07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

8. mál, verslunaratvinna

Bernharð Stefánsson:

Eins og sjá má á þskj. 460, þá hefi jeg skrifað undir nál. meiri hl. allshn. með fyrirvara. En þar sem hv. frsm. meiri hl. (JBald) skýrði ekki að öllu rjett frá um eitt atriði þessa máls, sem olli því, að jeg skrifaði undir með fyrirvara, þá verð jeg að skýra ofurlítið frá afstöðu minni.

Sannleikurinn er þá sá, eins og jeg tók fram við nefndina, að fyrirvari minn þýddi það, að jeg gat ekki verið háttv. meðnefndarmönnum mínum sammála um að fella niður árgjaldið. Jeg álít, að verslanir sjeu þegar nógu margar, og helst of margar, í landinu, og að það sje ekki nema rjett og gott að setja einhvern hemil á þær; og jeg tel, að þetta árgjald, þótt lítið sje, geti orðið hemill á því, að rokið sje til að setja upp smáverslunarholur, sem svo venjulega falla um koll fljótt aftur. Jeg get ekki sjeð, að neitt ranglæti sje í því fólgið að leggja slíkt árgjald á verslanir, ekki hærra en það er; því það, að þjóðfjelagið veitir þennan rjett, að hafa opna sölubúð og reka opinberlega verslun, það eru svo mikil rjettindi, að ekki er óeðlilegt, þótt fyrir þau sje eitthvað borgað. Jeg veit, að það mun verða sagt gegn þessu, að árgjaldið leggist á viðskiftamennina, það verði því ekki annað en nýr neysluskattur. En jeg hygg, að sá skattur muni nema sáralitlu, ef um nokkra verslun er að ræða; en eins og jeg hefi þegar sagt, ætti árgjaldið samt að geta orðið til einhverrar hindrunar því, að þessar smáu verslunarholur þytu upp eins og gorkúlur á haug. En verslun, sem er meira en nafnið tómt, munar þetta náttúrlega sáralítið.

Þá er annað atriði, sem jeg gat ekki fallist á í till. meiri hl., í brtt. við 3. gr., þar sem meiri hl. leggur til, að í staðinn fyrir „síðasta árið“ í 1. tölulið komi: 3 síðustu árin. Mjer finst það ekki allskostar rjettlátt að gera svo strangar kröfur til manns, þó hann vilji fá að versla hjer á landi, að hann þurfi endilega að hafa verið búsettur hjer 3 síðustu árin. Það má hugsa sjer góðan og gildan Íslending, sem hefir verið búsettur erlendis, og vill svo fara að versla hjer. Mjer finst hart, að hann þurfi að bíða eftir því í 3 ár. Jeg gæti ef til vill gengið inn á varatill. um 2 ár, en alls ekki aðaltill.

Jeg ætla svo ekki að eyða tímanum að ræða meira um þetta mál. Hefði slept því að gera nokkra grein fyrir þessum fyrirvara, ef ekki hefði viljað svo til, að hv. frsm. meiri hl. gleymdi að geta um það, að jeg skrifaði undir nál. meirihl. með fyrirvara og var honum ekki sammála um þessi tvö atriði.