07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg skal byrja á því að láta í ljós undrun mína yfir því, hve ómjúklega hæstv. atvrh. (MG) hefir tekið á breytingartillögum okkar. Hann hlýtur þó að játa, að við höfum flýtt málinu eins og okkur hefir frekast verið unt, þar sem það var aðeins hálfan mánuð hjá nefndinni; en það getur ekki talist mikið á mesta annatíma þingsins. Enda sýnir það sig best á því, að efri deild hafði málið frá þingbyrjun til miðs aprílmánaðar. Hæstv. ráðherra verður þó að viðurkenna, að ástæða hafi verið til að athuga þetta mál, þar sem alls hafa komið fram við það 53 brtt. Ætti það út af fyrir sig að vera næg sönnun fyrir því, að málið hafi í raun og veru þurft athugunar við.

Háttv. frsm. minni hl. (JK) andmælti þeirri tillögu okkar að leyfa frjálsa sölu á innlendum iðnaðarvörum. í sama streng tók og hæstv. atvrh. (MG). En jeg lít svo á, að þessi tillaga sje alveg í samræmi við það, sem ávalt hefir verið stefna þingsins, að hlynna að innlendum iðnaði. Þetta eru töluverð hlunnindi fyrir iðnaðarmenn, að þurfa ekki að kaupa verslunarleyfi til þess að versla með varning sinn.

Hjer þýðir ekkert að vera að tala um verksmiðjuiðnað í stórum stíl, eða miða við hann. Það er ekkert sambærilegt okkar iðnaði, og víst er það, að iðnaður verður seint aðalatvinnuvegur okkar.

Hæstv. atvrh. (MG) tók til dæmis, hve hættulegt það gæti verið, ef einn maður keypti t. d. upp alla dúka Álafossverksmiðjunnar. Á því er engin hætta, eða ekki meiri en ef verksmiðjan veitti einum manni einkaumboð til þess að selja vörur sínar. Enda mundi salan ekki verða mikil, ef þessir dúkar frá Álafossi fengjust ekki nema í einni búð. Röksemdir þær, sem fram hafa verið bornar gegn þessari tillögu, eru því á engum rökum bygðar. Tillagan er í fullu samræmi við það, sem verið hefir, að iðnaðarmenn hafa ekki þurft sjerstakt verslunarleyfi til þess að versla með framleiðslu sína.

Þá hefir verið fundið að orðinu „verslunarumdæmi“, og hafa sumir þingmenn viljað setja það í samband við það, þegar landinu var skift í verslunarhjeruð á einokunartímunum. En hæstv. ráðh. skildi það þó ekki svo, heldur á þann hátt, sem nefndin ætlaðist til, sem sje, að hjer sje með orðinu verslunarumdæmi átt við hina löggiltu verslunarlóð þess staðar, sem um er að ræða.

Hæstv. atvrh. fór hörðum orðum um það, sem jeg sagði í upphafi ræðu minnar í dag, að hjer væri að ræða um rýmkun á verslunarlöggjöfinni. Hann taldi þvert á móti og vitnaði í ákveðin skilyrði um verslunarþekkingu, heiðarleik o. fl. En jeg vil segja hæstv. ráðherra (MG) það, að ýms af skilyrðunum í 3. gr. frv. eru í lögum áður, þó að þeim hafi ekki verið fylgt, og ekkert er víst, að þeim verði betur fylgt eftirleiðis, þótt þau verði nú endursamþykt á ný. En hvorki hæstv. atvrh. nje nokkur annar getur borið á móti því, að með þessu frv. er að ýmsu leyti rýmkað um frelsi manna til verslunar, bæði í sveitum og eins hvað það snertir að hafa fleiri en einn útsölustað í sama kaupstað.

Hæstv. atvrh. fór háðulegum orðum um brtt. nefndarinnar og kallaði þær sparðatíning. En það sýnir best, að frv. hefir ekki að nauðsynjalausu verið athugað í báðum deildum þingsins, að þrátt fyrir allar brtt. og „sparðatíning“, þá hefir nú verið bent á það, að nefndum beggja deilda hafi yfirsjest um mikilsvert atriði í frv., þar sem er um óljósa skilgreining að ræða milli hinna ýmsu tegunda verslunar. Það er í raun og veru sönnun þess, að við höfum ekki gengið nógu langt í „sparðatíningnum“. Hæstv. atvrh. sagði, að frv. væri samið af besta íslenskumanni landsins, próf. Einari Arnórssyni. Jeg neita því alls ekki, að hann sje góður íslensku- og lagamaður, en honum virðist þó geta mistekist, þó hann sje góður lögfræðingur og íslenskumaður, og þarf það raunar ekki að rýra álit hans, því öllum getur yfirsjest, enda mun hann hafa samið frv. eftir uppkasti, sem áður var búið að semja og mun hafa verið miður vel orðað. Jeg skil það líka svo, að því aðeins sje frv. vísað í nefnd, að þau sjeu athuguð þar, bæði hvað snertir efni og orðfæri, og hvorki megi stjórn nje þm. mislíka, þó nefndirnar geri við þau sínar athugasemdir, ef ekki er um að ræða óforsvaranlega útúrsnúninga, en um slíkt er hjer alls ekki að tala.

