12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

8. mál, verslunaratvinna

Magnús Torfason:

Jeg vil hafa leyfi til þess að opna munninn út af brtt. þeim, sem fram eru komnar. Er þá fyrst brtt. frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) við 1. gr., um iðnaðinn. Það var nú svo vel frá frv. gengið við 2. umr., að þar vantaði iðnað, og sýnir það meðal annars, hvað málið er vel undir búið og athugað, að það skyldi vanta einn aðallið þess. (Atvrh. MG: Var það undirbúningnum að kenna?). Jeg skal koma að því síðar.

Meiri hl. allshn. þótti greinin of þröng, þar sem stendur „sala á handavinnu“ o. s. frv. Eftir því er það aðeins handavinna, sem má selja án verslunarleyfis. Þær iðnaðarvörur, sem framleiddar eru með vjelum, má eftir því ekki selja nema með verslunarleyfi. En meiri hl. allshn. kemur þó ekki fram með brtt. um þetta efni, í trausti þess, að þetta ákvæði verði skilið rúmt.

Aðalbrtt. allshn. eru við 10. gr. og 16. gr. í brtt. við 10. gr. er farið fram á það, að heildsalar versli ekki einnig í smásölu. í Kaupmannahöfn eru þetta lög og vak að afarstrangt yfir því, að þeim sje hlýtt, svo að heildsalar sjeu ekki að keppa við smásala. Smásalar þar hafa og með sjer öflugan fjelagsskap til þess að gæta þess, að lögin sjeu ekki brotin, og hætta þeir að versla við þá heildsala, er verða berir að því að selja í smásölu. Eiginlega ætti að koma inn í þessa grein ákvæði um það, að heildsalar megi ekki selja öðrum en kaupmönnum og kaupfjelögum, en verði það samþykt, að þeir megi ekki hafa opna sölubúð, þá hygg jeg, að það nægi til þess, að þeir geti ekki kept við smásala. Yfirleitt verð jeg að líta svo á, að ekki sje rjett að ýta á neinn hátt undir samkepni heildsala við smásala, með því að leyfa heildsölum að hafa opna sölubúð, eins og brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) fer fram á. Það gæti orðið til þess, að það mynduðust hringar og hinum stærri með því gefinn kostur á að gleypa hina minni. Það þyrfti ekki marga stórsala til þess að koma mörgum smákaupmönnum á knje. Yfirleitt er hjer um að ræða forrjettindi fyrir heildsala, er hvergi þekkjast annarsstaðar. Það er að vísu svo, að ýmsir stórkaupmenn hjer hegða sjer eins og þeir lifðu undir dönskum lögum og selja ekki öðrum en kaupmönnum; en maður veit, að sum ríkustu firmun hjer, sem flest eru útlend, selja líka í smásölu. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vill lögleiða þetta vegna þess, að farið mundi í kringum ákvæðin á ýmsan hátt. En jeg sje ekki ástæðu til að verðlauna lagabrot manna með því að hafa ákvæðin vægari þess vegna. Sje jeg ekki betur en að samkvæmt þeirri kenningu ætti þá að afnema bannlögin, vegna þess að þau sjeu brotin. Og ef þetta mál er rakið til hlítar, þá skilst mjer, að um leið sje verið að innleiða það siðferði, að ekki þurfi annað en að brjóta einhver lög nógu mikið til þess að þau verði numin úr gildi.

Þá skal jeg fara nokkrum orðum um brtt. við 16. gr., um að opna brjefið frá 7. apríl 1841 sje ekki numið úr gildi. í þessu opna brjefi eru ákvæði um það, að enginn megi hafa fleiri en eina útsöh: á sama stað. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að engin rök hefðu verið færð fyrir því, að þetta opna brjef ætti að standa. Fyrst og fremst er því til að svara, að þetta hafa verið lög hjer og ekki hægt að benda á neinn skaða af þessum ákvæðum, en fyrir 1841 var leyfilegt að hafa margar útsölur á sama stað. 1 forsendum fyrir opna brjefinu stendur þetta, sem jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp:

„Vjer Christján hinn Áttundi o. s. frv gjörum vitanlegt: að Vjer, til að komast í veg fyrir það, að sú samsókn ýmisra verslunarmanna, er nú tíðkast í höndlunarstöðunum á Íslandi, framvegis aftakist, og kauphöndlunin á einum eður fleiri af þessum plássum falli til fulls og alls í eins manns hendur“ o. s. frv.

