12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði nú síðast, „að útgerðin væri ekki búin að fá reynslu af háum skatti.“ Já, reynslu! Jeg sje ekki, að það skifti miklu máli, hvað útgerðarmaðurinn er búinn að borga. Hann greiðir það, sem hann á að greiða, ef hann veit um það eða fær að vita það. Jeg er sannfærður um, að nú er enginn sá útgerðarmaður, sem ekki vissi eða hafði sjeð það fyrir, hvað honum bar að greiða í skatt í lok síðastl. árs, og var því við því búinn með handbært fje í þá greiðslu. Og eins þeir útgerðarmenn, sem keypt hafa nýja togara, hvort heldur sem þeir eru nýir sem útgerðarmenn eða gamlir í hettunni; allir munu þeir gera sjer ljóst fyrirfram, hvað þeir eiga að greiða, eða hefðu átt að greiða síðastl. ár.

Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að hár skattur gæti átt að greiðast á tapári samkv. gildandi lögum, og það er rjett, en samkv. núgildandi lögum er skatturinn aldrei greiddur af tapi, heldur aðeins af hreinum gróða. Samkv. þessu frv. verður nú sú breyting á, að mönnum er gert að greiða skatt af gróða, sem ekki er til, sem búið er að ráðstafa. Það er sá mikli munur! Hjer er beinlínis gert ráð fyrir að skattleggja tapið; því gróði liðinna ára, jafnvel þótt verið hafi stórgróði, getur verið farinn út í veður og vind. Það getur verið búið að festa allan gróðann í atvinnufyrirtækjunum sjálfum, — í aukningu útgerðarinnar t. d. eða einhverju öðru — og svo, er greiða skal háskattinn á næsta ári á eftir, sem máske er tapár, þá er ekkert til í hann. Aftur á móti ef greiða skal skattinn í lok gróðaársins, þá hafa auðvitað allir lagt fje til hliðar fyrir skattinum.