03.04.1925
Efri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

8. mál, verslunaratvinna

Jónas Jónsson:

Þetta mál hefir legið lengi í nefnd og hefir mikið verið að því unnið. Höfum við orðið að mestu ásáttir um meginhluta þessa frv., en þó höfum við hv. 2. þm. S.-M. (IP) leyft okkur að flytja sjer brtt. við það, sem ekki varð hægt að ná samkomulagi um í nefndinni.

Áður en jeg fer út í þessar brtt. vil jeg eyða nokkrum orðum að ósamræmi því, sem mjer finst hafa átt sjer stað í flutningi málsins hjá hæstv. atvrh. (MG) og í umræðum hans um málið í gær. Og þó við sjeum sammála um ýmislegt í þessu máli, þá get jeg ekki varist því, að mjer finst hann hafi með ræðu sinni nú brotið allmjög þá stefnu, sem kom fram í framsöguræðu hans og sem hann þá taldi að frv. þetta sje bygt á.

Við getum líklega verið á sama máli um það, að ef frv. þetta á að koma að gagni, þá sje það aðallega á tvennan hátt. í fyrsta lagi að verslunarstjettin taki ekki til sín fleiri menn en þörf sje á, og ennfremur, að sem hæfastir menn veljist til að stunda þessa atvinnu. Þetta fellur saman við það að gera harðar kröfur til þekkingar og manndóms þeirra, sem rjett öðlast til að versla. Og um nauðsyn þessa hafa bæði leiðandi menn samvinnufjelaganna og Verslunarráðið, sem er skipað fulltrúum kaupmanna, orðið ásátt. Og þar sem hæstv. atvfh. (MG) kveður sig aðhyllast nokkra fækkun verslunarstjettarinnar, þá hefði legið beinast við, að hann hefði fallist á þær hæstu kröfur, sem leiddu að þessu marki.

Þrent kemur til mála, þegar kveða skal á um, hverjir skuli öðlast rjett til verslunarrekstrar. Er fyrst skilyrðið um þekkingu, í öðru lagi skilyrðið um borgaralegan heiðarleik og í 3. lagi skilyrði þess að geta rekið verslun með skynsemi, svo við árangri megi búast og líkindi sjeu til, að stofnunin geti staðið í skilum.

Hvað gjaldþrotum viðvíkur, þá skilur meiri og minni hlutann á um það, því við í minni hlutanum álítum, að ekki megi sami maður verða nema einu sinni gjaldþrota, án þess að teljast óhæfur til verslunar, en meiri hlutinn vill, að maður, sem tvisvar hefir orðið gjaldþrota, en náð samningum við skuldunautana, geti haldið áfram að reka sjálfstæða verslunaratvinnu. Nú neita jeg því ekki, að þau tilfelli sjeu hugsanleg, að maður verði gjaldþrota, og ef til vill oftar en einu sinni, án þess að nokkuð sje siðferðilega brotlegt við það. En á hitt ber líka að líta, að með hverju gjaldþroti líður þjóðfjelagið altaf meira eða minna tjón, og menn, sem oft gera sig seka um slíkt, eru varla svo bráðnauðsynlegir fyrir verslunarstjettina, að ástæða sje til að gera þeim auðvelt að halda verslunarrekstri áfram. Það sýndi sig best fyrir stríðið, hve óvarlegt það getur verið að veita mönnum alt of greiðan aðgang til verslunar. Þá reis hjer upp fjöldi af heildsölum og umboðssölum, sem sumir hverjir voru mestu ónytjungar og „svindlarar“. Þeir fóru utan og fengu vörur að láni, sem þeir borguðu ekki, en eyddu andvirðinu og komu óorði á sig og land sitt. Hefir einn mikilsvirtur þingmaður hjer í deild sagt við mig þau orð, sem munu vera alt of sönn, að alt annað en gaman sje að hitta erlendis menn; sem orðið hafa fyrir prettum af hendi þessara þokkapilta, — er heiðarlegum mönnum neitað viðskifta vegna þess að óheiðarlegir landar þeirra hafa svift íslensku verslunarstjettina trausti og virðingu. — Jeg skal játa, að ómögulegt er að gera lög, sem fyrirbyggi, að svona geti komið fyrir, en brtt. minni hlutans miða þó að því að útiloka, að slíkt verði algengt, með því að útiloka ljelegustu mennina frá verslunarstjettinni. Jeg held því, að það sje meiri bjartsýni á íslenskri verslunarstjett að meina þeim, sem tvívegis hafa orðið gjaldþrota, að halda áfram verslun. Mun slík till. þykja sanngjörn síðar, þó feld kunni hún að verða nú, því það bætir ekki fyrir okkur að láta þá menn halda áfram, sem fleirum sinnum hafa brugðist greiðsluskyldu sinn.

