03.04.1925
Efri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

8. mál, verslunaratvinna

Jónas Jónsson:

Jeg veit reyndar dæmi til þess, að það hefir komið fyrir á bestu heimilum að lenda í fjárvandræðum einu sinni. En jeg vil halda, að þau dæmi, sem við þekkjum og hugsum kannske báðir um, sanni frekar mitt mál en hv. meiri hl. Þá telur hæstv. ráðh. (MG) það nokkra bót, ef maður eftir að hafa t. d. tvisvar lent í fjárvandræðum, ef hann hefir komið lagi á allar skuldirnar. Þetta er formlega rjett. En í þessari kreppu, sem verið hefir nú síðustu árin, þá hefir því verið þannig varið, að enginn er kallaður gjaldþrota, sem hægt er að semja við um 5–10% af allri skuldasúpunni. Aðeins þeir, sem svo langt eru sokknir niður, að ekkert næst hjá, eru kallaðir gjaldþrota. Því oftar sem slíkt kemur fyrir, því verra fyrir þjóðfjelagið í heild. Og þetta er ein af ástæðunum til þess, að báðir bankarnir hafa svo háa vexti. Þeir hafa lánað fyrirtækjum, sem þeir svo hafa orðið að ganga inn á samninga við um stórfeldar uppgjafir. Þótt sum af óhöppum fyrirtækja á undanförnum árum megi telja óviðgeranleg, þá hafa þó ýms áreiðanlega verið viðgeranleg.

Þá sagðist hæstv. ráðherra ekki vilja gefa þessum skólum hjer neinn einkarjett. Jeg vil benda á það, að þeir, sem standa að þessum skólum hjer á landi, Verslunarráðið og þeir, sem standa að samvinnuskólanum, eiga sjaldan samleið. Því ekki að taka tillit til þessara aðilja, er þeir eru sammála? Það má því frekar ganga út frá góðum málstað þegar svona stendur á.

Jeg veit, að hæstv. ráðherra hefir tekið eftir því, að tekin verða til greina próf frá útlendum skólum; og mjög margir verslunarmenn hjer á landi hafa slík próf. Um það ætlast jeg einmitt til, að hæstv. stjórn segi álit sitt, af því skólarnir geta verið svo misgóðir. Jeg játa, að það er rjett hjá hæstv. ráðherra, að verði þessi grein um prófin samþykt við þessa umr., þá er óhjákvæmilegt við 3. umr. að bæta því við, að þessar tvær íslensku stofnanir sjeu skyldar til að prófa menn eftir sömu reglu og nemendur þeirra. (Atvrh. MG; En ef þær verða lagðar niður?). Þá yrði ríkið að stofna nýja og dýra skóla. (Atvrh. MG: Þá yrði að breyta lögunum). Það er altaf siður hjer á þingi að breyta lögum til og frá. Annars held jeg, að ef slík þjóðarógæfa kæmi fyrir, að tvær slíkar stofnanir legðust niður, og allir verslunarskólar í nágrannalöndunum, sem Íslendingar hafa sótt, yrðu ekki lengur til, þá mundi tími fást til að finna einhver bjargráð.

Jeg hygg, að hæstv. ráðherra hafi ekki athugað það nógu vel, að sú stefna er stöðugt að verða meir ráðandi hjer á landi og úti um allan heim meðal stjettanna yfirleitt, að gera ráð fyrir, að hvert í meðallagi vandasamt verk verði að lærast.

Jeg sagði í gær við hæstv. ráðherra, að það væri ekki til neins fyrir okkur, sem ekki erum löglærðir, að fara að lesa lagasafnið í þeirri von að verða sýslumenn. Af hverju? Það er enginn vafi á, að ýmsir ólöglærðir menn gætu framkvæmt þau embættisstörf eins vel og þeir, er í embættunum sitja. En af hverju er það ekki leyft? Af því að í prófinu liggur talsverð trygging, þó ekki megi hún örugg teljast. Því jeg get nefnt dæmi, þar sem sýsla var rekin miklu betur af skrifaranum heldur en þegar sýslumaður var heima. Auðvitað er slíkt undantekning. Veröldin er einu sinni búin að slá því föstu um ýmsar greinir atvinnu eða embætta, t. d. um lækna, presta, lögfræðinga og jafnvel málfræðinga, — að jeg ekki tali um skipstjóra og vjelamenn —, að það er óhjákvæmilegt að heimta vissa þekkingu af þeim, er komast vilja í þessar stöður. Frá almennu sjónarmiði mun þetta mæla mjög með till. minni hl., en það er ekkert, sem mælir á móti. En í viðbót við þetta vil jeg taka það fram, að kaupmannastjettin og kaupfjelögin eru samdóma um að sætta sig við þessar kröfur. Og þá sje jeg ekki, hvers vegna sá ráðherra, sem hefir borið fram þetta frv. með þeim rökstuðningi, að það ætti að miða að því að draga úr óeðlilegum vexti verslunarstjettarinnar, getur verið á móti slíkum kröfum.

Hæstv. atvrh. (MG) segir, að ýmiskonar óreiða hjá sýslumönnum landsins stafi minst af vankunnáttu í bókfærslu, heldur af öðrum ástæðum. Þetta mál verður ekki útkljáð hjer. Jeg held við það, sem jeg hefi sagt, og hann vill væntanlega ekki heldur hvarfla frá sinni skoðun. Þó vil jeg benda á, að fyrir skömmu síðan fann háskólinn hvöt hjá sjer til að ýta undir þekkingu stúdenta, einkum laganema, í bókfærslu og hjelt kennara í því skyni. Ennfremur get jeg sagt frá því, að í vetur hefir einn lögfræðistúdent notið tilsagnar í bókfærslu í þeim skóla, sem jeg veiti forstöðu, vafalaust vegna þess, að hann hefir álitið, að betra væri að kunna eitthvað í þeirri grein en kunna ekki.

Enda þótt brtt. okkar á þskj. 270 verði feldar hjer í dag, þá höfum við ekki flutt þær að erindisleysu, því að með þeim höfum við túlkað skoðun verslunarstjettarinnar í landinu, sem óskar eftir, að strangari þekkingarskilyrði verði lögleidd á þessu sviði. Og með þeim er yfirleitt túlkað álit þeirra manna, sem vilja ekki, að verslunarstjettin vaxi svo úr hófi fram, að þjóðfjelagið bíði við það verulegan hnekki.

Hæstv. ráðh. (MG) segir rjettilega, að enga skyldu beri til að fara skilyrðislaust eftir áliti verslunarstjettarinnar, eða Verslunarráðsins fyrir hennar hönd, í öllum málum. Þetta er alveg rjett. En hinsvegar er skaðlaust að taka tillögur hennar til greina, þegar þær falla saman við hagsmuni þjóðarinnar í heild, en það gera þær í þessu efni, eftir því sem jeg fæ best sjeð.