12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það kom nú fram í ræðu hv. 1. þm. Arn. (MT), sem jeg hefi altaf sagt, en hann borið á móti, að það er meining nefndarinnar, að frv. þetta nái ekki fram að ganga. Það, sem nú er deilt um í frv., út af heildsölunum og smásölunum, var ekki í frv. upprunalega, en var sett inn í Ed. Nefndin í Ed. fekk á fund með sjer heildsala og smásala og þetta varð að samkomulagi hjá þeim. Jeg fæ ekki sjeð, að með þessu sje gengið á rjett smásalanna, er þeirra umboðsmenn hafa gengið inn á það. Þetta mál var mjög vel athugað í allshn. Ed. og fult samkomulag milli nefndarmanna. Jeg er sannfærður um, að ef brtt. nefndarinnar við 10. grein verður samþykt, þá dagar málið uppi. Það þýðir ósamrœmi í áliti Ed. og Nd. Er hv. 1. þm. Árn. (MT) segir, að hjer sje verið að hlynna að heildsölum, þá lastar hann Ed., en ekki stjórnina. Þá kvartaði hann undan því, að kraftur hafi verið lagður á það að hraða þessu máli. Mjer þykir þetta nú harla undarleg staðhæfing, að ekki hafi verið hægt að athuga mál þetta nógu rækilega, þar sem þetta þing ei nú búið að standa því nær 100 daga og frv. kom fram í byrjun þingsins.

Út af varatill. formanns nefndarinnar, um að vísa málinu til stjórnarinnar, þá óska jeg atkvæðagreiðslu um þetta ágreiningsatriði, til þess að vita vilja þingsins um það.

Þá skil jeg ekki, hví menn vilja halda í opna brjefið frá 1811. Það er með öllu úrelt og afnumið í Danmörku. Þar stendur meðal annars þessi klausa:

„Þegar á nefndri ey fleiri en einn vilja fást við verslun í samfjelagi, og þannig einungis nota eina búð, á það að vera þeirra skylda, að auglýsa þeirra höndlunarnafn í þeim „Berlingsku pólitisku og avertissementstíðindum“.

Jeg skil nú ekki í því, að það sje mikil eftirsjá í slíku ákvæði úr íslenskri löggjöf.

Jeg vil að síðustu mæla með brtt. hv þm. V.-Ísf. (AA). Jeg get vel gengið inn á þær.