07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta kom til þessarar hv. deildar þegar áliðið var þingtímans og var þá sent til allshn. Hefir hún athugað frv. allrækilega, en ekki getað orðið sammála um það. Eins og menn vita, fer frv. þetta fram á breytingar frá því, sem nú gildir, t. d. um rjett manna til að versla með innlendar iðnaðarvörur, sem hingað til hefir ekki þurft verslunarleyfi til að selja, en samkv. frv. þessu þarf nú að kaupa leyfi til þess að versla með þessar vörur. En í frv. er leyft að selja búsafurðir og fiskiframleiðslu án verslunarleyfis, og en það ekki nein breyting. En þó er slík sala því aðeins leyfileg án þess að hafa verslunarleyfi, að aðili hafi ekki opna sölubúð. En þetta, og margt fleira, sem vikið verður að síðar, getur meiri hl. allsherjarnefndar ekki fallist á, og vill því gera ýmsar breytingar á frv., meiri og víðtækari en þær, sem hv. minni hl. telur nauðsynlegt. Ganga breytingar meiri hl. því meir í þá átt að færa frv. í svipaða stefnu og núgildandi lög um þetta efni ákveða. Meiri hl. álítur ekki rjett að íþyngja íslenskum iðnaði með því að gera sölu á honum bundna við verslunarleyfi, og gerir því brtt. um þetta efni við 1. gr. 2. tölul. frv. Þá þykir okkur óviðkunnanlegt að þýða „agentur“ með „tilboðasöfnun um vörusölu og vörukaup“, 1. málsgr., og teljum að orðið „farsala“ sje betra. í 3. málsgr. 1. gr. frv. fellum við burt orðin „til þarfa sinna“, og setjum í þess stað „pöntunarfjelag“, sem átt mun vera við með þessum orðum.

Að öðru leyti gerir frv. ráð fyrir talsverðri rýmkun með tilliti til verslunar með erlendan varning, en meiri hl. getur ekki fallist á, að slík rýmkun sje æskileg eða nauðsynleg, þar sem ekki verður annað sagt en að nógu margir sjeu fyrir, sem fást við verslun. Aðalefnisbreytingar, sem meiri hl. hefir fallist á, að gera þurfi á frv., eru um sölu á iðnaðarvörum og svo um að þrengja rjett manna til að versla með erlendar vörur. Eftir núgildandi lögum mun sami kaupmaður ekki hafa leyfi til að hafa nema eina sölubúð á sama stað, en frv. gerir ekki ráð fyrir, að þetta sje takmarkað. En meiri hl. álítur þetta skakka stefnu og vill færa það í það horf, sem nú er. Myndi hitt ýta undir stærri og voldugri verslanirnar að koma upp mörgum búðum, og eru þær þó nógu víða fyrir, þó ekki sje ýtt undir menn að fjölga þeim með þessu.

Í sambandi við 10. gr. frv. vil jeg gera þá athugasemd, að þó gerður sje í frv. greinarmunur á ýmsum tegundum verslunarrekstrar og mismunandi gjald á hann lagt eftir því, svo sem smásölu, stórsölu, umboðssölu o. s. frv., þá er skiftingin samt sem áður mjög óljós eftir frv. T. d. verður ekki betur sjeð en að sá, sem hefir rjett til að versla í smásölu, hafi einnig alveg sama rjett og stórsalar, nema hvað hann verður aðeins að kalla sig smákaupmann. Nú hefir einnig hv. Ed. breytt frv. í það horf, að stórkaupmenn hafa jafnframt leyfi til að versla í smásölu. Nú vill nefndin leyfa sjer að skjóta því til hæstv. atvrh. (MG), hvort ekki muni vera hægt að koma með skilmerkilegri greining á starfssviðum hinna ýmsu verslunartegunda við 3. umr.

7. brtt., við 11. gr. frv., er um sveitaverslunarleyfi. Viljum við gera heimilisfesti að skilyrði fyrir því, að leyfið sje veitt, því annars mætti hugsa sjer, að kaupstaðaverslanir tækju upp á því að fara að setja upp útibú úti um sveitir. Áður þurfti sá, sem fjekk leyfi til sveitaverslunar, að hafa einhver jarðarafnot, en það skilyrði setjum við ekki, heldur förum við milliveg milli þess, sem er í stjfrv., og þeirra ákvæða, sem nú gilda um þetta efni, og krefjumst aðeins, að sá, sem leyfið fær, sje heimilisfastur í viðkomandi hreppi.

Þá mun sú brtt. meiri hl. þykja máli skifta, að fella niður árgjaldið, sem gert er ráð fyrir í frv. Einnig vill nefndin fella niður heimild ráðherra til að gefa eftir gjald fyrir verslunarleyfi. Mjer finst óþarfi að hafa slíkt ákvæði í lögunum, þar sem allir, sem bolmagn hafa til að reka verslun, geta greitt gjaldið, ekki meira en það er. En að nefndin vill fella niður úr 13. gr. ákvæðin um árgjald, kemur af því, að bæði er smásala lítið arðvænleg og í öðru lagi verður ekki sjeð, hvers vegna beri sjerstaklega að skatta þennan atvinnuveg. Fremur væri reynandi að setja einhverjar frekari hömlur fyrir því, að menn ráðist í verslun að ófyrirsynju.

Þessar munu nú aðalbrtt. meiri hlutans. En svo eru nokkrar smærri, sem jeg vil víkja að fám orðum, og sem flestar ganga út á það að þrengja rjett manna til að reka verslun.

Er þess þá fyrst að geta, að í stjfrv. er eins árs búseta í landinu nægileg til að öðlast leyfi til verslunar, að öðru uppfyltu. Þessu vill nefndin breyta svo, að viðkomandi maður skuli hafa verið búsettur hjer síðustu 3 árin, eða til vara 2 árin síðustu, ef fyrri till. nær ekki fram að ganga. í líku augnamiði er það, að við viljum fella niður 15. gr. frv. Er ekki rjett, að sú grein standi í lögunum, því ef þeir, sem þar um ræðir, hafa öðlast frekari rjett samkvæmt löglegum samningi, þá halda þeir honum hvort sem er.

Þær brtt., sem þá er eftir að minnast á, eru flestar orðalagsbreytingar, og hefi jeg minst á sumar þeirra áður, svo sem brtt. við 1. gr. frv. Í 7. gr. frv. er talað um, að menn „missi kosta“. Þykir meiri hluta nefndarinnar þetta óviðkunnanlegt orðalag, og komum við því með brtt. um að orða þetta á annan veg. Ýmislegt fleira af þessu tægi mætti nefna, en jeg hirði ekki að vera að telja það upp. En þess vænti jeg, að allir muni fallast á, að orðabreytingar nefndarinnar miði flestar heldur til bóta.

Að lokum vil jeg geta þess, að þó að nefndin hafi varið allmiklum tíma til að athuga frv., þá má vel vera, að ýmislegt hafi farið framhjá henni, sem ábótavant er við frv. Jeg efast ekki t. d. um, að ýmislegt fleira hefði mátt færa þar til betra máls.

Jeg tel víst, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) muni sjálfur gera grein fyrir sínum brtt., og fer jeg því ekki út í þær að þessu sinni.

Vænti jeg svo, að háttv. deild sjái sjer fært að samþykkja brtt. meiri hlutans.