02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

8. mál, verslunaratvinna

Ingvar Pálmason:

Eins og nál. ber með sjer, höfum við tveir af nefndarmönnum áskilið okkur rjett til að koma með víðtækari breytingar heldur en þær, sem eru á þskj. 249. Það höfum við gert, og liggja þær fyrir á þskj. 270.

Um þær breytingar, sem nefndin í heild sinni leggur til og hv. frsm. nefndarinnar (JJÓs) hefir gert grein fyrir, hefi jeg ekki neitt að segja, og við erum þeim að vissu leyti sammála. En með nokkrar þeirra erum við tveir nefndarmenn ekki fyllilega ánægðir, og höfum því gert tilraun til þess að leggja fyrir þessa hv. deild það, sem við vildum að gengið yrði lengra en nefndin vildi. Við sáum ekki ástæðu til þess að kljúfa nefndina, álitum, að þar sem öll nefndin er sammála um, að frv. eigi fram að ganga með breytingum, sje engin þörf á því, en töldum nægja, að þær brtt., sem ekki náðu samþykki í nefndinni, kæmu fram fyrir hv. deild, og svo yrðu greidd atkvæði um málið í heild sinni.

Jeg er líklega einn í nefndinni um það álit, að jeg tel, að á einn hátt hefði verið betra, að stjfrv. hefði gengið fram óbreytt heldur en með þeirri breytingu, sem nefndin leggur til, og það er að því leyti, að í stjfrv. kemur það skýrt fram, að meiningin er að aðgreina stórsölu og smásölu. Þetta tel jeg til bóta, en meiri hl. nefndarinnar var þeirrar skoðunar, að þetta væri varhugavert, eins og hv. frsm. (JJós) hefir tekið fram, varhugavert gagnvart sjerverslunum, og hv. meiri hl. hefir þar mikið til síns máls, og þótt jeg hefði heldur viljað, að þetta stæði óbreytt eins og stjórnin ætlaðist til, beygði jeg mig fyrir meiri hl., og hefi því ekki komið fram með neina till. um það, að þetta stæði eins og það er í stjfrv.; því að jeg viðurkenni, að sjerverslanir mundu verða fyrir nokkuð þungum búsifjum, ef þetta væri aðskilið, og það má vel vera, að nefndin hafi rjett fyrir sjer í því, að það megi ekki gera þann greinarmun á heildsölu og smásölu. En jeg vil láta það koma fram í umr., að jeg efist um, að þetta sje rjett, og að æskilegra væri að hafa það eins og í stjfrv.

Þá mun hlýða að fara nokkrum orðum um brtt. okkar hv. 5. landsk. þm. (JJ). Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, þegar frv. var lagt fram hjer, að það væri að nokkru leyti komið fram með það fyrir augum að þrengja að nokkrum mun aðgang manna að þessari atvinnugrein, og hæstv. atvrh. (MG) færði töluverð rök fyrir máli sínu, og jeg tel, að það sje alveg rjett og nauðsynlegt að þrengja töluvert meira en verið hefir aðgang manna að þessari atvinnu, og það má segja, að nefndin hafi samþykt þetta. En við, tveir nefndarmenn, vildum ganga öllu lengra heldur en meiri hl. nefndarinnar, og kemur það fram í 1. brtt. okkar, sjerstaklega að því er það snertir, að þeim mönnum, sem hafa tekist á hendur að stunda þessa atvinnu og orðið gjaldþrota, þeim sje fyrirmunað að byrja á slíkri atvinnu aftur, nema því aðeins, að þeir hafi komist að löglegri skuldagreiðslu.

Eftir síðustu hagskýrslum, sem fyrir liggja, munu vera rúmlega 1800 verslanir á öllu landinu, og það munu ekki vera deildar meiningar um það, að miklu færri menn mundu geta leyst þetta starf af hendi, án þess að þjóðin biði nokkurn baga við það, jafnvel þótt alt að helmingi færri rækju verslun; auk þess hefir það komið fyrir, að margir hafa fengist við verslun, sem mönnum virðist, að tæplega sjeu færir um það, og þótt því sje haldið fram, sem fram kom hjá hv. frsm. (JJós), að rjett sje að lofa mönnum að reyna sig, og þótt einhver byrji á þessari atvinnu, sem ekki sje fær um það, þá muni hann heltast úr leik og ekki stunda það til langframa. En við höfum töluverða reynslu fyrir okkur í þeim efnum, að þeir, sem heltast úr, hafa gert það á þann hátt, að þjóðin hefir beðið skaða við það. Það eru ekki svo fáir, sem hafa orðið gjaldþrota, og af gjaldþrotinu hefir leitt töluverðan skaða fyrir lánardrottin þessara manna. En það má kannske segja, að landsbúum yfirleitt komi það ekki svo mikið við, þó að lánardrottinn þessara manna tapi nokkrum stærri og smærri upphæðum; en jeg álít, að þeim komi það nokkuð mikið við, vegna þess að þessi lánardrottinn verður í flestum tilfellum bankinn, og tapi bankinn á þessum mönnum, kemur það að minsta kosti töluvert fram á öðrum viðskiftamönnum, t. d. í hækkuðum vöxtum. Það er alkunnugt, að við Íslendingar eigum við töluvert erfið vaxtakjör að búa, og jeg hygg, að það sje nokkuð að kenna töpum, sem bankarnir hafa orðið fyrir, og verður nokkuð af því að skrifast á reikning þeirra manna, sem hafa orðið gjaldþrota á undanförnum árum.

