01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

20. mál, verðtollur

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg hefi leyft mjer að flytja nokkrar brtt. á þskj. 417, en aðeins ein þeirra fer nokkuð langt. Er það 2. brtt., sem segir, að frá 1. júlí næstk. skuli allir reikningar, sem til þess tíma hafa verið stimplaðir með 20%, stimplast með 10%.

Jeg hefi margsinnis lýst yfir því, að jeg vil fúslega fylgja háum tollum á óhófsvarningi. Þess vegna hefi jeg enga brtt. gert við 30% -tollflokkinn í þá átt að lækka þann toll. í þann flokk hefir hv. meiri hl. fjhn. sett þær vörur, sem að hans dómi geta talist minstar nauðsynjar þeirra vörutegunda, sem annars eru fluttar til landsins og vörutollur er greiddur af.

Það getur altaf verið álitamál, hvaða vörutegundir beri að leggja svo gífurlegan toll á, en þar sem hv. nefnd hefir ekki talið fært að ganga lengra í flokkuninni, verður þar við að sitja. Hinsvegar get jeg ekki fallist á flokkun hv. meiri hl. á hinum nauðsynlegri vörutegundum í 10- og 20%-flokka, og legg því til, að tollurinn lækki um helming á öllum nauðsynjum frá miðju ári. Auðvitað dregur ríkissjóð töluvert um þessa lækkun, en hún byggist á rökum, sem færð voru fram við 2. umr. og ekki verður hnekt.

Yfirleitt er ekki hægt að byggja verðtoll á sömu rökum nú og í fyrra. Allar aðstæður eru svo mjög breyttar síðan, að nú dytti engum í hug að ljá slíkum tolli fylgi sitt, ef hann væri ekki til fyrir, og enda hefðu fáir samþykt verðtollinn í fyrra, ef þeir hefðu fengið sjeð fyrir árgæsku síðastl. árs. Þessi tollur var settur til bráðabirgða, eins og nafn hans bendir til, en hann ber ekki lengur það nafn með rentu, ef hann á að standa áfram óbreyttur, þrátt fyrir alla árgæskuna.

Jeg hefi áður sýnt fram á, að enda þótt till. mín verði samþykt og tekjur ríkissjóðs rýrni þar af leiðandi, þá er engin hætta á því, að það komi að sök á yfirstandandi ári, þegar tillit er tekið til fjárlagaáætlunarinnar. En hinsvegar ber þinginu þá skylda til að sjá ríkissjóði fyrir tekjuauka á næsta ári, tekjuauka, sem ekki er fenginn með tolli, sem íþyngir öllum almenningi svo mjög sem verðtollurinn gerir. Vil jeg í því sambandi nefna frv. um hækkun áfengistollsins, sem nú er í nefnd og mun vera farið að skila eitthvað áfram, eftir því sem jeg hefi hlerað.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir lýst því yfir, að hann hafi reynt sitt besta til að fá það frv. samþykt í fyrra, og að ekki hafi verið sjer að kenna, hvernig þá fór fyrir því. Vil jeg því vænta þess, að hann ljái frv. sama fylgi nú og að því verði auðið framgangs að þessu sinni.

Aðrar till. mínar þarf jeg ekki að gera að umtalsefni. Þær ganga í þá átt að færa vörur milli tollflokka, og svo að allur tvinni skuli undanþeginn verðtolli, í stað þess að nú er hörtvinni einn undanskilinn. Virðist það sjálfsögð breyting.