og eftirsóknarverðara en það innlenda. En auðvitað líður aldrei langur tími til þess, að fólk sannfærist um, hve vörugæðin hjá þessu fjelagi eru tryggari, og taki mjólk þess smámsaman fram yfir þá útlendu.

Sömuleiðis er jeg viss um, að ef fjelaginu tekst að sigla framhjá þessum byrjunarörðugleikum, þá muni það geta átt greiða og góða framtíð fyrir höndum, en það veltur ekki svo lítið á því, hvort þingið veitir fjelaginu nú í byrjun nokkurn stuðning eða ekki. Hefir þingið áður sýnt fullan skilning á þörf þessa fyrirtækis, er það heimilaði stjórninni að ábyrgjast lán handa fjelaginu, til að koma verksmiðjunni á fót. Vænti jeg, að þingið sýni nú sem fyr hinn sama rjetta skilning á nauðsyn þessa fyrirtækis og veiti því stuðning sinn í einhverri mynd.

Hjer á dögunum var feld till. frá hv. fjhn. um að veita fjelaginu 8000 kr. styrk í fjárlögum 1926. Sú till. fjell raunar fyrir sjerstök atvik, eins og hv. þm. víst vita, en ekki vegna þess, að hún hefði ekki fylgi í hv. deild. — Aðalatriðið fyrir mjer er það, að fjelagið fái stuðning í bili, hvort sem það verður með tollvernd eða með beinum styrk, þó jeg telji, eftir atvikum, tollverndina heppilegri og meira virði fyrir fjelagið. Alþingi hefir líka þegar gengið inn á þá braut, eins og jeg benti á í upphafi ræðu minnar.