08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

20. mál, verðtollur

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú minst á brtt. nefndarinnar og tjáð sig geta fallist á þær að mestu. Jeg vil geta þess að því er snertir brtt. viðvíkjandi úrum og klukkum, í fyrsta lagi, að nefndin gat ekki fallist á að hækka toll á öllum sigurverkum upp í 30%. í öðru lagi sýndist það ekki mundu koma að notum, þó farið væri að gera mun á klukkum, t. d. tolla luxusúr meira en vanaleg úr, eða viðhafnarklukkur meira en algengar húsklukkur. Því varð það niðurstaðan, að nefndin bar fram þessa brtt. um, að úr og klukkur skyldu framvegis tollaðar eins og hingað til með 20%, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) skildi rjettilega, og að við það stæði þangað til lækkun sú, sem gert er ráð fyrir í frv., kemst í framkvæmd. Hæstv. fjrh. (JÞ) var samþykkur brtt. nefndarinnar um húsgögn, hurðir og glugga, og þarf jeg því ekki að tala frekar um hana.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hafði sjerstaklega svolítið að athuga við 3. brtt. nefndarinnar. Eins og tekið er fram í nál., er sú brtt. fram komin af því, að nefndin sá ekki, úr því að ákvæðin um stiglækkun tollsins voru komin inn í frv., neina ástæðu til að gera verslununum að óþörfu erfitt fyrir um innflutning vörubirgða sinna. Það er auðvitað, að þegar menn vita fyrir víst, að tollurinn lækkar á ákveðnum tíma, þá bíða þeir, ef unt er, með að flytja inn vörurnar þangað til sú lækkun kemst á. Til þess að vorvörurnar komi í tíma verða þær að vera komnar hingað til lands fyrir 1. apríl. En eftir því sem hv. Nd. gekk frá frv., hefðu verslanirnar orðið að bíða með að flytja inn vorvörurnar þangað til í aprílmánuði, ef þær áttu að njóta tolllækkunarinnar. Brtt. nefndarinnar fer í þá átt að gera aðstöðuna hægari og eðlilegri fyrir verslanirnar. Hæstv. fjrh. (JÞ) kvaðst hugsa, að lítill innflutningur yrði frá áramótum og þangað til tolllækkunin gengi í gildi. Þetta get jeg vel fallist á, og því tel jeg, að það muni muna litlu fyrir ríkissjóðinn, hvort tolllækkunin gengur í gildi 1. mars eða 1. apríl. En eins og jeg tók fram, er það haganlegra fyrir verslanirnar, að hún gangi í gildi 1. mars, og það er engin ástæða til að gera þeim baga alveg að þarflausu.