07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

8. mál, verslunaratvinna

Sveinn Ólafsson:

Jeg er ekki viss um, hvort í frv. þessu felast meiri rjettarbætur en rjettarspjöll. Eins og það er nú, finst mjer áhalt vera um þetta tvent.

Breytingar þær frá núgildandi lögum, sem frv. þetta flytur, ganga mest í þá átt að auka tekjur ríkissjóðs af verslununum, og eru því einskonar óibein skattalög; því að þau auknu gjöld, sem með þessu eru lögð á verslanirnar, koma vitanlega niður á viðskiftamönnunum. Má því segja, að hjer sje verið að fá einni stjett manna í hendur skattheimtu og skattálögurjett fyrir ríkissjóð. En hvort það er svo mikill búhnykkur, læt jeg ósagt, því sú skattheimta hefir í för með sjer álagningu á skattinn. Auðvitað fær ríkissjóður töluverðar tekjur með þessu í árgjöldum, ef fram gengur, en jeg álít það samt ekkert hagræði eða rjettarbót.

Um þetta skal jeg svo ekki fjölyrða frekar. Hv. frsm. beggja hluta allshn. hafa líka talað um þetta alment.

Hjer liggja fyrir til umr. brtt., bæði frá meiri og minni hl. allshn., á þskj. 460 og 419. Flestar eru þær til bóta. Þó vil jeg sjerstaklega undirstrika brtt. hv. meiri hl., því að þær færa frv. í aðgengilegri búning en áður var, ef samþykki ná. Eftir að brtt. þessar komu fram og jeg hafði sjeð þær, leyfði jeg mjer að koma fram með nokkrar viðbótartillögur við þær, á þskj. 470. Jeg hafði í byrjun hugsað mjer að hafa þessar till. fleiri, en af því að hv. meiri hl. kom fram með nokkrar brtt. samkynja þeim, sem jeg hafði hugsað mjer, fjell jeg frá sumum þeirra. Till. mínar koma hvergi í mótsögn við brtt. hv. meiri hl., en í tveimur atriðum ganga þær nokkuð lengra.

Jeg legg til, að sú breyting sje gerð við 4. gr. frv., að í stað þess að ráðherra úrskurði í hverju einstöku tilfelli, hvort ákveðinn embættismaður eða sýslunarmaður megi fá verslunarleyfi, þá skuli það lagt undir hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnir. Hv. frsm. minni hl. (JK) vjek að þessu, og að því er mjer skildist, taldi hann, að bæjar- og sveitarstjórnir mundu ekki alment vera færar um að dæma um þetta. Jeg lít svo á, að þeim megi betur treysta til að meta það, hvort sameina megi opinbera starfið við verslun, en ráðherra, sem sjaldnast getur komið á vettvang, og þess vegna síður dæmt um það, hvort verslun komi í bága við störf sýslunarmanns, en handgengnir menn.

Annars verð jeg að segja það um 4. gr., að mjer finst hún yfir höfuð óeðlileg. Eins og t. d. að meina konu hafnsögumanns að reka smámunaverslun eða konu símstöðvarstjóra, sem líka verður að teljast sýslunarmaður landsins. Að þessu leyti tel jeg 4. grein ganga of langt og álít eðlilegt, að það sje lagt undir bæjar- og sveitarstjórnir að skera úr, hvort slíkur verslunarrekstur geti komið í bága við þau opinberu störf.

Þá er 2. brtt. mín, við 5. gr. Þar legg jeg til, að niður falli síðasti málsliður 2. tölul. greinarinnar, þar sem ráðherra er heimilað að veita undanþágu um, að fullur helmingur af stofnfje verslunarfyrirtækis skuli vera innlendur. Þetta ákvæði finst mjer með öllu óþarft, því jeg tel ekki viðeigandi að opna upp á gátt fyrir útlendum fjesýslumönnum og leyfa þeim skilyrðislaust að keppa við landsmenn í verslun eða öðru innanlands. Það er einmitt í þessu, sem jeg geng nokkru lengra en hv. meiri hl. allshn.

Þriðja brtt. mín er við 6. gr. frv. og lýtur að því að fella niður þau ákvæði greinarinnar, sem banna ekkju manns, sem verslar í sveit, að hagnýta sjer, að honum látnum, verslunarleyfi hans. Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú, að í grein þessari er gert ráð fyrir, að ekkja manns, sem verslar í kaupstað eða kauptúni, megi hagnýta sjer rjett þennan. En jeg lít svo á, að hið sama eigi að gilda í báðum tilfellunum.

Háttv. frsm. minni hl. taldi, að þessi rjettindamunur þyrfti að vera svo, vegna samræmis við 11. gr. En jeg tel það óþarfa, jafnvel þó að litið sje svo á samkvæmt 11. gr., að leyfi til sveitaverslunar sje ekki háð eins þröngum skilyrðum um þekkingu sem verslun alment, því að ekkjurnar, sem leyfið ekki var miðað við í upphafi, eru vitanlega jafnhæfar, hvort sem þær eru heldur úr sveit eða kaupstað, og ber því sami rjettur til þess að njóta þessara hlunninda.

Þá er 4. brtt. mín. Hún er við 11. gr. frv. og er að nokkru leyti hliðstæð brtt. hv. meiri hl. á þskj. 460, en fer að nokkru leyti lengra. Jeg legg nefnilega til, að sá, sem vill fá sveitaverslunarleyfi, verði að hafa ábúð á jörð eða jarðarparti í hreppnum. Háttv. frsm. minni hl. taldi þetta ákvæði úrelt og óþarft, en jeg tel það eiga eins vel við og áður, því jeg býst ekki við, að sveitamenn kæri sig um að fá hina og þessa hlaupagosa úr kaupstöðunum til þess að reka verslun uppi um sveitir. En við því má búast, ef þetta ákvæði er ekki sett. Enda býst jeg ekki við, að sveitunum verði neinn ávinningur að þvílíkum útibúum úr kaupstöðum. Hitt er aftur víst, að sá, sem hefir jörð eða jarðarpart til afnota, hlýtur að vera þar fastur búandi og því um leið samverkamaður og stuðningsmaður sveitarfjelagsins og sveitarbúa.

Loks er síðasta eða 5. brtt. mín. Hún er ekki efnisbreyting, en lagfæring á máli, sem er óvenjulega álappalegt á þessari grein. Meiri hl. hv. allshn. hefir vitanlega lagt til breytingu í þessu efni, en hún gengur ekki eins langt og nægir ekki til þess, að greinin verði óbjöguð.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta að sinni, enda býst jeg ekki við, að um þessar brtt. þurfi að deila.