01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

20. mál, verðtollur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Fjhn. flytur eina litla brtt., sem fer í þá átt að fella ávaxtamauk undan 30% tolli, og kemur það þá að sjálfsögðu undir meginverðtollsflokkinn, ef till. nær samþykki, og verður tollað með 20%.

Þessi till. er flutt samkv. tilmælum Bakarameistarafjelags Reykjavíkur. Fulltrúar frá því fjelagi hafa komið á fund nefndarinnar og tjáð henni, að brauðgerðarhúsin hjer í bænum hafi yfirleitt átt erfitt uppdráttar undanfarið, en hinsvegar er öllum almenningi mjög viðkvæmt mál, að brauðverð hækki ekki. En brauðgerðarhúsin geta að miklu leyti fleytt sjer yfir erfiðustu tímana með því að selja hinar dýrari kökútegundir, og er ávaxtamauk einmitt mikið notað við tilbúning þeirra. Sýnist því varla sanngjarnt að tolla þessa vörutegund í hæsta tollflokki, þar seni hjer er í rauninni um iðnaðarvöru að ræða. Bakarameistarafjelagið fór fram á að fá lækkaðan toll á fleiri vörutegundum, en nefndin gat ekki fallist á aðrar beiðnir þess en þessa einu.

Flestar þær brtt., sem nú eru fram komnar, eru ekki stórvægilegar. Þær fara að mestu leyti í þá átt að flytja einstakar vörutegundir milli flokka. Hefir nefndin ekki getað tekið afstöðu til þessara brtt., og lætur þær því afskiftalausar. Sama máli gegnir um till. hv. 3. þm. Reykv. (JakM), um að láta tollinn lækka frá næstu áramótum. Nefndin hefir ekki tekið ákveðna afstöðu til þeirrar till.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að 2 brtt., sem jeg hefi sjálfur borið fram. Önnur þeirra er reyndar svo smávægileg, að við prentun frv. hefði mátt taka hana til greina. í frv. stendur „hjólvax“ fyrir „hjólnafir“, og er það misprentun, sem jeg hefi ekki veitt eftirtekt fyr en nú. Þarf því varla að efa, að þessi brtt. verði samþykt.

Hin brtt. mín skiftir meira máli. Hún er við brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JakM) á þskj. 412,1 og fer fram á, að í stað 1. janúar komi 1. apríl.

Hv. þm. (JakM) gat þess rjettilega, að sú till. mín væri fram komin til þess fyrst og fremst, að næsta þing yrði ekki sett út úr spilinu að ráða þessu máli til lykta. Er mín till. að þessu leyti í samræmi við stjfrv., eins og það var upphaflega, því að þar var farið fram á, að verðtollslögin yrðu framlengd til 1. apríl næstk., til þess að næsta þing gæti tekið ákvörðun um, hvað gera skyldi.

Það mun nú einróma álit manna, að tollurinn skuli lækka smámsaman, uns hann er alveg úr sögunni, en hitt greinir menn á um, hvenær slík tolllækkun skuli byrja og hvernig hún eigi að vera, og hafa allmargar till. komið fram um þau efni. Jeg get ekki fallist á þær röksemdir hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gegn till. minni, að ef hún verði samþykt, þá sje tollniðurfærslan í rauninni ekki til annars en sýnast. Niðurfærslan er þá lögfest frá 1. apríl, og þess vegna þyrfti næsta þing að taka í taumana, ef það vildi breyta því ákvæði. En það er öllum kunnugt, hversu miklum mun erfiðara er að fá þingið til að taka frumkvæði til breytinga en láta breytingu, sem samþykt hefir verið, haldast. Þess vegna er ekki hægt að segja, að till. mín sje þýðingarlaus.

Jeg get verið sammála þeim mönnum, sem þykir dálítið varhugavert að lækka þennan toll svo mjög rjett í sömu svifum, sem hv. deild hefir sent frá sjer frv. um hækkun á öðrum tolli, sem sje útflutningsgjaldinu. Það hefir hv. deild nýlega hækkað í þeim tilgangi, að ríkissjóður fái það fje, sem honum er gert að skyldu að leggja í stofnsjóð ræktunarsjóðsins væntanlega. Jeg býst við, að flestum hafi þótt sú tollhækkun talsvert neyðarúrræði. En einmitt þess vegna þykir mjer einkennilegt, ef hv. þdm. þykir ekki viðurhlutamikið að lækka þetta gjald svo mjög, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) vill gera. Jeg fyrir mitt leyti tel vafamál. hvort hið mótsetta væri ekki rjettara. Ef menn eru sannfærðir um, að ríkissjóður megi sjá af 250–300 þús. kr. árlega næstu árin, þá held jeg, að rjettast hefði verið að halda verðtollinum óbreyttum, en hækka útflutningsgjaldið ekkert. Jeg vil því ekki, að þetta þing höggvi á hnútinn, eins og till. hv. 3. þm. Reykv. (JakM) fer fram á, því ef tollurinn á að lækka þegar frá næstu áramótum, þá er enginn vegur fyrir næsta þing að taka frekari ákvörðun í því efni, nema þá ef það vill lækka hann enn meira.

Verði till. mín samþykt, þá getur næsta þing, ef því sýnist svo, komið í veg fyrir allar truflanir á innkaupum, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) óttast svo mjög, t. d. með því að færa tímamarkið fram um 1 mánuð þegar í þingbyrjun.

Loks skal jeg geta þess, að jeg er samþykkur brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB) um, að lög þessi gangi í gildi einum mánuði fyr en nú er ætlað. Jeg hygg það rjettara, að þau öðlist gildi 1. júní, m. a. vegna þess, að það flýtir fyrir afnámi innflutningshaftanna, enda mun brtt. meðfram flutt í þeim tilgangi.

Annars þarf jeg ekki að minnast á fleiri brtt. Mál þetta hefir verið rætt í öllum aðalatriðum, svo að væntanlega verða ekki miklar deilur Um það nú.