12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

8. mál, verslunaratvinna

Jakob Möller:

Hæstv. atvrh. (MG) hefir sannfært mig um, að það, sem jeg hjelt fram, er rjett. 5. liður 3. gr. sýnir, að þessi verslun fellur undir þessi lög. Þessi gr. tekur af allan vafa, þó 2. liður 1. gr. ljeti einhvern vafa eftir um það. En það er nú alveg auðsætt, að hann á aðeins við það, sem menn afla sjálfir, eða einhver af skylduliði þeirra, — annað ekki. Meðal þeirra skilyrða, sem þarf til þess að sleppa við að kaupa verslunarleyfi, er einmitt þetta allsherjarskilyrði, að maður hafi sjálfur aflað eða framleitt vörurnar. Og þar sem á eftir upptalningunni er talað um aðrar slíkar vörur, þá felur þetta „slíkar“ það í sjer, að aðrar vörur, sem upptalningin ekki greinir, eigi að öllu leyti að uppfylla hin settu skilyrði, þar á meðal það, að maðurinn hafi aflað þeirra sjálfur. Athugasemdin við 5. lið 3. gr. sýnir, að þessi verslun heyrir undir lögin að öllu öðru leyti en því, að bókfærslukunnáttan er ekki sett sem skilyrði fyrir verslunarleyfi. Jeg veit, að skrifleg brtt. kemur fram til að lagfæra þetta, og býst jeg við að styðja hana.