07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal vera mjög stuttorður, vegna þess að umr. eru þegar orðnar langar. Jeg vildi mjög gjarnan, að þetta frv. mætti komast áfram, þó jeg sje nú mjög hræddur um, að það dagi uppi, vegna þess að hjer verði samþyktar brtt., sem hv. Ed. getur ekki gengið, að, og verður þá málið að hrekjast milli deilda, og ef til vill koma í sameinað þing, en til þess mun varla vinnast tími.

Hv. frsm. meiri hl. (JBald) sagði, að jeg hefði verið með ónot við nefndina. Jeg vil nú ekki viðurkenna, að jeg hafi verið með nein ónot í hennar garð. En til hins verður ekki ætlast, að jeg flatmagi í þakklæti til nefndarinnar, þó hún hafi að vísu afgreitt málið, en líka gert ýmsar brtt., sein jeg tel óþarfar. Jeg var hv. nefnd þakklátur, er jeg heyrði, að hún vildi, að málið gengi fram, en jeg sagði um leið, að hún hefði lagt stein í götu þess með brtt. sínum. Hjer er ekki hægt neinu að spá um það, hvernig fer, en vitaskuld mun jeg reyna að herða á framgangi málsins eins mikið og jeg get.

Já, það voru þessi hlunnindi fyrir innlendan iðnað. Hv. frsm. (JBald) sló mjög á þá strengi, að það þyrfti að vernda innlendan iðnað. En það munu vissulega flestir hugsa svo, að það sje ekki minni vandi að versla með innlenda en útlenda vöru, og þar verði viss þekking og heiðarleiki að vera skilyrði, ekki síður en við verslun með útlenda vöru. Umhyggjan fyrir hinni innlendu framleiðslu á að koma fram í því að tryggja það, að þeir, sem með hana versla, sjeu engu miður hæfir en hinir.

Þegar jeg í fyrri ræðu minni var að tala um það, að þetta frv. þrengdi aðgang að verslunaratvinnu, þá átti jeg ekki síst við þekkingarskilyrði, hærri leyfisgjöld o. fl., enda var þetta viðurkent í hv. Ed. Nú sjer hv. frsm. meiri hl. (JBald) aðeins tvö ákvæði, sem stefna í hina áttina, og dregur þar af þá ályktun, að alt frv. gangi í þá átt, þó mörg ákvæði þess stefni að hinu, að þrengja aðganginn, eins og jeg nefndi. Þetta er kallað að gera undantekningarnar að reglu. Hv. frsm. (JBald) sagði, að enginn gæti þykst við brtt., og það er rjett; jeg hefi heldur ekki gert það. Það er nú svo, að þegar verið er að deila um mál, hversu gott sem það er, þá eru skoðanirnar oft mjög mismunandi, og varla hægt að orða svo, að allir viðurkenni, að það sje gert á besta hátt. En sem sönnun þess, að frv. væri fullvel orðað, þá nefndi jeg höfund þess, og hv. frsm. (JBald) viðurkendi, að hann væri með allra færustu mönnum. (MT: Það viðurkenna allir). En nefndin hefir nú samt talið sig snjallari en höfund frv.

Annars er þetta ekki einasta frv. frá hv. nefnd, sem hún hefir breytt orðalagi á. Henni er auðsjáanlega sýnt um að gerbreyta orðalagi, en hún skeytir minna um meininguna. (JBald: Við höfum venjulega farið eftir bendingum hæstv. atvrh.). Nefndin hefir aldrei kallað mig á fund. Jeg var satt að segja hissa á því, að háttv. frsm. meiri hl. (JBald) skyldi halda því fram, að það væri óglögt, hvort frv. næði til samvinnufjelaga. Þar um var nefndin í Ed. ekki í vafa, og formaður nefndarinnar sagði mjer, að. hann teldi engan vafa á því, enda segir í 2. gr. frv.: „Enginn má reka verslun á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi fengið til þess leyfi lögum þessum samkvæmt“. Og í 5. gr.: „Nú vill fjelag eða stofnun reka hjer verslun, og skal þá svo með fara, sem nú skal sagt verða“, o. s. frv. Hvernig er hægt að tala skýrara en þetta ?

Ástæðan til, að ekki var tekin upp breyting á samvinnulögunum, er sú, að engu ákvæði þeirra þurfti að breyta vegna þessa frv. Þetta er undarlegur misskilningur hjá hv. þm. (JBald), sem ekki er ástæða til að ræða frekar um.