Hæstv. atvrh. (MG) fann að þeirri brtt. meiri hl., að orðið „farsali“ er sett í stað „tilboðasafnari“, og þótti skift um til hins verra. Hv. 1. þm. Árn. (MT) hefir svarað þessu, og skal jeg ekki gera það frekar, en þó vil jeg segja út af því, sem hæstv. atvrh. sagði í þessu sambandi, að til væru þeir menn, sem hafa umboð og ekki fara neitt, en safna þó tilboðum, þá á þetta heiti við þá eigi að síður, þar sem þeir selja ekki aðeins á þeim eina stað, þar sem þeir eru búsettir, heldur fá tilboð og safna þeim víðsvegar frá, þótt þeir ferðist ekki.

Hæstv. atvrh. sagði, að það hefði komið óþægilega, þar sem um það er talað í 3. lið, að menn kaupi „til þarfa sinna“. Jeg verð að segja, að þetta kom ekki neitt óþægilega við nefndina, nema henni hafi þótt það leiðinlegt vegna stjórnarinnar að láta þetta standa svona. Hitt þori jeg ekki að segja um, nema einhverjum úr nefndinni hafi flogið í hug að nota þetta frv. stjórnarinnar til þarfa sinna.

Hæstv. atvrh. vildi gera veður út af því, að meiri hl. ætlaðist til, að brtt. hans gengju fram í þinginu hljóðalaust. En það er ekki neitt óþægilegt fyrir nefndina, þó hjer verði umr. Það er miklu óþægilegra fyrir stjórnina, að þessar umr. hafa átt sjer stað. Annars eru allar aðfinslur hæstv. ráðh. (MG) við nefndina ómaklegar. Nefndin hefir alls ekki tafið málið. Þvert á móti hefir hún lagt sig fram til þess að gera frv. aðgengilegra, og hæstv. ráðherra hefði átt að vera henni þakklátur. En hitt leiðir af sjálfu sjer, að ef brtt. verða ekki samþyktar, þannig, að menn verði ánægðir með frv., þá er mönnum frjálst, hvort þeir greiða atkvæði með því eða ekki. Hæstv. atvrh. sagði, að með brtt. væri frv. gert ómögulegt að komast gegnum þingið tímans vegna. Það get jeg ekki sjeð. Jeg veit ekki til þess, að enn sje ákveðið, hvenær þingi skuli slitið. En ef frv. þykir sú vansmíð, að ekki sje við unandi, þá er ekki rjett að láta það ganga fram fyr en það hefir verið nægilega lagfært. En annars verð jeg að halda því fram, að enn sje nægur tími til þess að afgreiða frv. Það er eftir að halda svo marga fundi í deildunum, að þó frv. eigi eftir að ganga til 3. umr. hjer, og síðan til hv. Ed. og hingað aftur, þá mun tíminn samt endast til þess að afgreiða það.

Því hefir verið haldið hjer fram, bæði af hæstv. atvrh. og hv. þm. V.-Sk. (JK), að þessi lög tækju einnig til samvinnufjelaganna, þrátt fyrir þau sjerlög, sem um þau gilda. Jeg játa það, að um það má deila, hvort frv. taki til samvinnufjelaganna eða ekki. En það er undarlegt, að hvorki í frv. sjálfu nje í aths. við það er það fram tekið, að það skuli gilda fyrir samvinnufjelögin. Og meiri hl. allshn. leit svo á, að svo væri ekki. Enda er til nýr. lagabálkur um þau, þar sem alt er tekið fram um rjettindi þeirra og skyldur, og ætti það að nægja. Það er því eðlilegt að líta svo á, að þessi lög nái aðeins til atvinnu kaupmanna.

Jeg veit, að hæstv. atvrh. vill láta líta svo út, sem 5. gr. frv. taki hjer af allan vafa, en svo þarf alls ekki að vera. Það geta verið fjelög önnur en samvinnufjelög, þar sem allir bera ábyrgð á skuldum fjelagsins. Jeg hefði þá a. m. k. kunnað betur við það, að t. d. í lok 17. gr. hefði verið beint tekið fram, hvaða ákvæði úr samvinnulögunum væru hjer með úr gildi numin, eða að hve miklu leyti ákvæði frv. tækju til samvinnufjelaganna.

Jeg verð að líta svo á, að frv. stjórnarinnar verði ekki aðgengilegt, nema á því veiði gerðar minst þrjár höfuðbreytingar, sem sje að undanþiggja innlendan iðnað verslunarleyfi, að kaupmenn hafi ekki rjett til þess að hafa marga útsölustaði í sama kaupstað, og að leyfi til sveitaverslunar sje bundið við heimilisfestu. Á þessi þrjú atriði tel jeg rjett að leggja hina mestu áherslu. Þá eru ýmsar orðabreytingar, sem enginn ágreiningur er um. — Jeg get svo endað mál mitt. Háttv. 1. þm. Árn. (MT) hefir svarað flestu, sem jeg hefi ekki minst á nú.