31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skal segja háttv. þm. Borgf. (PO) það, að þó að hann hafi ætlast til, að jeg tæki eitthvað til mín af ummælum hans um ógætilega stjórn á Eimskipafjelagi Íslands á stríðsárunum, þá hvorki þarf jeg eða get tekið neitt af þeim til mín. Hann getur því beint þeim í aðrar áttir.

Annars veit jeg ekki hvað það á að þýða að draga þetta inn í þessar umræður, nema þá, að af því eigi að draga þá ályktun, að ríkissjóði beri skylda til að bæta alt það fjárhagstjón, sem menn biðu á þessum árum.

Sömuleiðis finst mjer ekki viðkunnanlegt að fara að telja það eftir, þó að Eimskipafjelagi Íslands sjeu veittar hinar sömu ívilnanir og öll útlend gufuskipafjelög hafa, sem hingað sigla í samkepni við það.

Að öðru leyti vinnur fjelagið líka fyrir þessum ívilnunum, eins og háttv. þm. Borgf. er vel kunnugt um.

Annars þóttist jeg ekki með mínum hógværu ummælum hafa gefið tilefni til þessarar hviðu háttv. þm.

Ef fara á í samanburð á skólunum, þá verður að bera þennan skóla saman við þá skóla, sem ekki eru ríkisstofnanir, og hefir mjer verið sagt, að það væru milli 10 og 20 unglingaskólar, sem nytu styrks af ríkissjóði. Ef því ætti að fara að taka einn út úr og veita honum sjerstök fríðindi, myndu fleiri koma á eftir, sem eðlilegt væri. Gæti þá svo farið, að fleiri kæmu til greina en Borgarfjarðarskólinn. Annars var jeg alls ekki að leggja á móti þessari fjárveitingu, þótt jeg teldi rjettara, að hún væri í annari grein fjárlaganna.

Mjer þótti háttv. frsm. (TrÞ) fara of mikið út fyrir efnið þegar hann fór að tala um kreppu atvinnuveganna. Hann fór að gera grein fyrir. af hverju hún stafaði, en nefndi, eins og oft vill verða, aðeins einn eða tvo liði í því orsakakerfi, sem kreppunni var valdandi. Skildist mjer helst, að ekki þyrfti annað en kippa þeim burt. Það held jeg samt, að yrði bæði háttv. þm. Str. (TrÞ) og mjer ofvaxið, því að það er fyrir utan okkar umráðasvið.

Þá taldi háttv. frsm. (TrÞ) það skifta litlu máli, hvort tekjur fjárlaganna væru áætlaðar nokkur hundruð þúsund meiri eða minni. Hjer er vitanlega ekkert hægt að segja um, hvort tekjurnar 1926 verða meiri en þær eru áætlaðar. Verði þær meiri, er gott að taka því. En því verð jeg að mótmæla, að það skifti ekki ríkissjóð allmiklu, hvort tekjurnar eru áætlaðar hátt eða lágt. Há áætlun teknanna freistar þingmanna til aukinna útgjalda.

En jeg er sannfærður um, að hv. frsm. (TrÞ) hlýtur að vera mjer sammála um, að ekki sje rjett að hleypa gjöldunum of hátt vegna ljettúðarfullra vona um góða afkomu ríkissjóðs árið 1926.

Þá þóttu hv. frsm. ummæli mín um varasjóð landsverslunarinnar ógætileg. Þetta er ekki rjett. Jeg benti aðeins á, að ef gera ætti meiri kröfur til útgjalda en tekjuhlið fjárlaganna þyldi, þá væri ekki nema um tvent að velja, annaðhvort að taka lán, eða eyða af því, sein til væri. Og þarna væri eign fyrir hendi. Get jeg ekki sjeð, að neitt ógætilegt hafi verið við þetta.

Þá get jeg ekki kannast við, að sú samlíking hv. frsm. (TrÞ) sje rjett, að skerðing þessa varasjóðs væri hið sama fyrir ríkissjóð og fyrir bóndann að skera mjólkandi kú. Varasjóður landsverslunarinnar stendur í steinolíueinkasölunni, og hún er ekki rekin ríkissjóði til tekjuauka, því að ríkissjóður hefir ekki aðrar tekjur af henni en sem svarar vörutollinum af steinolíunni. Vexti fær hann einu sinni ekki af varasjóðnum. Hefði því samlíkingin frá sjónarmiði ríkissjóðs verið miklu rjettari, ef hv. frsm. hefði líkt honum við geldneyti heldur en mjólkandi kú.

Út af ummælum háttv. þm. Dala. (BJ) um þingloforð, bæði nú og endranær, vil jeg taka það fram, að jeg tel þau því aðeins bindandi, að þau liggi skjallega fyrir í Alþingistíðindunum. Um þetta hefir oft orðið ágreiningur, og nú síðast út af ritstyrk til Sigurðar próf. Nordals. Út af þeim ágreiningi skal jeg lýsa því yfir fyrir mína hönd, að við samning fjárlagafrumvarpsins taldi jeg samþykt þingsins í fyrra um ritstyrk þennan ekkert loforð um framhaldsstyrk, og einmitt fyrir þá sök tók stjórnin ekki tillöguna, sem samþykt var í fyrra, óbreytta upp í frumvarpið.