Þá kem jeg að þekkingar- og æfingarskilyrðunum. Við höfðum í þessu atriði uppkast að frv. frá Verslunarráðinu, þar sem líkt var ákveðið, þó ekki væru eins skörp takmörkin þar eins og í brrt. á þskj. 270, þar sem verslunarnám er gert að aðalundirstöðu verslunarleyfis. Hinsvegar hugsar Verslunarráðið sjer gagnfræðapróf sem skilyrði, en þess er að gæta, að þó að öðlast megi góða almenna mentun í gagnfræðaskólum, þá er þar ekki kent ýmislegt, sem verslunarmönnum ber nauðsyn til að vita. — Við höfum líka annað uppkast að frv., sem Verslunarmannafjelagið hafði víst hugsað sjer að fá lögleitt, þar sem gert er ráð fyrir, að aðrir öðlist ekki leyfi til að reka verslun en þeir, sem fengið hafa verklega æfingu sem undirmenn. Þetta hvorttveggja höfum við flm. brtt. brætt saman og gerum hvorttveggja í senn, bóklega þekkingu og verklega þekkingu að skilyrði fyrir leyfi til að reka verslun. Þessi skilyrði eru svo sanngjörn og heilbrigð, að undarlegt er, ef nokkur hv. deildarmaður legst á móti þeim.

Það er áreiðanlega nægilega mikil viðkoma af verslunarmönnum hjer á landi úr báðum skólunum, að þeim mönnum viðbættum — og þeir eru ekki svo fáir —, sem taka próf erlendis við jafngilda skóla og jafnerfiða. En það er engum ljósara en þeim, sem vinna við þessa skóla hjer í bænum, að þar vantar — eins og raunar við slíka skóla erlendis — verklega æfingu, og að nemendur, þegar þeir útskrifast út slíkum bóklegum verslunarskólum, eru í raun og veru ekki fremur hæfir til þess að fást við verslun heldur en læknaefni, sem hafa lesið bækur um mannlegan líkama, en aldrei tekið neinn verklegan þátt í lækningum. Hæstv. ráðherra (MG) fann það til foráttu þessu formi með prófið, að það gæti komið fyrir dæmi, þar sem menn með mjög mikla bóklega þekkingu, t. d. háskólapróf, vildu versla, en gætu það ekki samkv. þessum lögum. Að vísu er jeg því samdóma, að slíkir menn þyrftu ekki nema sáralitla viðbót á vissu sviði og gætu lokið slíku prófi fyrirhafnarlaust. En á hinn bóginn hlýtur hæstv. ráðherra að vita það og þekkja þess dæmi, að sumum lögfræðingum hafa orðið mjög mislagðar hendur hvað snertir bókfærslu, og að sýslumannastjettin hefir liðið við það á undanförnum árum, að sýslumenn hafa ekki haft næga þekkingu á þessu sviði. Það vita allir, að talsvert af þeim skakkaföllum, sem orðið hafa á seinni árum í þessum efnum, stafar að nokkru leyti hreint og beint af ónógri þekkingu að þessu leyti, þó menn sjeu að öðru leyti færir. Þetta er langt frá að vera ásökunarefni. Það er ekki nema viðurkenning á því, sem er eðlilegt, að til þess að geta leyst af hendi vandasamt Verk þarf kunnáttu til þess verks. Nú hefir háskólinn reynt að bæta úr þessu fyrir lögfræðingana. Mjer er kunnugt um, að fyrir 1–2 árum var byrjað að kenna bókfærslu. Jeg er þó ekki viss um, að því verði haldið áfram. En hvað sem því líður, þá er þarna fengin viðurkenning fyrir því, að háskólapróf í sjálfu sjer gefur ekki fulla tryggingu fyrir því, að menn geti alla hluti, líka það, sem þeir ekki hafa lært þá. Jeg geri sem sagt ráð fyrir, að í tilfellum eins og hæstv. ráðherra nefndi yrði mögulegt að taka próf, á sinn hátt eins og nú eru möguleikar fyrir hvern mann á vissum aldri að geta fengið að taka próf í mentaskólanum. En það, sem mjer fanst einna helst vanta í ræðu hæstv. ráðherra, var viðurkenning á þessu, að stjettin verði nógu margmenn, þó slík skilyrði yrðu sett. Vitanlega má segja það með rjettu, að verslunarskólarnir hjer sjeu ekki eins fullkomnir eins og þeir ættu að vera, og í öðru lagi að skólar þeir í nágrannalöndunum, sem ungir menn nema verslunarfræði í, sjeu heldur ekki alfullkomnir. En því meiri trygging er fyrir góðum árangri, sem lengra líður og skólarnir fá meiri festu. Það er vitaskuld ekki gefinn hlutur, að skólagangan geri alla að fínum verslunarmönnum, en með henni er þó trygð sú lágmarksþekking, sem óhjákvæmileg er í því starfi, sem þeir eiga að taka að sjer.

