01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

20. mál, verðtollur

Jakob Möller:

Jeg á hjer brtt. nokkrar á tveim þskj., 409 og 412, og þarf að fara um þær örfáum orðum. Aðalbrtt., sem jeg ráðgerði við 2. umr. að koma með, er á þskj. 412, á þá leið að ákveða þegar, að þessi verðtollur lækki frá næstu áramótum, 30% í 20%, 20% í 15% og 10% í 5%. Jeg hefi ekki breytt skoðun um það, að þessi margskifting tollsins sje í raun og veru óhentug og ólíkleg til þess að ná tilgangi sínum eða gera nokkurt verulegt gagn; en jeg hefi ekki sjeð til neins að fara að koma með brtt. í þá átt að fella hana niður. En samkv. því, sem jeg sagði við 2. umr., þá held jeg fram, að rjettara sje að byrja þegar á því að lækka þennan toll, og láta hann falla niður smám saman. Jeg hygg, að það geti orðið samkomulag um þetta, að í stað þess, að brtt. við 2. umr. fór fram á að lækka tollinn strax, komi lækkunin ekki í gildi fyr en 1. jan. 1926. Þessi brtt. er víðtækari að því leyti, að einnig 30% tollurinn skal lækka; en það verður að teljast heppilegra að gera ekki alt of mikið bil á milli hæsta tollsins og þess næsta, enda er sannleikurinn sá, að 20% tollur á þessar vörur er þegar ærinn tollur, þó það sje litið á þær allar sem óhófsvörur. En hinsvegar eru þær vörur mismunandi hvað það snertir, og jafnvel hafa komið áskoranir um að fella niður sumar þeirra, eins og brtt. fara fram á.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja mjög um þetta. Hv. þdm. hafa víst gert sjer ljóst, hvað hjer er um að ræða. Jeg sje, að hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefir komið með brtt. við þessar till., um að setja í staðinn fyrir „1. jan.“ 1. apríl. Mjer finst þetta eiginlega ekki til bóta, það þýðir í raun og veru sama sem að skjóta þessu máli á frest til næsta þings; meiningin getur ekki verið nein önnur. Þá er í sjálfu sjer alveg þýðingarlaust að vera að fást við þetta nú. Ef meiningin er, að næsta. þing taki endanlega ákvörðun, þá má láta vera að samþykkja nokkuð á þessu þingi; það væri þá aðeins til að sýnast fyrir kjósendum. Nei, þessi tollur á að hverfa smátt og smátt. Og jafnvel þótt það sje ekki sagt, að hægt verði á næstu 3 eða 4 árum að losna við hann með slíkri lækkun á hverju ári, þá er rjett að slá því þegar föstu, að hann eigi að falla þannig úr gildi. Hinsvegar, ef fjárhagsástandið verður svo slæmt í ársbyrjun 1926, að ekki þætti fært að fara svo geyst í að afnema tollinn, þá gæti komið til mála, hvort ætti að halda áfram og lækka tollinn frekar í ársbyrjun 1927; finst mjer það ætti að geta orðið að samkomulagi í þessu máli. En það fer í raun og veru betur á því, að slík lækkun gangi í gildi einmitt um áramót, og er það af ýmsum ástæðum, ekki síst hvað snertir ráðstafanir manna á vörukaupum. Eins og menn vita, þá byrjar vöruinnflutningur mjög mikið þegar í mars, og það mundi hafa þær afleiðingar, að menn mundu fresta kaupum þangað til eftir 1. apríl, og verða af því ýms vandkvæði. Aftur á móti er 1. jan. heppilegur, því að breyting á þeim tíma getur vart haft nokkur áhrif á haust- og jólainnkaup kaupmanna.

Um aðrar brtt. mínar get jeg verið mjög fáorður; sem sagt fara þær einungis fram á að flytja vörur milli flokka, eða fella undan tolli. Fyrsta till. er að fella undan 30% tolli lifandi jurtir og blóm. Þetta kann að þykja undarlegt, vegna þess að sumir líta svo á, að hjer sje um hinn mesta „luxus“ að ræða. Í raun og veru er þessi vara ákaflega lítilfjörleg tollvara, því innflutningur mun ekki nema meira en kannske 2–3 þús. kr. á ári; svo tollurinn skiftir ekki nokkru máli fyrir ríkissjóð. En hinsvegar er það, að lifandi blóm eru ákaflega mikil híbýlaprýði og smekkbætir; það er blátt áfram hjer að ræða um „kultur“-mál. Menn flytja inn lifandi jurtir og blóm til þess að rækta fyrir sjálfa sig, en síður til sölu; sje jeg ekki ástæðu til að leggja á slíkt toll, þar sem það er heldur ekkert fjárhagsatriði fyrir ríkið.

Í öðru lagi hefi jeg lagt til að fella úr 30% tolli og bæta við í undanþáguflokkinn úrum og klukkum. Vitanlega eru þetta tvær till. Og ef mönnum sýnist, geta menn látið við það sitja að fella þessar vörur úr 30% fl., og lenda þær þá að sjálfsögðu í 20% flokki. Allir vita, að þetta eru nauðsynjavörur, þó mismunandi hóf eigi sjer stað um kaup þeirra.

Þá er önnur brtt., að blaðgull til gyllingar falli undan tolli. Það er í samræmi við það, að efni til bókbands var samþykt að undanþiggja við 2. umr.

Þá legg jeg til að undanfella þessi sömu hljóðfæri, sem jeg lagði til við 2. umr., en nokkuð á annan hátt; ekki flygel og orgel alment, heldur flygel, sem nota á í opinberum samkomusölum. Jeg get sagt það hv. deild, að svo er ástatt hjer í Reykjavík, að það er eiginlega ekkert slíkt hljóðfæri til til opinberra söngiðkana. Fyrir skemstu var flutt hingað slíkt hljóðfæri af útlendum listamanni, sem ætlaði að nota það við söngsamkomur hjer. Nú liggur fyrir, að það verði flutt út aftur, vegna þess að enginn sjer sjer fært að kaupa það, vegna verðtollsins. En það er mikil nauðsyn á slíku hljóðfæri til þess að halda uppi þesskonar söngiðkunum. Hinsvegar verður líklega ekki nema um 2–3 hljóðfæri að ræða að flytja inn.

Þá eru kirkjuorgel. Hjer er í ráði að kaupa dýrt orgel í kirkju, og jeg skal taka það fram, að þessi till. miðar eingöngu að því að losa það undan tolli, en vitaskuld leiðir það af sjálfu sjer, að ef kirkjuorgel verða keypt annarsstaðar á landinu, þá nær þessi undanþága til þeirra.

Í þriðja lagi koma harmonía, fiðlur og pianó alment. Jeg hefi sundurliðað þessi hljóðfæri í brtt. í því skyni, að hvert þeirra væri borið upp fyrir sig.

Jeg skal geta þess, að af öllum þessum hljóðfærum skifta piano mestu máli, vegna hljómlistarnáms, og er því mest um vert, að greitt sje fyrir innflutningi þeirra. Hinsvegar eru þau dýrari en harmonía, og því ekki eins alment notuð.