28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

20. mál, verðtollur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg skal lítið lengja umræðurnar.

Jeg hefi ekki reiknað út, hve miklu sá innflutningur nemur, sem fellur undir 10% toll. Mig minnir þó, að það sje um 1 miljón króna, en það er þó ekki víst. Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að flokkaskiftingin væri óheppileg, ef hún yrði innleidd, og oft óframkvæmanleg nema með úrskurði í hvert sinn. Hann sagði og, að allar þær vörur, sem ekki ætti að tolla með 30%, væru jafnnauðsynlegar, en það má nú lengi deila um það, hvaða vara er nauðsynleg. Nefndin fór yfir lista um verðtollsvörur og dró út úr í 10%-flokkinn þær vörur, er hún taldi nauðsynlegastar. Ef aðrir menn hefðu verið í nefndinni, getur verið, að flokkunin hefði orðið dálítið öðruvísi, en það hefði þó varla munað miklu. Það er alveg rjett, að það væri óhætt að láta tollinn lækka niður í 15%, og mundu tolltekjurnar svara til þess, sem þær voru í fjárlögum 1925. En hitt er rjett, að það munar hundruðum þús. kr., hvort till. er samþykt. Það munu vera um 250–300 þús. kr., sem tolltekjurnar lækka eftir till. hv. 3. þm. Reykv. (JakM), en samkv. till. nefndarinnar lækkar tollur ekki nema af sem svarar 1 milj. kr. innflutningi, og eru það 100 þús. kr. Jeg gæti nú hugsað mjer, að það munaði þó um 150–200 þús. krónur.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sakaði nefndina um það, að hún skyldi ekki hafa tekið til meðferðar samhliða þessu frv. frumvarp hans og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um að leggja toll á meðalaáfengi. Það var vegna þess, að í frv. var farið fram á meira en þetta. Það var farið fram á það að sameina forstöðu áfengisverslunar og landsverslunar. Nefndarmönnum kom saman um, að það væri ekki eðlilegt að taka ákvörðun um það fyr en sýnt væri, hvernig færi um tóbakseinkasöluna, enda hefir hún ekki haft tíma til að athuga frv. nógu rækilega. Vitaskuld á áfengi ekki að vera nauðsynjavara (ÁÁ; Spánarvín), en meðalaáfengi er þó nauðsynjavara. Já, það er talað um Spánarvín í sambandi við þetta, en það nær auðvitað ekki neinni átt. Jeg hugsa, að slík vín fari ekki í gegnum lyfjabúð. Og það er óhætt að segja, að þar má hækka toll. En nú eru og ýmsir, sem segja, að talsvert af spíritus fari ekki í meðul, heldur sje notað sem nautnameðal með óleyfilegu móti. Væri spíritusinn eingöngu notaður til meðala, þá er ekki hægt að segja, að hann sje ónauðsynleg vara. Þess vegna vill nefndin ekkert ákveða um þetta fyr en hún hefir haft tal af landlækni.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) er alt í einu orðinn fríverslunarmaður og getur ekki þolað slík höft sem innflutningstollar eru. Jeg veit ekki, hvaða lönd það eru, sem hafa fríverslun, að þau þoli ekki innflutningstolla. Þó veit jeg ekki betur en að þessi sami hv. þm. (ÁÁ) vilji leggja háa tolla á tóbak og vín.