Reynslan hafði þá sýnt það, að með þeim ákvæðum, að hafa fleiri en eina útsölu í hverjum stað, söfnuðust viðskiftin á eina hönd. Þótt opna brjefið verði numið úr gildi, er ekki svo mikil hætta á þessu hjer í Reykjavík, en það er mikil hætta á því úti um land, þar sem fáar eru verslanir. Og yfirleitt hjelt jeg, að það væri hugsun löggjafarvaldsins, að ekki sje rjett að afnema þau ákvæði, sem vel hafa gefist. Og þess vegna hvílir sú skylda á þeim, sem nú vilja afnema ákvæði opna brjefsins, að sanna sitt mál um að það verði ekki til ills. Í upphaflega frv. var líka ætlast til þess, að opna brjefið stæði óhaggað.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) kom jafnframt fram með brtt. um það að afnema 27. gr. 2. lið í samvinnulögunum frá 1921. Þetta vil jeg ekki fyrir neinn mun. Samvinnufjelögin eru orðin til fyrir neytendur, en ekki sett á fót sem atvinnufyrirtæki, og það ákvæði, sem hjer um ræðir, er eitt með dýrmætari ákvæðum laganna. Ef samvinnufjelögin þróast, þá eru þetta dýrmæt rjettindi fyrir þau, og við vonum, að þau þróist sem best, og einkum veit jeg um hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að hann muni vera fylgjandi því og ekki vilja gera neitt, er gæti orðið því til tálmunar, að sá fjelagsskapur fái notið sín.

Yfirleitt má segja, að stefna frv. nú sje sú, að hlynna að stórkörlum og þeim, sem betur mega, en stefna meiri hl. allshn. sú, að hlynna að hinum smærri. Þetta er mikill stefnumunur. Dálítil breyting varð þó til batnaðar á frv. við 2. umr.; þar á meðal að verja sveitirnar fyrir heildsölum, svo að þeir geti ekki vaðið þar inn hvenær sem þeim líst. Nú er þessi till., er meiri hl. nefndarinnar hefir komið fram með, gerð til þess að vernda hina smáu í kaupstöðunum líka. Það hefir verið fært því til stuðnings að afnema opna brjefið, að það sjeu ekki lengur í gildi slík ákvæði í Kaupmannahöfn og að menn fái þar leyfi til að versla á fleirum en einum stað. Þetta mun vera svo nú um smásala, en ekki var það svo þegar jeg var stúdent. Ástæðan til þessarar breytingar mun vera sú, að nú er Kaupmannahöfn orðin svo stór borg, að ekki er mikil hætta á því, að einstakir menn geti gleypt hina smærri kaupmenn. En í smábæjunum í Danmörku er þetta ekki leyft fremur en hjer. En hjer dugir ekki að miða landslög við Reykjavík eina. Þess var getið hjer í umræðum, að í brtt. meiri hl. nefndarinnar komi fram illvilji í garð kaupmanna. En þetta er ekki rjett. Það er einmitt þvert á móti, Þar kemur fram velvilji í garð hinna minni kaupmanna, og mikill velvilji til neytenda. En hitt er annað mál, að jeg er hræddur við stórsalana, en jeg vil þeim þó ekki neitt ilt. Og mjer er illa við þá stefnu, sem hjer kemur fram, að veita stórkaupmönnum rjettindi á kostnað smákaupmanna.

Þá hefir verið talað um vinnubrögðin í þessu máli. Um það er því fyrst að svara, að allshn. hefir ekki fengið neina erlenda fyrirmynd að fara eftir. En þegar nefndin hafði kynt sjer málið, var hún strax klofin, og varð það því ekki jafnvel athugað og vera skyldi. Þegar nefndir klofna, þýðir það, að málin eru athuguð einhliða beggjamegin, en það er ekki holt fyrir málin. Minni hluti nefndarinnar vildi drífa frv. í gegn óathugað. Það sjest á brtt. hans, sem eru orðabreytingar eða smábreytingar, sem allir eru sammála um, og þó óhæfar sumar, enda síður en svo breytt til batnaðar.

Þrátt fyrir mikla vinnu meiri hlutans, þá er málið þó ekki athugað sem skyldi að því er snertir undirbúninginn. Það eru komnar fram rúmar 60 brtt. við frv., sem er 16 greinar, eða 4 brtt. við hverja grein að meðaltali, svo hæstv. atvrh. þarf ekki að firtast við, þótt menn dáist ekki að undirbúningi málsins. Það er meira að segja spursmál, hvort rjett er að láta svona mál ná fram að ganga, þegar það reynist svo hroðvirknislega úr garði gert, að svona margar brtt. þurfa að koma fram við það. Rjettast væri að vísa málinu aftur til stjórnarinnar til betri athugunar og leggja það síðan fyrir næsta þing. Þó skal jeg ekki vera á móti frv., ef brtt. mínar við 10. og 16. gr. verða samþyktar. En ef svo verður ekki, þá get jeg ómögulega verið með frv. þessu.