Það er samkv. till. hv. meiri hl. gert ráð fyrir, að stjórnin setji reglugerð um þetta efni. Það verður þá væntanlega hæstv. atvrh. (MG), er hana semur, og þætti mjer fyrir mitt leyti mjög fróðlegt að heyra, hvernig hann hugsar sjer að haga skilyrðunum í þessu efni. Því annaðhvort verður að fara nokkuð nærri því, sem hjer er talað um, eða skilyrðin verða því nær engin, eða hafa enga þýðingu fyrir stjettina.

Jeg held, að Alþingi megi vel líta á það, að frá kaupmannastjettinni sjálfri hafa komið kröfur um skilyrði. Og ennfremur að kaupmannastjettin hjer í bænum er að undirbúa lagabálk um verklega þekkingu á verslunarsviðinu. Og þegar þar við bætist, að kaupfjelög hjer á landi hafa ekkert að segja í gagnstæða átt, þvert á móti eru þau samdóma Verslunarráðinu, eða vilja jafnvel ganga lengra, þá sje jeg ekki ástæðu fyrir þingið að halda þessari götu víðari heldur en þeir vilja, sem að verslun vinna.

Þá kemur síðasti liðurinn í brtt. okkar minnihlutamanna, um það að hækka árgjald fyrir verslun um helming. Var jeg satt að segja nokkuð hissa á, að hæstv. ráðherra skyldi ekki verða glaður yfir þeirri breytingu. Fyrst og fremst er þarna fundið fje fyrir ríkissjóðinn, það sem það nær; og á hinn bóginn er þessi skattur svo óendanlega hverfandi lítill, borið saman við útgjöld hjá hverri verslun, sem nefnandi er því nafni. Við vitum það vel, sem kunnugir erum hjer í Reykjavík, að meðalbúðarleiga — ekki fyrir stóru búðirnar, heldur litlar búðir — er oft um 300 kr. á mánuði. Hvað munar verslun, sem borgar 3600 kr. á ári í leigu, um einar 300 kr. í árgjald til ríkisins? Hæstv. ráðherra ber fyrir brjósti ekkjurnar, sem versla. Nú erfa þær sumar hverjar blómlegar verslanir; býst jeg alls ekki við, að þær verði frekar en aðrir í vanda með þessar 100 kr. Yfirleitt get jeg ekki hugsað mjer nokkra verslun, sem nefnandi er því nafni, sem munar nokkuð verulega um slíkt gjald. Ríkissjóð munar dálítið um það, þegar alt kemur saman; en aðallega hefir það þá þýðingu, að svo að segja hver aumingi sje ekki að byrja verslun. Það munar sem sagt engu fyrir dugandi fólk, þá, sem hafa efni og andlegan kraft; en það getur munað þá, sem ekki í neinum kringumstæðum ættu að hafa opna búð. Mjer urðu það vonbrigði, að hæstv. ráðherra (MG) skyldi ekki geta verið þessu fylgjandi. Get jeg því varla sjeð líkur til þess, að honum sje alvara að vilja með frv. þessu nokkuð verulega þrengja aðgang að stjettinni. Og er það þó svo, eins og hann tók sjálfur fram og öllum er vitanlegt, að stjettin er of stór, og eykst mikið með ári hverju.

Að síðustu vil jeg minnast á atriði, sem jeg er alveg samdóma hæstv. ráðherra (MG) um í raun og veru, þó jeg sje einn af þeim nefndarmönnum, sem hafa skrifað undir brtt. í gagnstæða átt. Jeg á við þann þátt frv., sem lýtur að því að greina alveg sundur heildsölu og smásölu. Fyrir mitt leyti geng jeg fúslega inn á þetta atriði stjfrv.; en niðurstaðan varð sú í nefndinni, að það væri ekki vel framkvæmanlegt, þó það væri að kenningunni til rjettara, og höfum við því gert þá breytingu, sem hv. frsm. (JJós) mintist á. En jeg vil aðeins undirstrika það, að það er vafalaust rjett hjá hæstv. ráðherra (MG), að þetta ákvæði, að heildsalar megi hafa smásölu, verður óánægjuefni milli þessara tveggja verslunargreina. En fulltrúi smásölunnar áleit þetta eiginlega góða lausn; og jafnframt var okkur ljóst í nefndinni, að ef einhver heildsali vill versla í smásölu, þá getur hann raunar ósköp vel gert það með lepp, eins og verslun hefir stundum verið rekin á útibúum. Jeg býst við, að þó stjfrv. sje máske í kenningunni rjett í þessu efni, þá sje þessi málamiðlun ekki óskynsamleg leið, að minsta kosti í bili, til þess að sjá, hvað þessar stjettir geta þolað í sambúðinni á þennan máta.

Ætla jeg svo ekki að tala frekar um þetta nú, og líklega ekki nema lítið eitt síðar meir. En jeg vil aðeins taka það fram, að ef litið er stórt á málið, þá er heppilegra að taka till. minni hl. og herða dálítið á skilyrðunum, bæði um heiðarleika í viðskiftum og um þekkingu og að því er snertir gjaldþrot.