Í sambandi við þetta ber hv. þm. Dala. (BJ) fram brtt. á þskj. 204 við 25. gr. fjárlaganna. En mjer finst hún óþörf, því að hann vill auka því við, sem stendur í greininni. Því eins og háttv. þdm. er kunnugt stendur þar, að þær fjárveitingar, sem eigi eru ákveðnar í lögum, öðrum en fjárlögum, tilskipunum, konungsúrskurðum eða öðrum gildandi ákvörðunum, gildi aðeins fyrir fjárhagstímabilið. Þetta stendur sömuleiðis í till. háttv. þm., að viðbættu: „og fylgi þeim eigi fyrirheit um framhald“.

Hvað háttv. þm. Dala. (BJ) á við með orðunum „fyrirheit um framhald“ er mjer ekki fyllilega ljóst. Ef það er gefið á þann hátt, að það falli undir bindandi ákvörðun, þá telst það til skuldbindingar, sem ríkið tekur á sig með samningnum. Mjer finst því, að viðbót háttv. þm. ekki gera annað en gera hugtakið óákveðnara. Jeg held því, að rjettara sje að samþykkja ekki tillögu háttv. þm. við 25. gr., en láta ákvæðið standa eins og það hefir staðið um langt skeið í fjárlögunum.

Jeg gladdist yfir að heyra það, sem þessi háttv. þm. sagði um Skeiðaáveituna. Hann var nýbúinn að segja um sjálfan sig. að hann væri aðeins lítilfjörlegur málfræðingur. En eftir því, sem hann talaði um Skeiðaáveituna, sje jeg, að hann hefir vel vit á fleiru en málfræði einni. Ber álit hans að öllu leyti saman við álit hins unga og efnilega búfræðings, sem athugaði áveituna síðastliðið sumar. Stingur það allmjög í stúf við skýjaborgir Búnaðarfjelags Íslands um að leggja 100 þús. kr. í tilraunabú á Ólafsvöllum og kaupa beljur til þess að jeta heyið. (TrÞ: Till. er ekki frá Búnaðarfjelaginu). Jeg les Búnaðarritið, og þar stendur tillagan, en tel fjelaginu það heiður að meiri, ef hún er ekki frá því. (TrÞ: Tillagan er frá Landsbankanum). Þá skal jeg upplýsa það, að jeg heyrði búnaðarmálastjórann lesa hana upp á fundi eins og hún stendur í Búnaðarritinu, og taldi hann þá, að hún væri frá Búnaðarfjelaginu. Og eru fleiri en jeg til frásagnar um það.

Þá vildi jeg segja nokkur orð uni till. mína viðvíkjandi láni Guðmundar Björnssonar sýslumanns í Borgarnesi. Hús hans brann 1920. En 1921 var honum veitt 60 þús. kr. viðlagasjóðslán til þess að byggja hús af nýju, og kostaði það um 80 þús. krónur. Það þýðir ekki að segja söguna öðruvísi en hún er, að þessi maður er ekki svo efnum búinn, að hann geti greitt 6% á ári af láni þessu, auk afborgana, enda eru það hærri vextir en gerist af viðlagasjóðslánum alment. Þótt ríkissjóður sje að vísu í engri hættu staddur, þar sem hann auk hússins sjálfs hefir og að veði jarðeignir, sem aðrir menn hafa lánað sýslumanni til veðsetningar, þá tel jeg rjettara að sýna þessum manni þá tilhliðrunarsemi, sem í tillögunni felst, heldur en að þurfa ef til vill. að ganga að jörðum, sem honum hafa verið lánaðar. Mjer þótti að vísu fulllangt gengið í þessari lánveitingu með tilliti til upphæðarinnar, og því fremur er ástæða til, að lánveitandi sýni nokkra ívilnun. Þess má líka geta, að hjer á í hlut maður, sem er mjög góður gætir ríkisfjár að því er til hans kemur, og er því alls góðs maklegur.

Mjer skildist svo, að hv. fjvn. væri málinu fylgjandi, en nú hefir háttv. frsm. (TrÞ) lýst yfir því, að nefndin hafi óbundin atkvæði um till. Jeg vona samt, að bæði hv. nefnd og deild reynist vel í þessu máli, er til kemur.

Háttv. þm. Mýra. (PÞ) ber fram till. um að hækka vextina niður í 4%. Jeg gæti fyrir mitt leyti vel fallist á þetta, og þá því fremur, er jeg hygg, að meiri hluti viðlagasjóðslána hafi ekki verið lánaðu með hærri vaxtakjörum.

Jeg vil að lokum segja það um til minni hluta fjvn. og einstakra þm., að þar sem mjer finst háttv. meiri hluti fjvn. hafa gengið fulllangt í till. sínum þá ræður að líkindum, að jeg muni vera mótfallinn langflestum hinum tillögunun Annars fundust mjer ummæli hv. frsm. (TrÞ) um hinar ýmsu tillögur einstakra þm. ekki svo ákveðin sem æskilegt hefði verið eða venja hefir verið. Undanfarið hefir það venjulegast verið undantekning, að menn hefðu óbundin atkvæði inan fjvn. Þótt segja megi, að svo sje og þetta sinn, var það þó fulloft, sem háttv. frsm. (TrÞ) ljet slíkt í ljós, og jeg hefði kosið, að meiri hluti fjvn. hefði yfirleit tekið ákveðnari afstöðu gagnvart tillögum einstakra þingmanna, jafnvel þótt meiningamunur hefði átt sjer stað innan hans, eins og háttv. frsm. (TrÞ) gat un (BJ: Þar sem yfirlýst er, að óbundin atkvæði sjeu, er ekkert um að tala). Það er rjett, en mjer fanst á ummælum háttv. frsm. (TrÞ), að nefndin hefði ekki veri nægilega ákveðin um fleiri mál en það sem lýst var yfir því.