09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

8. mál, verslunaratvinna

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á hjer tvær litlar brtt. á þskj. 497. Um fyrri till. er það að segja, að jeg tel ekki rjett að lagafyrirmæli, sem snerta svo mjög hag og atvinnu margra manna sem þessi, sjeu látin koma til framkvæmda fyr en þeir, sem eiga við þau að búa, hafa átt kost á að kynna sjer þau. Jeg vænti þess, að þessi till. verði samþykt.

Hæstv. atvrh. (MG) fór nokkrum orðum um síðari till., og var fremur á móti henni, vegna þess, að menn mundu keppast við að kaupa verslunarleyfi fram til 1. júlí fyrir minna gjald. Hjer stendur, að þeir, sem keypt hafa leyfisbrjef fyrir 1. mars þ. á., skuli halda því. En eftir hvaða reglum fer um þá, sem keypt hafa leyfi frá 1. mars og fram að þessum tíma t. d.? (Atvrh. MG: Nýjar reglur). Ef þeir eru búnir að greiða gjaldið — á þá að rukka þá á ný? Jeg gæti hugsað, að slíkt reyndist erfitt þar, sem langt er frá lögreglustjóra til verslunarstaðarins, þar sem maðurinn er. Jeg tel heldur ekki rjett, er menn hafa öðlast leyfi gegn vissu gjaldi, að krefja þá svo eftir á um viðbót samkvæmt lögum, sem samþykt eru eftir á. Jeg legg að vísu ekki mjög mikla áherslu á þetta, en tel þó breytinguna í öllum tilfellum rjetta, því jeg býst ekki við, að lögin verði staðfest fyr en 1. júní.