09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það er nú svo um þetta mál, að þótt nokkrar af brtt. allshn. væru samþyktar við 2. umr., þá fjellu samt nokkrar þeirra. Meiri hl. nefndarinnar hefir nú athugað málið á ný, eftir því sem hægt vaf að koma við á svo stuttum tíma, og eftir þá athugun hefir hann leyft sjer að flytja þær brtt., sem standa á þskj. 516 og 517. Fyrsta brtt. á við 1. gr. 3. málslið. Það er þetta „til þarfa sinna“, sem nefndinni þykir ljótt og hefir viljað breyta, en till. um það fjell við 2. umr. Nú vill nefndin enn breyta þessu þannig, að þar standi: til eigin þarfa. Fer betur á því.

Þá er 2. brtt., við 10. gr. 3. málsgr. Það er efnisbreyting. Það hefir komið í ljós við umr. um þetta mál, að bæði meiri hl. allshn. og ýmsum öðrum hefir ekki þótt nægileg grein gerð milli stórsölu og smásölu, þannig, að þeir, sem hafa leyfi til heildsölu, virðast jafnframt geta verslað í smásölu, af því að það er ekki tekið fram, að þeir megi einungis selja kaupmönnum, kaupfjelögum og stærri atvinnurekendum. í frv. er gengið enn lengra, þar sem heildsölum er heimilað, að þeir megi hafa opna sölubúð og reka bæði heildsölu og smásölu á sama stað. Nefndin álítur, að þetta miði til þess eins að fjölga verslunum, því heildsalar eiga ákaflega auðvelt með það að setja á stofn nýjar og nýjar verslanir. Meiri hl. nefndarinnar vill því fella þetta niður úr 3. málsgr. 10. gr.

Þá er 3. brtt. á sama þskj., um að fella niður úr 16. grein frv. upphafning opins brjefs frá 7. apríl 1841, um að banna kaupmönnum að hafa nema eina opna sölubúð á sama verslunarstað. En breyting í þessa átt, við 10. gr., var feld við 2. umr. Við álítum rjett að reyna að takmarka á þennan hátt fjölda verslana, auk þess sem það ella gefur fjesterkum kaupmönnum tækifæri til þess að leggja verslunina á vissum stöðum undir sig með öllu. Vil jeg nú vænta þess, að þessi till. verði samþykt.

Enn er brtt. á þskj. 517 við brtt. á þskj. 484. Sú till. hljóðar svo: „Sala á handavinnu manns sjálfs, konu hans og barna, sem hjá honum eru.“ Þetta „sem hjá honum eru“ vill meiri hl. nefndarinnar fella burt. Meiri hl. virðist ekki ástæða til að heimta það, að börnin sjeu heimilisföst hjá föður sínum, til þess að honum sje leyfilegt að selja handavinnu þeirra. Maður getur t. d. átt son, sem er fluttur af heimilinu, og má þá ekki selja handavinnu hans.

Þá eru ekki aðrar till., sem meiri hl. nefndarinnar leggur til, að gerðar sjeu. Býst jeg við því, að þeir aðrir, sem hjer eiga brtt., muni tala fyrir þeim, og mun jeg þá síðar taka aftur til máls, ef ástæða þykir til.