09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Jeg vil taka það fram, að jeg byggi mína skoðun á frv. til atvinnulaga frá 1922, þar sem ætlast er til, að opna brjefið frá 7. apríl 1841 verði áfram í gildi, og segir í aths. við 33. gr. (með leyfi hæstv. forseta):

„Athygli skal hjer vakin á því, að opið brjef 7. apríl 1841 stendur ekki meðal þeirra lagaboða, sem ætlast er til að falli úr gildi með lögum þessum og eru sjerstaklega til nefnd. Ekki fellur þetta opna brjef heldur úr gildi af því, að það brjóti bág við nokkurt ákvæði laga þessara. Það er tæplega ástæða til þess að afnema þetta opna brjef ennþá. Og því er það ekki tekið með hinum lagaboðunum í þessari grein.“

Jeg vil bæta því við, að 10. gr. frv. nú er orði til orðs eins og 9. gr. upprunalega frv. frá 1922. Jeg skil þessa 3. málsgrein þannig, að veita megi sama manni leyfi til að versla í smásölu t. d. í Reykjavík, Hafnarfirði og á Ísafirði, en á hinn bóginn eigi hún ekki við það, hvort verslun hjer í Reykjavík megi t. d. hafa útsölu bæði á Laugavegi og í Lækjargötu. (Atvrh. MG: Í 10. gr. stendur: í sama kaupstað). Það á við stórsölu.

Jeg hefi ekkert á móti því að breyta röðinni í atkvgr. eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vill. En jeg leyfi mjer að leggja hjer með fram skriflega brtt um það, að jafnframt verði þá numin úr gildi síðari málsgr. 27. gr. laga nr. 36, 1921, ef það er vilji Alþingis að leyfa sama manni ekki nema einn útsölustað á hverjum stað, til þess að fá samræmi á milli kaupfjelaga og kaupmanna. Jeg tek það þó fram, að mín brtt. verður tekin aftur, ef brtt. hv. meiri hl. verður feld. Jeg vil leggja áherslu á, að það sama gildi um þessi fjelög og einstaka menn, sem verslun reka.