09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Viðvíkjandi bendingu hv. frsm. minni hl. (JK), þá eiga ekki neinar takmarkanir að vera fyrir heimild stórsala til þess að hafa opnar sölubúðir, og getur hver heildsali notað sjer hana. En ef heimildin er takmörkuð við sjerverslun, þá er öðru máli að gegna. Meiri hl. lítur svo á, að það sje til ills, ef hver stórsali má fjölga verslunum eins og honum sýnist. Það er eðlilegast, að stórsalarnir haldi áfram að selja sínar vörur til kaupfjelaga, kaupmanna og stærri iðnrekenda, eins og áður, og víðast er siður.

Hæstv. atvrh. (MG) lagði á móti till. meiri hl. yfirleitt. En viðvíkjandi 10. gr. frv. er það að segja, að það kemur alls ekki skýrt fram, að menn hafi leyfi til þess að versla víðar en á einum stað í sama verslunarstað. Brtt. í þessa átt, að það væri ekki heimilt, var feld við 2. umr., en úr því hún var ekki samþykt, þá lítur meiri hl. svo á, að fella verði út úr 16. gr. klausuna um opna brjefið frá 1841, og þar með er því slegið föstu, að kaupmenn megi ekki hafa nema eina opna söluíbúð í sama verslunarstað.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vildi ekki ganga inn á brtt. meiri hl. við till. hans. Mjer er það í raun og veru ekki kappsmál, því það er ekki svo mikill munur á, eins og jeg hefi áður tekið fram.

Loks vil jeg víkja því til hæstv. forseta, hvort hann vilji ekki bera upp til atkv. brtt. meiri hl. við 16. gr. áður en 2. brtt. á þskj. 484 er borin upp; því það leiðir af sjálfu sjer, að verði brtt. 484,2 samþykt, þá er þar með gert ráð fyrir mörgum útsölustöðum, og brtt. meiri hl. við 16. gr. þar með þýðingarlaus.