31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1926

Ágúst Flygenring:

Í hinu háa sjávarflóði, sem gerði hjer 21. janúar síðastl., urðu víða skemdir hjer við suðurströndina. en einkum þó í Grindavík. Þessu veðri og afleiðingum þess hefir verið lýst allgreinilega í erindi til fjvn. og hjer í dagblöðnm. Ennfremur hefir stjórnin sent þangað suður verkfræðing til þess að gera skýrslu, bygða á rannsókn á staðnum sjálfum. Skýrslu sinni hefir svo verkfræðingurinn látið fylgja uppdrátt um skemdirnar og það, sem gera þarf til lagfæringar, og sýnir uppdrátturinn glögglega, á hvern hátt þarf að bæta úr skemdunum. Skýrsla verkfræðingsins ber ljóslega það með sjer, að yfir þessu þorpi vofir, að það leggist í eyði, ef ekkert er að gert. Kemur þetta alveg þeim við grein, sem Bjarni Sæmundsson adjunkt skrifaði í blað hjer í bænum um atburð þennan.Hjer liggur nú fyrir á þskj. 204 till. frá hv. þm. Dala. (BJ) um, að þingið veiti styrk til viðreisnar og varnar frekara tjóni á þessum stað. Er jeg háttv. þm. mjög þakklátur fyrir tillögu hans. Jeg finn það eitt að henni, að hún er fulllág til þess að gera örugga vörn fyrir sjávarágangi framvegis, því að þessi upphæð nemur ekki meiru en einum sjötta af því, sem það kostar að gera varnargarð fyrir sjónum, svo að ekki hljótist af meiri skemdir, ef annað eins stórflóð kemur aftur, sem alveg eins má búast við. En vitanlega er þorpið eyðilagt, ef ekki tekst að hefta frekari sjávarágang. Eins og kunnugt er, liggur ströndin þarna mjög við brimum, svo að nálega öll tún fara undir sjó, ef brýtur yfir garða og sker, sem nú hlífa ströndinni. Mjer virðist, eins og hv. þm. Dala. (BJ), að fjárveitingarvaldinu beri skylda til þess að varna því, að heil sveit leggist í eyði, enda hygg jeg, að ekki sje dæmi þess, er svipað hefir borið við í öðrum löndum. að ekki væri reynt að koma í veg fyrir, að fólkið verði að flýja hjerað sitt eða sveit. Það er óhjákvæmilegt, virðist mjer, að fjárveitingarvaldið leggi hjer nokkuð af mörkum, þótt ekki væri nema að gera við lendinguna, svo að bátar geti sótt sjó, því að það er þó aðalatvinna fólksins þarna að veiða fisk.

Jeg hefi svo ekki meira um þetta að segja, en jeg vona, að hv. þdm. gefi þessari styrkveitingu atkvæði sín. Það minsta, sem við getum gert, er að veita 1/6 af kostnaði við að byggja þarna nauðsynlegan sjóvarnargarð, ef annars nokkur styrkur á að vera veittur í því skyni, enda er jeg þess viss, að verði því ekki sint nú, þá verður það gert síðar, því að það verður aldrei látið viðgangast, að fólkið verði knúð til að flýja eignir sínar og atvinnubrögð vegna þess aðeins að það geti ekki af eigin ramleik komi upp varanlegri vernd fyrir háu sjávarflóði, sem ómögulegt er að segja un hvenær kann að koma aftur.