Við, þessir tveir nefndarmenn, leggjum því til, að sú breyting verði gerð, að í stað þess að frv. gerir ráð fyrir, að þeir kaupmenn, sem tvisvar hafa orðið gjaldþrota, geti fengið verslunarleyfi, ef þeir hafa komist að löglegum samningum um skuldagreiðslu við lánardrottin sinn, þá förum við fram á, að slíkt leyfi sje aðeins veitt einu sinni, og það er auðsjeð, að þetta er gert til þess að þrengja kosti þeirra, sem um verslunarleyfi sækja.

Önnur brtt. gengur í þá átt, að við, höfundar hennar, viljum, að þekkingarskilyrðin sjeu ákveðin í lögunum sjálfum, en meiri hl. nefndarinnar telur rjettara að ákveða þau með reglugerð. Um þetta er ekki mikið að segja, en við lítum svo á, að þessar kröfur sjeu ekki svo harðar, að það sje ekki fyllilega óhætt að láta þær koma fram í lögunum sjálfum, en ef ekki má ákveða þær í lögunum, þá þykir okkur það benda til þess, að hv. nefndarmenn líti svo á, að ákvæðin eigi að vera eitthvað vægari; en ef við lítum á lagabálk þennan sem meðal til þess að fækka heldur þeim mönnum, sem verslun reka í landinu, og tryggja betur en verið hefir, að þeir, er þessa atvinnu reka, hafi naga þekkingu til slíks starfa, þá virðist mjer, að þessi skilyrði, sem við vildum setja fyrir verslunarleyfum, sjeu ábyggilega á fullum rökum bygð og ekki strangari en svo, að það virðist vera rjett að krefjast þess af hverjum manni, sem vill gera verslun að lífsstarfi sínu, að hann hafi aflað sjer þeirrar þekkingar, sem farið er fram á í brtt.

Þriðja brtt. okkar fer aðeins fram á það að fella úr frv. heimild ráðherra til þess að veita undanþágu frá skilyrðum þeim, sem sett eru um hlutafje í verslunarfjelögum. Það er sem sje í 2. tölulið 5. gr., sem talað er um verslunarfjelög, sagt svo:

„Ef hlutafjelag er, þá skal hlutafje ennfremur vera að meira en helmingi eign manna búettra hjer á landi, enda sje ekkert í samþyktum fjelags, er brjóti bág við íslensk lög.“

Þessu erum við samþykkir, en niðurlag greinarinnar er orðað þannig:

„Ráðherra er þó heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um hlutafjeð, ef sjerstaklega stendur á.“

Þessa undanþágu viljum við fella burt. Ef það er álitið nauðsynlegt að ákveða það með lögum, að hlutafje í fjelögum skuli vera að meira en helmingi eign manna búsettra hjer á landi, þá get jeg ekki sjeð, að það þurfi að valda nokkrum vandkvæðum að afla slíks fjár í hlutafjelag, svo að það sje ekki hægt í landinu sjálfu. Ef það væri um annarskonar fjelög að ræða, gæti þetta frekar komið til greina, en við lítum svo á, að til þess að reka alment verslunarfyrirtæki þurfi þessa ekki með. Þess vegna leggjum við til, að þessi málsliður falli niður.

Þá kem jeg að 4. og síðustu brtt. okkar. Við viljum hafa árgjald til ríkissjóðs hærra en meiri hl. nefndarinnar gat fallist á. Við lítum nefnilega svo á, að fyllilega sje rjettmætt að hafa gjaldið helmingi hærra en hv. meiri hl. nefndarinnar vildi, sem sje 100 kr. fyrir smásala, en 200 kr. fyrir heildsala. Eftir núverandi gildi peninga er þetta lítilsvert fyrir hvern einstakling, en getur munað ríkissjóð töluvert, og sjerstaklega, ef fjöldi verslananna verður eins mikill og hann hefir verið. Og þar sem nú gott útlit er fyrir, að ríkissjóður þurfi á tekjuauka að halda, og núverandi stjórn og hennar fylgifiskar virðast hallast mjög að þeirri stefnu að ná sem mestum tekjuauka gegnum verslun, verður ekki annað sjeð en að skattur þessi sje fyllilega rjettmætur, auk þess, sem hann er einn liður í aðalstefnu frv., sem sje þeirri, að fækka verslunum og bæta þær.

Að síðustu skal jeg taka það fram, að þó að brtt. okkar verði ekki samþyktar, munum við eigi að síður fylgja flestum till. nefndarinnar.