12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Meiri hluti allshn. ber fram efnisbreytingar við þetta frv., og ef þær eru feldar, þarf hæstv. atvrh. (MG) ekki að furða sig á því, þó afstaða okkar til frv. sjálfs breytist. Okkur er ant um, að þessar brtt. verði samþyktar. Meiri hluti allshn. hefir lagt mikla alúð við að reyna að gera þetta frv. aðgengilegt, en ekki fengið annað en ill orð og aðdróttanir fyrir. Það hefir verið talað um illvilja og lævíslegar tilraunir til þess að koma frv. fyrir kattarnef. Slíkt eru alveg ósæmilegar getsakir á nefndarmenn. Ef þessar efnisbreytingar okkar verða feldar, þá er eðlilegt, þó við hugsum okkur um, hvort fylgja beri þessu frv. út úr deildinni. Mjer þykir það hart, ef það á að vera sjálfsagt, þótt hæstv. atvrh. hafi bitið sig fast í brtt. Ed., að Nd. segi já og amen við því öllu. Það er sjálfsagt, að þessi deild ráði því, hvernig hún afgreiðir mál. Það á ekki að knýja hv. þm. hjer til að þóknast einhverju „compromis“ milli stjórnarinnar og nefndar í Ed.

Þá vil jeg minnast lítið eitt á brtt. á þskj. 484. Jeg hefi ekki heyrt hæstv. atvrh. lýsa skoðun sinni á þeim. Jeg heyrði að vísu, að hann kvaðst vera þeim samþykkur. En hvernig hugsar hann sjer framkvæmdina? Það væri fróðlegt að heyra. Undir brtt. fellur iðnaður í smæsta stíl, „handavinna manns sjálfs, konu hans og barna, sem hjá honum eru“ o. s. frv. Undir þetta fellur ekkert, sem með vjelum er unnið. Saumakonan og prjónakonan með sínar vjelar falla ekki undir þetta, ekki skósmiður, er notar vjelar við vinnu sína, o. s. frv. Það væri nógu gaman að fá að heyra hjá hæstv. atvrh., hvernig hann ætlar sjer að fylgja þessu í framkvæmdinni.